Varpa sprengjum á vígvélar hersins, er vel orðuð fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (19.03.2011). Líka var þar ágætlega sagt , að Loftvarnir Líbíu væru mjög laskaðar (20.03.2011)
Í fréttum af náttúruhamförunum miklu í Japan hafa sumir fjölmiðlar ítrekað talað um mannfall. Í þessum tilvikum hefði Molaskrifara þótt eðlilegra að tala um manntjón, – ekki mannfall. Varðandi fréttir frá Japan hefur Molaskrifari lesið í erlendum miðlum að víðtækt viðvörunarkerfi bæði gagnvart jarðskjálftum og flóðbylgjum , æfingar og viðvaranir í útvarpi og farsímakerfum hafi áreiðanlega bjargað tugum, jafnvel hundruðum þúsunda. Það sem brást hinsvegar var m.a. að varnarveggir gegn flóðbylgjum voru of lágir og staðsetning vararafstöðva var við það miðuð að veggirnir héldu. Minnist þess ekki að hafa heyrt mikið frá þessu sagt í íslenskum miðlum.
Oft er ýmislegt ágætt í morgunþætti Sirrýjar á Rás tvö í Ríkisútvarpinu á sunnudögum. Það var hinsvegar handan góðra vinnubragða (20.03.2011) að vera með langt viðtal,sem var ódulbúin auglýsing fyrir eitt tiltekið fyrirtæki í Kópavogi ,sem selur heyrnartæki og mælir heyrn fólks. Nafn fyrirtækisins og vefsíða var margnefnt í löngu viðtali. Eiga ekki önnur fyrirtæki í sömu grein rétt á samskonar þjónustu frá útvarpi allra landsmanna? Það hlýtur svo að vera. Annars stendur stofnunin varla undir nafni. –
Seinna í þessum sama þætti var önnur auglýsing, löng auglýsing, þar sem opnunartími o.fl. var rækilega talið upp. Verið var að auglýsa gallerí. Því næst kom enn auglýsingin frá fyrirtæki, sem annast ferðir út í Viðey og hvalaskoðun. Hvað gerir fólk til að koma auglýsingu inn í þennan þátt? Það verður að gera þá kröfu til Ríkisútvarpsins , að skýr mörku séu milli auglýsinga og dagskrárefnis. Það gera alvöru útvarpsstöðvar. Fram til þessa hefur það einskorðast við Útvarp Sögu að hræra endalaust saman auglýsingum og dagskrá.
Í lok þessa þáttar, þegar stjórnandi gaf hlustendum kost á að hringja í þáttinn, þá raðaði símalið Útvarps Sögu sér á línuna með bull og svívirðingar í garð stjórnandans og annarra. Stjórnandi gerði þau mistök að halda að hægt væri að rökræða við þetta fólk. Það er ekki hægt, – með örfáum undantekningum.
Þetta sannar að ekki er hægt að opna fyrir almenna símaþætti í Ríkisútvarpinu um þessar mundir. Það breytist bara í Útvarp Sögu. Þess vegna á Ríkisútvarpið að leggja svona þætti á hilluna fram yfir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Skildu eftir svar