«

»

Molar um málfar og miðla 623

 

Nú hefur verið greint frá því, að forsíðumyndin á nýju símaskránni er fölsuð. Einu sinni var sagt að mynd segði meira en þúsund orð. Nú  vitum við  að hjá  fyrirtækinu, sem gefur út símaskrána lýgur mynd meira en milljón orð. Útgefandi  á að biðja   símnotendur afsökunar á þessari fölsun.

Dæmi um óþarf og óskýra þolmyndarnotkun var í fréttum Ríkissjónvarps (006.06.2011). Þá sagði fréttamaður: ..  það hús  var  keypt af sömu eigendum. Þýddi  þetta  að sömu eigendur  hefðu selt  einhverjum  húsið? Eða,  að  sömu eigendur hefðu  keypt  húsið af einhverjum?   Af fréttinni mátti  ráða að það síðarnefnda átti við í þessu tilviki. Það er alltaf betra að nota germynd. Þessi þolmynd var til óþurftar.

Ekki þarf að hafa  mörg orð um það, að eftirfarandi orðalag á mbl.þis (06.06.2011) er ótækt: Allar stöðvar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafa verið sendar að húsi við gatnamót Miklubrautar og Stakkahlíðar í Reykjavík vegna reyks frá húsinu.

…og bar þar einn hæst landsleikur…, sagði  íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps (05.06.2011). Þetta er  býsna algengt að heyra. Fréttamaður hefði átt að segja: … og bar þar einna hæst landsleik…

Við höfum fengist við útgerð, eldi, veiðar, vinnslu, sölu, matreiðslu og í raun flest allt sem viðkemur fisk og sjávarútvegi. Þannig komst  þingmaður að orði í  ræðu á sjómannadaginn (05.06.2011). Gott hefði verið að fara rétt með  beygingu  orðsins fiskur, –  ekki síst á þessum degi. … allt sem viðkemur fiski og  sjávarútvegi, hefði þetta átt að vera.

Landið liggur nú undir köldu lofti… svona kemst  veðurfræðingur DV að orði  (06.06.2011).  Eðlilegra væri að segja að kalt  loft  sé  nú yfir landinu.

Breytingar á veðurfréttum Ríkissjónvarpsins, sem gerðar voru  fyrir nokkru tókust  ágætlega og voru til  bóta. Einhver bestu  veðurkort, sem Molaskrifari sér á skjánum eru hjá japönsku  sjónvarpsstöðinni NHK  World. Breytingarnar á   útliti  fréttatímans tókust hinsvegar miður vel. Ríkisjónvarpið  er enn með   iðandi boga og  hringi í bakgrunni og stundum  er engu líkara en   verið sé að  búa til geislabaug   yfir  þeim sem les  fréttirnar.  

Molaskrifari hafði lúmskt gaman  af því að heyra rætt við Seðlabankastjóra  um  hvort gefa ætti út  tíu þúsund króna  seðil. Efnislega sagði Seðlabankastjóri: Það verður tilkynnt um það, þegar verður tilkynnt um það. Ég ætla ekki að tilkynna um það núna.   Alveg skýrt.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Jú, þetta er frábært orðalag. Fleiri hafa bent á þetta.

  2. Eiður skrifar:

    Eftir öðru, – eins og málfarið stundum er þar á bæ.

  3. Alli skrifar:

    Karl er nú LAUS FERÐA SINNA og kominn aftur til landsins.+
    Vel orðað, ekki satt?

  4. Björn S. Lárusson skrifar:

    Í fréttum Rúv-sjónvarps 6.6 var sagt a þeir ætli að „reisa“ höfn á Langanesi og „byggja“ fótboltavöll á Ísafirði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>