«

»

Molar um málfar og miðla 622

 

Í hádegisfréttum  Ríkisútvarps (05.06.2011)  var talað um snjólög,  þegar  tala hefði átt um snjóalög.  Í fréttayfirliti í lok frétta talaði fréttamaður  réttilega um  snjóalög, en leiðrétti sig og talaði þá um snjólög. Snjóalög  eru segir orðabókin: Verulegur snjór á jörð eftir að oft hefur snjóað.

Úr visir.is (05.06.2011): Um helmingur þessara lyfja var ávísað á fullorðna einstaklinga. Hér hefði átt að skrifa: Um helmingi þessara lyfja  var ávísað á  fullorðna einstaklinga.

Pressan.is  (05.06.2011) segir  lesendum  frá því að rúllustigi hafi byrjað að starfa á ofsahraða. Seint verður   sagt, að þarna sé vel að orði komist!

Í fréttum  Ríkisútvarps   af eldgosi í Síle hefur ítrekað bæði í  töluðu máli og  rituðu verið talað um fjallagarð. Af vef Ríkisútvarpsins (05.06.2011): Á fjórða þúsund manns þurftu að flýja heimili sín eftir að eldgos hófst í Puyehue fjallagarðinum í Chile í gærkvöld. Erlendir miðlar tala ýmist um Puyehue eldfjallið  eða Puyehue fjallgarðinn. Molaskrifari hefur ekki áður heyrt  orðið fjallagarður. Kannast lesendur við þetta orð ?

Svavar Halldórsson   fréttamaður Ríkisútvarps  fær þakkir  fyrir að fletta ofan af  hjúskapar- og  fjölskyldutengslum í sambandi við  fyrirhugaða  sölu  bréfa í Byr, sparisjóðnum sem alltaf var við svo góða  fjárhagslega heilsu  áður en allt  hrundi.  Maður var  gjörsamlega dolfallinn við að hlusta á lýsingu Svavars, sem ekki hefur verið mótmælt. Höfum við ekkert  lært? Heldur þetta  fólk að það megi allt? Reglurnar sé bara  fyrir ,,hina”. Hvernig ætla  stjórnvöld, sem  nú eru að  reyna að moka flórinn eftir    bankabófana, að bregðast við þessum fréttum?

Dæmi eru um að verslanir séu að opna klukkan átta á morgnana, sagði fréttamaður Ríkisútvarps í hádegisfréttum (05.06.2011). Nú  spyr Molaskrifari: Hvað eru verslanir að opna klukkan átta á morgnana?  Málfarsráðunautur þarf að  leiða    suma fréttamenn í allan sannleika um notkun sagnarinnar að opna.

Orð hafa  mismunandi merkingu í hugum  fólks. Í mínum huga þýðir orðið  bræla, slæmt  veður, slæmt  sjóveður, en ekki ofviðri  eða afspyrnuslæmt  veður. Bræluskítur, eiga sjómenn það til að segja, um leiðinda veður. Í skrifum um sjómannalög í Morgunblaðinu (04.06.2011) segir   blaðamaður: Starfið er hættulegt og starfsaðstæður  geta verið hrikalegar í brælu.  Molaskrifari  efast um að margir sjómenn taki undir þetta orðalag.  Í sömu grein er líka skrifað um að skera  fisk á háls. Þannig hefur Molaskrifari ekki áður heyrt tekið  til orða.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Fréttin um svarta svaninn á Snæfellsnesi er hreint óborganleg. Hvílík snilld !

  2. Adam skrifar:

    þú getur líka skoðað http://timinn.is/forsida.aspx

  3. Eiður skrifar:

    Dálítið einkennilegt.

  4. MK skrifar:

    Hvað finnst þér um þetta: „Í Reykjavíkurhöfn í gær var hinn glæsilegi eikarbátur, Hildur frá Húsavík, smíðaður á Akureyri árið 1974.“

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/06/06/kvotafrumvorpin_skyggdu_a_sjomannadaginn/

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>