«

»

Molar um málfar og miðla 547

Dæmi um staðreyndabrengl í  fréttum mbl.is (04.03.2011): …sem kjörnir voru í stjórnlagaþingskosningunum sem dæmdar voru ólöglegar af Hæstarétti.  Hæstiréttur  dæmdi engar kosningar  ólöglegar. Hæstiréttur  úrskurðaði að kosningarnar væru ógildar. Það ætti að vera hægt að treysta því  að  Morgunblaðið fari rétt með svona  einfalda hluti.

 Úr mbl.is (03.03.2011):„Við höfum fengið ábendingar um að Bob sé haldið föngum einhvers staðar í Suðvestur-Asíu,“ .  Ekki gengur þetta nú alveg  upp.  Hér ætti  að standa, – haldið föngnum. kannski hefur fréttaskrifari ekki þorað að  skrifa föngnum , fundist það  rangt.  Rétt er það samt.

 Meira úr mbl.is (04.03.2011): Miðakerfið hjá midi.is liggur niðri sem stendur vegna þess mikla fjölda fólks sem er að reyna að kaupa miða á tónleika í Hörpu á sama tíma.  Mjög vaxandi  tilhneigingar gætir  til að segja að  eitthvað liggi niðri eða  sé  niðri  þegar  bilun verður á tæknibúnaði. Hér hefði farið  betur á því að segja að  miðasölukerfið  væri óvirkt. Einnig væri  betra að  segja að mikill fjöldi  fólks væri samtímis að  reyna að kaupa miða 

 Í fréttum Ríkisútvarpsins er  stundum  talað um að  berja eitthvað á bak aftur (03.03.2011). Þetta hljómar ekki rétt í eyrum Molaskrifara. Menn brjóta  eitthvað á bak aftur  og berja eitthvað niður. Hvað segja Molalesendur? Er Molaskrifari á villigötum?

 Æ oftar heyrist orðalag eins og  komandi helgi (fréttir Stöðvar tvö 03.03.2011). Molaskrifara  finnst þetta  enskulegt orðalag. Af hverju ekki um næstu helgi?  Í fréttum Ríkisútvarps  er nær  undantekningarlaust talað um síðasta sumar , síðasta mánudag  ekki fyrra sumar eða mánudaginn var. 

  Í fréttum Stöðvar tvö (04.03.2011) var rætt  við ungan mann, sem   sagði:  Það  meikar ekki  sens í orðsins fyllstu merkingu. Það var og.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>