Undarleg fjögurra dálka fyrirsögn er á forsíðu Morgunblaðsins í dag (22.03.2011): Rekin úr nefndum. Átt er við þau Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslason,sem sagt hafa sig úr þingflokki VG á Alþingi. Það leiðir af sjálfu þegar þau Lilja og Atli segja sig úr þingflokki VG geta þau ekki lengur verið fulltrúar þingflokksins í nefndum þingsins. Með úrsögn úr þingflokknum sögðu þau sig því samhliða úr þeim nefndum þingsins sem þingflokkur VG kaus þau í. Þetta sér hvert barn í pólitík. Morgunblaðið kýs hinsvegar að kynna lesendum sínum þetta mál í annarlegu ljósi.
Í áttafréttum Ríkisútvarpsins (22.03.2011) var tvísagt að Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason hefðu sagt sig úr VG. Þessi missögn var að vísu leiðrétt í lok fréttarinnar. Þeir sem skrifa fréttir á fréttastofu Ríkisútvarpsins verða líka að hlusta á fréttir til að geta farið rétt með.
Í Íslandi í dag á Stöð tvö (21.03.2011) var prýðilegt viðtal við Þorstein Pálsson, sem greindi stöðuna í pólitíkinni og beitti þar reynslurökum og skynsemi. Reyndum fréttamanni, Kristjáni Má, varð það á að hlusta ekki nægilega vel á viðmælanda sinn og spyrja Þorstein um atriði,sem hann þegar var búinn að nefna. Það tekur langan tíma að læra að hlusta grannt og vera jafnframt tilbúinn með næstu spurningu. Svona mistök verða reyndar á bestu bæjum.
Lögafgreiðslumaður er orðskrípi sem heyrðist í fréttum (21.03.2011). Höfundur þess er að líkindum alþingismaðurinn Lilja Mósesdóttir. Það á að merkja að þingmenn séu til þess eins að afgreiða lagafrumvörp, sem koma frá ríkisstjórn. Rétt myndað væri orðið lagaafgreiðslumaður, en það er engu betra. Vonandi heyrist þetta ekki oftar.
Mel B. ólétt af sínu þriðja barni, segir í fyrirsögn á dv.is. Molaskrifari er ekki mjög vel að sér um óléttumál og allra síst óléttumál frægra kvenna. Máltilfinning hans segir honum þó, að hér ætti að segja: .. ólétt að sínu þriðja barni, en ekki af sínu þriðja barni. Ekki las Molaskrifari hinsvegar svo langt að vita af hvers völdum konan var ólétt.
Umsjónarmenn Morgunútvarps Rásar tvö eiga ekki að hætta sér út á þann hála ís að ræða mál, sem þau ráða ekki við, eins og umræða þeirra um Líbíu við Steingrím J. Sigfússon í morgun (22.03.2011) bar glögg merki.
Skildu eftir svar