«

»

Molar um málfar og miðla 584

 

Fundur  aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa  ríkisstjórnar og  Seðlabanka um….. lauk rétt í þessu, var sagt í upphafi sexfrétta Ríkisútvarpsins (12.04.2011). Fundur lauk ekki. Fundi lauk. Það er orðið of algengt að heyra  svona villur .Að  ekki sé  nú talað um að heyra fréttaþul svo  segja: Orð Jóhönnu Sigurðardóttir ….. rétt á eftir.

Í fréttum Ríkissjónvarps (12.04.2011) var sagt að Hollendingar ætluðu að  hindra  aðildarumsókn Íslands að ESB. Ekki er Molaskrifari sáttur  við þessa notkun sagnarinnar að hindra. Má  vera að honum skjátlist. Hefði fallið betur (málfræðilega) að heyra að Hollendingar ætluðu að  stöðva  eða  tefja umsóknina. Í útvarpsfréttum var talað um að koma í  veg fyrir  aðild Íslands,sem er ágætt orðalag, en  kannski er þetta sérviska.

Umfjöllun  um skýrslu Danske  Bank  var betri  í fréttum Stöðvar  tvö en fréttum Ríkissjónvarps. Kastljósið  gerði málinu  hinsvegar mjög  góð skil og bætti fréttirnar upp.. Fínt að Þóra Arnórsdóttir  skyldi tala  dönsku  við greiningarstjóra bankans. Það er orðið of   fágætt að heyra fréttamenn tala   við norræna menn á norrænu málum. Molaskrifari saknar norskunnar hennar Þóru Tómasdóttur, sem  rekin var úr Kastljósinu á sínum tíma.

Það var gagnmerk  frétt á Eyjunni (12.04.2011): Hraðbankinn á Hofsósi kominn í lag.  Gott er nú til þess að  vita. Okkur létti ósegjanlega. En líklega hafa þeir á Hofsósi verið búnir að frétta þetta, áður en það kom á Eyjunni..

Ferðamiðlarinn Iceland Express heldur  áfram að  þykjast vera  flugfélag. Í auglýsingu  í Fréttablaðinu (12.04.2011) er  talað um flugflota  Iceland  Express.  Iceland  Express  á engan flugflota og  rekur engar  flugvélar. Hefur hvorki flugrekstrarleyfi né leyfi til að reka ferðaskrifstofu á Íslandi. Iceland  Express er   svokallaður  ferðamiðlari , sem leigir  flugvélar  af öðru   fyrirtæki. Þetta hefur oft verið nefnt  hér áður.

Fréttamanni   Ríkisútvarps, sem  sagði  frá  fundi    ráðherra og  stjórnarandstöðu í  stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg (12.04.2011) , er  ekki ljós munurinn á  orðinu  stjórnarráð (öll ráðuneytin) og  húsinu,sem kennt er við  stjórnarráðið, Stjórnarráðshúsinu. Flestum fréttamönnum er þetta ljóst.

Það var góð skemmtan að morgni dags (13.04.2011)  að hlusta á  Katrínu Jakobsdóttur   menntamálaráðherra leika sér  að  hjúunum, sem  stjórna  Útvarpi Sögu í samtali um fjölmiðlafrumvarpið,sem Alþingi fjallar nú um. Katrín  var þaulkunnug    aðdraganda, ákvæðum og efni  frumvarpsins. Mál hennar var skýrt og skorinort. Stjórnendur höfðu hinsvegar  ekki skilið ,  misskilið eða ekki kynnt sér efni  frumvarpsins. En hversvegna þurfa  fjölmiðlaeigendur eins og þarna áttu   í hlut að vera svona logandi hrædd við  fyrirhugað frumvarp, ef   samviskan er góð?   Ef samviskan er góð.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þú hefur nokkuð til þíns máls, Sigurjón.
    Baldvin: Þóra talaði dönsku eins og mjög margir Íslendingar gera, kannski ættum við að segja að hún hafi talað, norrænu, skandinavisku eða ,,nordisk“.

  2. Sigurjón skrifar:

    Þú fyrirgefur en mér finnst þetta ekki falleg síða og heldur erfitt að átta sig á öllu á hreyfingu. Virkar ruglingsleg og þegar síðan er opnuð ber mest á bláum borðum en ekki á textanum, sem er aðalatriði. Léttari og um fram allt einfaldari hönnun væri betri – en sjálft efnið vekur áhuga margra.

  3. baldvin berndsen skrifar:

    Eiður, þóra Arnórsdóttir talaði ekki dönsku í Kastljósinu, heldur var þetta líkara norsku eða sænsku. Hlustaðu aftur !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>