«

»

Molar um málfar og miðla 546

  Í  morgunfréttum Ríkisútvarpsins (03.03.2011) var rætt  við  forstjóra ferðaskrifstofunnar Iceland Express eins og  hann   væri  forsvarsmaður  flugfélags. Iceland Express er  ferðaskrifstofa, ekki flugfélag. Í hádegisfréttum sama dag hélt   fréttastofan í Efstaleiti enn fast við það að Iceland Express væri flugfélag. Af hverju er verið að flytja  hlustendum  upplýsingar,  sem ekki eiga  við rök að styðjast?  –  Pálmi Haraldsson kenndur við Fons mun vera eigandi ferðaskrifstofunnar  Iceland Express og  fleiri  fyrirtækja í ferðageiranum. Í DV (04.03.2011) segir:  Móðurfélag Ferðaskrifstofu Íslands er Nupur Holding, sem einnig á  Feng  móðurfélag Iceland Express. Nupur Holding er aftur í eigu eignarhaldsfélagsins Waverton Group Limited,sem  skráð er á eyjunni Tortóla. Þurfa þeir sem eru með hreint mjöl í pokanum að hafa þetta svona flókið? Hver er tilgangurinn með svona félagafléttum?

 Í  hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (03.03.2011) var sagt: … vegna náttúruhamfara og annarri vá. Þarna hefði farið betur á að segja: .. vegna náttúruhamfara og annarrar vár eða váar.

 Yfirstjórnir  grunn- og leikskóla borgarinnar verða  sameinaðir á næsta ári vegna hagræðingarkröfu menntasviðs borgarinnar. Þetta er úr hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (03.03.2011). Hér hefði  auðvitað átt að segja , að yfirstjórnir  yrðu sameinaðar , ekki sameinaðir.

Um grein í Læknablaðinu  þar sem fjallað  er um konu, sem  missti minnið að hluta, var sagt  í sexfréttum Ríkisútvarpsins (03.03.2011): …  en þar er tilfelli hennar  rætt.  Er þetta  ekki  enskættað orðalag ? Molaskrifari er helst á því.  Á ensku  væri líklega eðlilegt að  tala um  veikindi  konunnar  sem  case.

  Hér  hefur  stundum verið gagnrýnt að Ríkisútvarpið  skuli í morgunútvarpi Rásar  tvö á  föstudagsmorgnum  hella  yfir okkur leikaraslúðri frá Hollywood. Flytjandinn  er óðamála og talar hrognamál.  Molaskrifari er  ekki einn um þessa skoðun. Árni Falur Ingólfsson segir í  Morgunblaðinu (03.03.2011): Þá er hringt í einhverja konu í Los Angeles sem þvaðrar óðamála um meint einkamál  svokallaðs frægs fólks. Hverjum  skyldi koma það við? Þá er slökkt á útvarpinu heima hjá mér.

   Þessi orð  fóru greinilega í fínar taugar umsjónarmanna  morgunútvarps á Rás  tvö ,sem höfðu um þetta mörg orð (03.03.2011).  Dagskrárstjórar Ríkisútvarpsins  ættu að sjá  sóma  sinn í að hætta  að flytja okkur þetta slúður á hrognamáli. ( Það skiptir engu hvað Morgunblaðið gerir í þeim efnum. Það er engin skylduáskrift að Mogganum.) Hinn kosturinn er að skipta  um stjórnendur  í Morgunútvarpi Rásar tvö. Það er ekki slæmur kostur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>