«

»

Molar um málfar og miðla 555

    Eftirfarandi er úr nýrri samþykkt Búnaðarþings: :„Búnaðarþing telur að fæðuöryggi þjóðarinnar verði því aðeins tryggt að fullu með því að Ísland standi utan sambandsins“.  Sambandið sem hér er talað um er auðvitað Evrópusambandið,ESB. Þessi fullyrðing  er  hinsvegar svo gjörsamlega sambandslaus  við veruleikann og almenna, heilbrigða  skynsemi  og svo utangátta að með ólíkindum er.  Meira að segja Staksteinahöfundur  Moggans, sem lítur á flestar samþykktir bændaforystunnar gegn ESB sem guðlegar opinberanir, hefur  ekki haft kjark til að nefna þessa firrusamþykkt.  Enginn íslenskur  fjölmiðill, að því Molaskrifari best veit, hefur  beðið  forystu  bændasamtakanna að  reyna að útskýra  þessa dæmalausu vitleysu. Metnaðarleysi  fjölmiðlamanna er stundum alveg makalaust.

Í Fréttatímanum (11.-13.03) segir: Velgengni myndarinnar Okkar eigin Ósló, ríður ekki við einteyming. Það þykir hvorki gott né  gæfulegt að ríða við  einteyming.  Þess vegna er þetta orðtak  í íslensku jafnan notað um það sem  þykir  slæmt eða ógæfulegt, t.d.  lánleysi þessa manns ríður ekki  við einteyming, þegar einhver  ítrekað  verður   fyrir  einhverri ógæfu.

 Í kynningu á  efni  Kastljóss  (11.03.2011) var sagt: … tefldi blindandi  við…  Ástæðulaust  er að láta hið ágæta orð  blindskák, að tefla blindskák, falla í gleymskunnar dá. Það gerir málið  fátæklegra.

 Ekki   virðist um auðugan garð að gresja, þegar kemur að því að velja þáttastjórnendur í Ríkissjónvarpinu. Sigmar Guðmundsson stjórnar Kastljósi og Útsvari. Egill Helgason stjórnar Kiljunni og  Silfri Egils. Þórhallur  Guðmundsson stjórnar  Í návígi  á þriðjudagskvöldum og Hvert stefnir Ísland  , en sá þáttur er sýndur á miðvikudagskvöldum.  Þetta  er ágætisfólk, en  hér sakaði ekki  að hafa örlítið meiri breidd.

 Þjófar strípuðu einbýlishús á Suðurnesjum, segir á   vef Ríkisútvarpsins (11.03.2011). Þjófar hirtu allt innan úr  einbýlishúsi á Suðurnesjum hefði verið betra. Þannig var raunar tekið  til orða annarsstaðar á vefnum.

 Í  fréttum Ríkissjónvarpsins (11.023.2011) var sagt : Jóhanna segir þessar aðgerðir svipa til….. Hér  hefði átt að segja: Jóhanna segir þessum aðgerðum svipa til….  Einfalt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>