Athyglisverð ummæli voru á forsíðu Fréttablaðsins á þriðjudag (11.01.2011). Þar var frá því að sagt, að tveir listamenn, leikstjóri og leikari, Benedikt Erlingsson og Ólafur Egilsson, ætluðu að gera sjónvarpsþætti, sjö þátta flokk, byggðan á Íslandsklukkunni. Þættirnir verða boðnir Stöð tvö. Benedikt segir orðrétt við Fréttablaðið: „Við ætlum að sýna þættina á sjónvarpsstöð, sem sýnir leikið sjónvarpsefni. Það verður ekki boltarásin – RÚV- heldur verðum við að sýna á Stöð tvö, enda er það eina sjónvarpið sem stendur fyrir alvöru íslenskri dagskrárgerð“. Svo mörg voru þau orð. Molaskrifari var þess alltaf handviss að hann væri ekki einn um þá skoðun ,að búið væri að breyta Ríkissjónvarpinu í boltarás og , — ameríska vídeóleigu.
Það er undarleg meinloka hjá Ríkissjónvarpinu að kynna ekki til sögunnar í dagskrárkynningum gesti ,sem koma í viðtalsþátt Þórhalls Gunnarssonar, Í návígi. Þetta skapar enga spennu hjá áhorfendum. Bara pirring.
Í miðnæturfréttum Ríkisútvarpsins (13.01.2011) var sagt að Kaupþing hefði átt Eik banka í Færeyjum. Þetta var endurtekið í morgunfréttum. Þetta er rangt. Kaupþing hefur aldrei átt Eik banka. Eik banki er elsta fjármálastofnun í Færeyjum (1832). Eik banki keypti rekstur Kaupþings í Færeyjum 31. desember 2007. Léleg fjölmiðlun.Ótraust.
Molaskrifari hefur stöku sinnum hlustað á kunningja sinn Elís Poulsen í Færeyjum í morgunútvarpi Útvarps Sögu. Í morgun (13.01.2011) var þar boðað viðtal við hann klukkan hálf níu. Það hófst þegar klukkuna vantaði tólf mínútur í níu. Kunna menn ekki á klukku frekar en hjá Ríkissjónvarpinu? Umsjónarmaður sagði líka, að í Færeyjum væri banki að fara á hliðina. Eik banki fór á hausinn í september og stofnun í Danmörku (Finansiel Strabilitet) tók við rekstrinum. Nú er hinsvegar nýr aðili búinn að kaupa bankann, dótturfélag Tryggingafélags Færeyja. Svo skellir maður náttúrulega upp úr, þegar Íslendingur spyr fréttamann færeyska útvarpsins: Hver er stærsti atvinnuvegurinn í Færeyjum? Þetta er léleg fjölmiðlun og ótraust eins og frá Efstaleitinu.
Ekki sá Molaskrifari betur, en að á nokkuð sandblásnu aðvörunarskilti Siglingastofnunar við Landeyjahöfn stæði: Bílum sem lagt er svæðið eru þar á á ábyrgð eigenda. Ætti að vera: Bílar sem lagt er á svæðinu eru þar á ábyrgð eigenda.
Í leiðara Morgunblaðsins í morgun segir: „Villandi fréttaflutningur er á hinn bóginn ekki hjálplegur og er þvert á móti til þess fallinn að spilla umræðunni og afvegaleiða almenning“.Morgunblaðið hefur um langt skeið haft örugga forystu meðal íslenskra fjölmiðla í villandi fréttaflutningi, í því að villa um fyrir almenningi og spilla umræðunni um tvö stórmál, ESB og Icesave.
Es. Þessir Molar áttu aldrei að verða svona margir.
Skildu eftir svar