«

»

Molar um málfar og miðla 636

Ég er hér við Elliðaánna, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins skýrt og greinilega í morgunfréttum klukkan átta (20.06.2011). Molaskrifari  segir nú bara: Ja, hérna. Í þessari stuttu  setningu eru tvær villur.  Árnar heita Elliðaár. Ég er hérna við Elliðaárnar, hefði  átt að segja. Ef áin  héti  Elliðaá, sem  hún ekki gerir , þá hefði þetta átt að vera: Ég er hérna við Elliðaána. Ekki ánna !  Fréttamenn eiga kunna skil  á algengustu örnefnum, þó ekki væri nema í höfuðborginni ?

Það  er auðvitað ekki rangt að tala um  mataræði þorska, eins og gert var í sexfréttum Ríkisútvarpsins (20.06.2011), en ekki kemur það almennilega heim og saman  við málkennd Molaskrifara. Honum hefði þótt  eðliegra að tala um æti þorsks á Íslandsmiðum.

Í fréttum  Stöðvar tvö á þjóðhátíðardaginn sagði fréttamaður, að forsætisráðherra hefði hvatt Íslendinga til bjartsýnis og   er rætt  var um klæðaburð, sagði  sami  fréttamaður, að  sumir hefðu borið höfuð yfir herðar í þeim málum.  Áður en fréttamenn eru ráðnir, er ágætt að ganga úr skugga um að þeir séu talandi og kunni að beita algengustu orðatiltækjum tungunnar. 

Úr dv.is (20.06.2011): Hannelore Kohl eiginkona fyrrum kanslara Þýskalands, Helmut Kohl var nauðgað þegar hún var 12 ára gömul af rússneskum hermönnum.  Molaskrifari  gerir  tvær  athugasemdir við þessa setningu. Í fyrsta  lagi stýrir  sögnin að nauðga þágufalli  og í öðru lagi er þarna óþörf þolmyndarnotkun. Betri  væri setningin svona: Rússneskir hermenn nauðguðu Hannelore Kohl, eiginkonu fyrrum kanslara Þýskalands, þegar hún var tólf ára gömul.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (20.06.2011) sagði fréttamaður : … sem erfði forsetaembættið af föður sínum.  Molaskrifari  hallast að því, að hér sé   ekki notuð rétt   forsetning.  Til dæmis hefði mátt segja:  .. sem tók  forsetaembættið að erfðum eftir  föður sinn.  Eða: … sem  erfði  forsetaembættið eftir föður sinn. Eða: … sem tók við forsetaembættinu af föður sínum.

Gagnrýni á   æðstu stjórnendur  Ríkisútvarpsins fer vaxandi. Margir verða til þess að taka undir  það sem Molaskrifari hefur sagt um óstjórnina í Efstaleiti.  Margrét Örnólfsdóttir kvikmyndagerðarkona skrifaði grein í  Fréttablaðið (20.06.2011) þar sem hún gagnrýnir, að íslenskum  kvikmyndum skuli ýtt út í horn, meðan  besti tími kvölds ,, er lagður undir eitthvert þriðja flokks mót ófullburða fótboltaliða”.  Hún gagnrýnir einnig harkalega   efnisröðun í dagskrá. Til dæmis það að hefja sýningu íslenskrar kvikmyndar eftir miðnætti. Sem er auðvitað með endemum. Það er löngu komið í ljós að þeir sem stjórna í Efstaleiti  telja störf  sín hafin yfir alla gagnrýni.  

,,Fann þetta á ráfi mínu hér í netheimi”, segir lesandi,sem þakkar þessi pistlaskrif:
  „muslimar á vappi með hundinn og konuna í ól og grjóthnullung i hendinni ef eg fer úrskeiðis“
EF ÉG FER ÚRSKEIÐIS?”  Já,  það fer  svo sannarlega  ýmislegt  úrskeiðis í skrifum í netheimum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>