Er það náttúrulögmál, að ekkert sé að marka auglýsta tíma í dagskrá Ríkissjónvarpsins ? Í gærkveldi (18.06.2011) hófst sýning kvikmyndarinnar Hestahvíslarans rúmlega fimmtán mínútum eftir auglýstan sýningartíma. Engin afsökun. Engin skýring. Auðvitað er þetta ekki náttúrulögmál. Þetta er bara subbuskapur, sem þekkist ekki hjá alvöru sjónvarpsstöðvum, en er látinn viðgangast Í Efstaleitinu þar sem rekin er fótboltarás og vídeóleiga sem kölluð er Ríkissjónvarp. Þeir sem stjórna útsendingum Rásar eitt kunna á klukku. Þar er þess gætt að virða auglýsta tíma í dagskrá.
Fréttaskrifurum er ærinn vandi á höndum, þegar beygja skal kvenkynsorðið ær. Á vefnum mbl.is (18.06.2011) stendur: Ærinni og lömbum hennar heilsast vel eftir björgunina,… Hér hefði Molaskrifari haldið að ætti að standa: Ánni og lömbunum…. Ærin , um ána, frá ánni til ærinnar.
Fossafansinn í Morsárjökli er fín fyrirsögn á mbl.is (17.06.2011).
Í fréttum Ríkisútvarpsins (16.06.2011) var tekið svo til orða að nóg væri af hvali á Eyjafirði. Hvalur beygist: Hvalur, hval , hval, hvals. Hinsvegar hefði mátt segja, að mikið væri um hvali á Eyjafirði um þessar mundir. Í sama fréttatíma var talað um vandamál sem viðloðandi vandamál. Molaskrifari kann ekki að meta það orðalag.
Við höfum verið að pikka upp breskt gos og spænskt gos og vatn, sagði forstjóri ferðamiðlarans Iceland Express í samtali á vefnum visir.is (17.06.2011).
Sjónvarpað var frá hátíðarfundi Alþingis þar sem samþykkt var að stofna prófessorsembætti til heiðurs Jóni Sigurðssyni. Fyrir höfum við embætti til heiðurs Árna Magnússyni og Sigurði Nordal, en tímum ekki, eða höfum ekki rænu, á að veita fé til að launa fólk í þessar stöður. Það verður eins með prófessorsembættið kennt við Jón Sigurðsson. Það er svona einnota, hátíðarheftiplástur á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar. Á morgun verður málið gleymt. Svona gjörðir eru sérkenni þessarar þjóðar. Halelúja í dag. Hjúpur gleymsku á morgun. Gott hjá Valgerði Bjarnadóttur að sitja hjá við afgreiðslu málsins á þingi. Þetta er svona heldur lítilfjörleg sýndarmennska.
Það var ekki uppörvandi að heyra forsætisráðherra lesa ræðu um Jón Sigurðsson á þessum þingfundi. Ráðherrar eiga að flytja ræður, ekki lesa þær blæbrigðalaust eins og þurran embættismannatexta úr kansellíinu.
Það er ómerkilegt, þegar menn eins og Jón Valur Jensson blanda Jóni Sigurðssyni forseta aftur og aftur með ósmekklegum hætti inni í umræðu samtímans um ESB. Og geta svo ekki einu sinni haft einkunnarorð forseta, ,,Eigi víkja” rétt eftir.
Það hefur verið nefnt hér áður, að það er einkennileg meinloka hjá stjórnendum fréttastofu Ríkisútvarpsins að allir fréttamenn geti verið fréttaþulir. Það er ekki þannig. Sumir fréttamenn hafa góða rödd fyrir hljóðnema og hlustendur. Aðrir hafa það ekki, en geta engu að síður verið góðir fréttamenn. Þetta tvennt þarf ekki að fara saman. Fréttastofan heldur áfram að láta fréttamenn lesa fréttir,sem ekki eru áheyrilegir. Þetta er líklega gert eftir reglunni: Það er vont, en það venst. Það er vond vinnuregla í Ríkisútvarpi.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
19/06/2011 at 15:29 (UTC 0)
Mér hugnast ekki eignarhald Mogga, Eyju eða Pressu. DV er kannski skömminni skást.
Guðmundur skrifar:
19/06/2011 at 14:04 (UTC 0)
Það gerir mig leiðan að sjá þig á DV blogginu. Þú átt ekki heima þar sem neikvæðni og niðurbrot ræður ríkjum.