«

»

Molar um málfar og miðla 531

Í fréttum er oft  talað um  þungvopnaða menn  sem vinna ódæðisverk. (Ríkisútvarpið 13.02.2011) Þetta er  hrátt úr  ensku, heavily armed men. Molaskrifari  er ekki  sáttur  við þetta orðalag.  Það  dygði að  að tala um vopnaða menn, en  menn vopnaða öflugum skotvotvopnum ( og handsprengjum í því  tilviki,sem  frá var sagt).

 Í fyrirsögn á  dv. is (13.02.2011) segir: Eurovision nördar ásáttir við úrslitin. Málvenja  er að vera sáttur við, ásáttur með. Ekki ásáttur við. Verða ásáttir um eitthvað er að  ná  samkomulagi um  eitthvað. Sleppi því að ræða um slettuna  nörd. – að sinni.

  Icesave afgreitt af fjárlaganefnd er  asnaleg þolmyndarfyrirsögn á mbl. is (14.02.2011). Þarna hefði annaðhvort átt að segja: Fjárlaganefnd afgreiðir Icesave, eða  Icesave  afgreitt úr fjárlaganefnd. Venja er að tala um að mál séu afgreidd  úr nefndum  Alþingis.

Ellefu létust þegar þeir tróðust undir skelfingu lostinn mannfjölda, sagði í fyrirsögn (visir.is 13.02.2011). Ekki finnst Molaskrifara þetta  vera  rétt orðað. Betra hefði verið að segja:  Ellefu tróðust undir skelfingu lostnum mannfjölda. Þó ekki gott heldur.

Fréttavefurinn visir.is  segir  frá   erfiðleikum Nokia  símafélagsins. Um er að ræða að fleiri þúsund manns muni missa vinnu sina …   814.02.2011). Fleiri en hvað ?  Hér væri  betra að tala um mörg þúsund manns.  Í sömu frétt segir: Strand segir að með því að semja við Microsoft hafi Nokia í raun gefist upp og kastað handklæðinu í hringinn. Hér er  þýtt   hrátt úr  ensku, líking úr hnefaleikamáli, , –  throw the towel in the ring — gefast upp Kasta handklæðinu  á gólfið í hringnum, sem  reyndar er ferhyrningur. Þetta líkingamál er okkur ekki tamt. Ekki er víst að allir skilji. Blaðamenn eiga  að  skrifa þannig að allir skilji.

    Á sunnudagsmorgni (13.02.2011) heyrði Molaskrifari nokkurra mínútna brot úr Útvarpsþætti í Útvarpi Sögu.  Hlustandi  hringdi  til að mótmæla  rangfærslum sem þar kæmu  fram hjá  símavinum og þáttastjórnendur létu ómótmælt og  tækju sem heilögum sannleika. Hann nefndi  sem dæmi  nafngreinda  símavini, sem  segðu að á Íslandi   væri  fólk að  deyja úr  hungri á götum úti. – Þú veist að þetta er satt, sagði útvarpsstjórinn , hvað eftir annað.Og bætti við:  Þetta er  svona orðatiltæki.  Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að Útvarp Saga er  hættulegur fjölmiðill. Það er nefnilega til fólk, sem trúir ósannindavaðlinum.  Þáttastjórnendur, sem láta svona  bull viðgangast geta vart verið með  réttu ráði.  Og svo kemur  forseti Íslands aftur og aftur í viðtöl í þessari stöð !   Menn eru misvandir að virðingu sinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>