Í skjáauglýsingum Ríkissjónvarpsins (06.03.2011) voru auglýstir tónleikar Sigrúnar Eðvaldsdóttur og félögum. Þetta er enn eitt dæmi um slæleg vinnubrögð auglýsingadeildar Ríkisútvarpsins. Þar virðist þeim hafa farið ört fækkandi, sem eru vel að sér í íslensku. Skylt er að geta þess að þulur las setninguna rétt. Stundum leiðrétta þulir auglýsingatexta. Nýlega var sagt að endurvinnslustöðvar Sorpu opnuðu á tilteknum tíma. Næst þegar auglýsingin var lesin leiðrétti þulur þetta og sagði að endurvinnslustöðvarnar yrðu opnaðar. Plús fyrir það.
Bærinn lá einnig undir loftárásum var sagt í sexfréttum Ríkisútvarpsins (06.03.2011). Ekki verður sagt að þetta sé vel orðað.
Frá 23. febrúar til 6. mars stóð yfir í Osló heimsmeistaramót í norrænum skíðagreinum. Þetta mót hefur að mestu farið framhjá íslenskum íþróttafréttamönnum ,sem fátt sjá nema bolta og aftur bolta, dag eftir dag. Ef ekki handbolta, fótbolta eða körfubolta, þá golfbolta. Það var mikið af frábæru myndefni að fá á Holmenkollen ofan við Ósló. En áhugi íslenskra fjölmiðla var lítill.
Í umræðunum í upphafi Silfurs Egils voru þrjár gamlar, rispaður plötur (Þór Saari, Silja Bára og Eiríkur Bergmann) sem ekkert nýtt höfðu til málanna að leggja. Fróðlegt var hinsvegar að heyra sjónarmið Ásgeirs Brynjars Torfasonar rekstrarhagfræðings,sem starfar í Svíþjóð. og hafði ekki komið til Íslands síðan fyrir hrun. Hann var rödd skynseminnar í þessu annars heldur innantóma tali.
Gott viðtal Egils við Uffe Ellemann-Jensen, sem var fréttamaður hjá danska sjónvarpinu áður en hann fór út í pólitík. Uffe er reyndur maður og greindur með vítt sjónarsvið og fróðlegt var að heyra hann fjalla um Evrópumálin. Jafn gott og þetta viðtal var, þá var ömurlegt að hlusta á einn af gömlum páfum kommúnismans á Íslandi, Kjartan Ólafsson, fyrrum Þjóðviljaritstjóra, reyna að gera lítið úr merku og vel undirbyggðu sagnfræðiriti Þórs Whitehead um íslenska kommúnista, hreyfingu þeirra og tengsl við Sovétið. Og Egill lét sér nægja að humma og humma. Merkilegt hvernig þjóðviljaritstjórinn til dæmis skautaði léttilega framhjá vináttusamningi Hitlers og Stalins. Í endurskoðun íslenskra kommúnista á sögunni var sá samningur líklega aldrei gerður.
Í Reykjavíkurbréfi Moggans um helgina er talað um að hunsa dóm Hæstaréttar um ógildingu kosninga til Stjórnlagaþings með því að Alþingi skipi svokallað Stjórnlagaráð. Hæstiréttur kvað ekki upp dóm. Hann úrskurðaði sem stjórnvald um lögmæti kosninganna. Það er ekki mikil lögfræði í þessum skrifum Morgunblaðsins. Sumir héldu að höfundur Reykjavíkurbréfs væri lögfræðingur. Lögfræðingurinn hefur líklega tekið sér frí um helgina. Nema þá að viljandi sé verið að rangtúlka það sem gerðist. Svona eins og kommúnistablaðið Þjóðviljinn hafði fyrir sið á árum áður.
Skildu eftir svar