«

»

Molar um málfar og miðla 583

 

Úr mbl.is (11.04.2011). Enn um nefnifallssýki: Sex ára drengur í Flórída hefur verið lýst sem hetju þegar hann varði litla bróður sinn fyrir árás hunds.  Hérr hefði átt að tala um sex ára dreng, sem hefði verið lýst  sem hetju. Ótrúlega algengt. Meiri nefnifallsýki úr sama netmogga:  Flugvélin sem átti að fara fyrr af stað seinkaði.  Er mbl.is  vísvitandi að   spilla  tungunni?  Það er  engu líkara.  Hverju seinkaði flugvélin ? Flugvélinni seinkaði.  Flugvélin seinkaði ekki neinu. Það  gengur einhver laus  í grennd við tölvuborð á mbl.is sem  ætti að vera í öðrum verkum.

Visir.is (12.04.2011): Suður-kóreska lögreglan er dul á málið en hún vill ekki gefa upp fyrir hvað hvítlauksbóndinn er grunaður um né bróðir hans. Að vera  dul á málið er  ekki gott  orðalag. betra væri : Segir fátt um málið. Svo   og er ekki  hægt að  segja:  Fyrir hvað hann er   grunaður um. Það nægði að segja: Hað hann er  grunaður um.

 Í sömu frétt var sagt frá  milljónum sem  fundust  grafnar   í hvítlauksakri: Peningurinn fannst grafinn á hvítlauksakri. Hér  hefði   verið eðlilegra  að  tala um  peninga eða fé.

Í  fréttum Ríkisútvarpsins (11.04.2011) kom fram að  íslenskum bændum  hefði fækkað  um  26% á undanförnum  tíu árum.  Ef skoðaðar  eru tölur  frá finnsku hagstofunni á vef hennar kemur í ljós að frá árinu 2000  til 2009 fækkaði bændum í Finnlandi um 19,5%. Samt hafa Finnar verið í Evrópusambandinu allan þann tíma !     Voðalegur félagsskapur sem það er þetta Evrópusamband ! Hvað skyldi íslenskum bændum lengi halda áfram að fækka svona hratt, ef við stöndum áfram utan ESB

Molaskrifari  lagði það á sig  að hlusta  svolítið á þrjá  Alþingismenn í Útvarpi  sögu, en þangað eru  reglulega   kallaðir  fáeinir  þingmenn   sem eru  stjórnendum þóknanlegir, ýmist  til að bulla yfir hlustendur eða láta stjórnendur  bulla yfir sig. Stjórnendur  bulluðu endalaust yfir  Jón Gunnarsson (11.04.2011) sem reyndi af veikum mætti að verjast.  Svo bulluðu þeir Ásmundur  Einar Daðason og  Guðlaugur Þór  Þórðarson yfir hlustendur í morgunútvarpi  (12.04.2011) aðallega um  Evrópusambandið. Bóndinn, Ásmundur Einar, hélt því fram að   hér á landi   muni nýmjólkurframleiðsla að mestu leggjast af, færum  við í ESB !  Þessa fáránlegu fullyrðingu  hefur  Molaskrifari aldrei heyrt  áður.

Ekki hefur álitið á Íslendingum  hækkað hjá áhorfendum Bloomberg fréttaveitunnar  (11.04.2011) við að hlusta á gífuryrði Ólafs Ragnars og  dónaskap við  fréttamann.  Heimamenn  eru ekki hissa.  Forstöðumaður greiningardeildar  Den Danske Bank hefur veitt Ólafi Ragnari ádrepu   fyrir   framgöngu hans á Bloomberg fréttaveitunni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>