«

»

Molar um málfar og miðla 625

Úr mbl.is (07.06.2011): Flugvellir í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, hafa nú opnað að nýju. Þeim var lokað fyrr í dag vegna öskufalls … Það er líklega  að berja hausnum við steininn að gera enn eina athugasemd við ranga notkun sagnarinnar að opna. Flugvellirnir hafa verið  opnaðir. Þeir opnuðu  hvorki eitt né neitt.  Ef sá sem þetta skrifaði hefði verið sjálfum sér samkvæmur hefði hann haldið áfram:  Þeir lokuðu fyrr  í dag.  Sögnina að loka rambaði hann á að nota rétt.

Dálítið undarleg fyrirsögn  er í Morgunblaðinu (08.06.2011): Japanir  fíla hvalamorðin  í ræmur. Í fréttinni er sagt frá því að  kvikmyndin  Reykjavík Whale Watching Massacre  hafi fengið  góðar viðtökur í Japan. Enga skýringu er hinsvegar að  finna á því um hvaða ræmur  sé verið að ræða.

Á vef  Ríkisútvarps var frétt um gömul skjöl sem fundist hefðu í geymslu í   Háskóla Íslands. Þar sagði í fyrirsögn:  Gömul skjöl komast í leitirnar. Hefði átt að vera: Gömul skjöl koma í leitirnar.  Í frétt  Ríkissjónvarpsins um sama  efni var óskiljanleg villa þegar  góður fréttaþulur sagði og heyrði ekki villuna:  Á þúsund ára afmæli Íslandsbyggð. Íslandsbyggðar hefði það átt að vera. Þetta var rétt í tíufréttum.

Af pressan.is (08.06.2011): Lítill munur er á því að versla vörur hér heima og að fara í verslunarferð til Bandaríkjanna, samkvæmt lauslegri könnun Pressunnar. Pressupenni  skilur ekki muninn á sögnunum að versla og að kaupa. Léleg frammistaða..

Tvisvar sinnum  í veðurlýsingu  (07.06.2011) Veðurstofu Íslands   var   notað eitt orð um vindátt og  vindstyrk. Sagt var: Breytileg. Ekki breytileg átt,  eða áttleysa. Undarlegt og illskiljanlegt. Þetta var sagt  í veðurlýsingu  klukkan 06 40  og  aftur  klukkan 10 10.

Viðtöl við fólk á  förnum vegi  í morgunútvarpi Rásar  tvö (09.06.2011) um  Alþingi  voru óvenjulega  bitstæð   af slíku efni að vera. Þegar sjónvarpsstöðvarnar  fara á  stjá  með myndavél og hljóðnema og spyrja fólk á förnum vegi er það yfirleitt  heldur  ómerkilegt fréttaefni. 

Það er eins og hver annar lélegur brandari, þegar talað  er um  málstefnu Ríkisútvarpsins meðan  auglýsingadeild stofnunarinnar lætur allar  reglur  lönd og  leið og brýtur þær þegar  henni sýnist.  Samkvæmt  reglum Ríkisútvarpsins eiga  auglýsingar að vera á lýtalausu máli.  Næstum daglega   slettir  Ríkissjónvarpið á okkur  auglýsingu um eitthvað sem kallað er meikóverdagur. Það er ekki lýtalaus íslenska heldur hrognamál, eða ljót sletta og þessvegna brot á reglum og gengur  gegn málstefnu Ríkisútvarpsins.  Þetta er til skammar.

Ríkisútvarpið fer einnig  á  svig   við reglur um bann við áfengisauglýsingum og  auglýsir  bjór purkunarlaust. Það er líka til skammar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>