Viðtal við Jón Gnarr borgarstjóra,sem birt var í fréttum Ríkissjónvarps (14.03.2011) var á villigötum. Það átti heima í Spaugstofunni á Stöð tvö.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (14.02.2011)var sagt: Hundruð stjórnarandstæðinga hafa verið handteknar. Betra hefði verið: Mörg hundruð stjórnarandstæðingar hafa verið handteknir.
Þegar fréttamenn nota orðatiltæki,sem hafa fast merkingu verður þeim að vera merkingin kunn. Að leiða saman hesta hesta sína þýðir að etja kappi, eða keppa við. Ekki varð betur heyrt þegar fréttamaður Ríkissjónvarps (14.02.2011) talaði um að vísindamenn og stjórnmálamenn yrðu að leiða saman hesta sína í auknum mæli ætti hann við að vísindamenn og stjórnmálamenn ættu að starfa nánar saman. Það er röng notkun þessa orðatiltækis. Stundum er gott að fletta upp í handbókum um notkun tungumálsins.
Sami fréttamaður sagði í sömu frétt: … þar sem auðlindir , réttur og skyldur mismunandi landa þarf að skilgreina. Betra hefði verið: .. þar sem skilgreina þarf auðlindir, rétt og skyldur landanna. Í inngangi fréttarinnar var talað um regluverk. Betra hefði verið að tala um reglur.
Bjarni Sigtryggsson sendi Molum eftirfarandi ábendingu: „Fréttastofa RUV gæti gengið á undan með góðu fordæmi og hætt þeirri enskuslettu, sem hefur mátt heyra í fréttum hennar, að tala um að „frysta“ eignir einræðisherra þegar til er hið ágæta orð að „kyrrsetja“ þær.“ Sammála.
Hrós fær vísindaþáttur þeirra Ara Trausta Guðmundssonar og Valdimars Leifssonar (14.02.2011) í Ríkissjónvarpi. Veitir innsýn í mikilvæg störf íslenskra vísindamanna.
Skildu eftir svar