«

»

Molar um málfar og miðla 548

    Íþróttafréttamaður Stöðvar tvö  talaði  á laugardagskvöld (05.03.2011) um lið ,sem  hefðu barist á banaspjótum. Það er ekkert til í íslensku máli, sem  heitir að berjast á á banaspjótum. Rétt er  orðtakið  að berast  á  banaspjót/(banaspjótum), og þýðir að eigast  mjög illt  við, vega hver  annan ( þegar um hópa er að ræða) eins og  segir í  Merg málsins,  bók dr. Jóns G. Friðjónssonar , bls. 42.  Fréttamenn, ekki síst íþróttafréttamenn, ættu að  nota þessa góðu bók meira.

 Enn býður Ríkissjónvarpið þjóðinni upp á  dellumynd  frá Disney (05.03.2011) á besta  tíma á laugardagskvöldi. Þetta er með ólíkindum. Dómgreind þeirra sem raða saman dagskránni er   brengluð. Svona myndir eiga að vera á dagská  síðdegis, –  dæmis á  tímanum frá klukkan  fimm fram að fréttum.  Svo er þess að geta að sýning  myndarinnar hófst tæpum  fimmtán  mínútum eftir  auglýstan tíma.    Þetta er subbuskapur. Alvörusjónvarpsstöðvar halda  sig  við auglýsta  dagskrártíma. Í Efstaleitinu kunna menn ekki enn á klukku.

 Á það var bent  hér í Molum að  dögunum að Iceland Express væri ekki flugfélag, heldur ferðaskrifa. Glöggur maður,sem  þekkir til í þessum geira viðskiptalífsins benti Molaskrifara á að Iceland  Express væri  hvorki  ferðaskrifstofa né  flugfélag. Fyrirtækið hefði hvorki flugrekstrarleyfi né  ferðaskrifstofuleyfi. Það væri  svokallaður  ferðamiðlari og  bæri því ekki sömu ábyrgð á  ferðaskrifstofur, þegar eitthvað  ber út af.

 Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (05.03.2011) heyrðist í þingmanni  Framsóknarflokksins og  var talað um viðtal við þingmanninn. Það var ekki rétt. Það var hinsvegar skrúfað frá  þingmanninum,sem lét  móðan mása  og bergmálaði sjónarmið bankastjóra Englandsbanka úr  bresku blaði  þann sama morgun.   Léleg vinnubrögð fréttastofu Ríkisútvarpsins. 

    Auglýsing  um Nivea-vörur í Fréttatímanum (04.03.2011)  er á hálfgerðu hrognamáli. Dæmi: ..inniheldur 95% náttúruleg innihaldsefni… argan olíu sem er lykil innihaldsefni… allir litir eru innblásnir úr náttúrunni … mjúk steinefni… mjúkpressað púðrið gefur náttúrulegt og matt útlit.. inniheldur lífrænan fiðrildarunna…   Fleira mætti til tína.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>