«

»

Molar um málfar og miðla 637

Það er ljóður á ráði  fréttastofa íslensku sjónvarpsstöðvanna, að maður veit  oft ekki hvort  maður er að horfa á nýjar fréttamyndir, eða gamlar myndir úr safni. Erlendar  stöðvar  geta þess í skjátexta ef  notaðar eru gamlar myndir úr safni.  Hér  er það ekki gert og oft eru sömu fréttamyndirnar sýndar kvöld eftir kvöld og áhorfendur látnir standa í þeirri  trú  að um nýjar myndir sé að ræða.  

Þegar blaðamenn Morgunblaðsins eins og gert er í dag (21.06.2011) nota Jón Sigurðsson forseta purkunarlaust í herferð sinni gegn  þátttöku Íslands í samstarfi  Evrópuþjóðanna  verður maður eiginlega orðlaus.

Bjarni Sigtryggsson sendi eftirfarandi: ,,Þótt það fari sífellt í manns fínustu taugar að lesa í fréttum flesta daga um þessar mundir fréttir af því að laxveiðiárnar séu að opna – þá getur skemmtilegt orðalag slegið vopnin úr höndum manns. Líkt og þessi snjalla upphafsmálsgrein fréttar í Morgunblaðinu, um að veiði væri hafin í Laxá í Aðaldal: „Laxveiðiárnar opna veiðimönnum faðm sinn hver af annarri þessa dagana.“ “  Þetta er rétt Bjarni, Molaskrifari tók eftir  þessu líka  og það gladdi hans gamla hjarta. Sá sem þetta skrifaði fær  hrós fyrir.

Í  morgunþætti Rásar eitt  ,,Vítt og  breitt” er   upp úr klukkan  sjö getið helstu frétta úr dagblöðunum. Í  morgun (21.06.2011) dvaldi  umsjónarmaður lengi við frétt úr  Morgunblaðinu um efnisrannsókn  á bókunum um Ástrík.   Aðalfréttin  efst á  forsíðu Fréttablaðsins fór  hinsvegar   framhjá umsjónarmanni. Fréttastofu Ríkisútvarpsins þótti þetta hinsvegar fréttanæmt. Fréttin var um það, að  ferðamiðlaranum Iceland Express hefði aðeins  tekist  að vera á áætlun í 36%  ferða  um Keflavíkurflugvöll í fyrra sumar.     Þetta fór hinsvegar ekki framhjá  umsjónarmönnum Rásar tvö, þegar þeir sögðu hlustendum sínum frá  efni  dagblaðanna. Þeir  gerðu þessu  ágæt  skil.

Í texta í fréttum Stöðvar tvö (20.06.2011) stóð:  Hann er með hæfileika sem flestir dreymir um að hafa.  Hefði að sjálfsögðu átt að vera: Hann er með hæfileika sem flesta dreymir um að hafa.

Undarlegt nafn á heilsulind í Laugarvatni er Fontana. Hversvegna nota Laugvetningar ekki íslensku?

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Þorkell, – var reyndar búinn að reka augun í þetta.

  2. Þorkell Guðbrands skrifar:

    Vona að þú fyrirgefir mér þótt ég komi með aðra tilvitnun í frétt, að þessu sinni úr DV. Burtséð frá efni fréttarinnar, þá sýnist mér þetta lýsandi dæmi um það þegar fólk er að setja eignarfalls -r- inn í samsett orð þar sem það á alls ekki við. Dalurinn heitir eftir því sem ég kemst næst Helgadalur, og látum liggja milli hluta að sinni hver sá Helgi var, sem hann er kenndur við.
    Ég afritaði þetta með „copy/paste“ skipuninni, sem víða kemur að gagni.

    „Landeigendur og sumarbústaðaeigendur í Mosfellsdal krefjast þess að heilbrigðiseftirlitið og bæjarstjórn Mosfellsbæjar grípi til aðgerða gegn Ásgeiri Péturssyni eiganda minkaræktunarbúsins Dalsbús ehf. í Helgardal. Í bréfi „

  3. Eiður skrifar:

    Hjartanlega sammála, Þorkell.

  4. Þorkell Guðbrands skrifar:

    http://www.m5.is/?gluggi=frett&id=144672

    Af einhverjum ástæðum fer það í taugar mínar þegar menn margfalda niður á við, þ.e. eins og í þessari frétt er talað um þetta og þetta sé mörgum sinnum minna en annað. Mér finnst þetta órökrétt og ekki fengi ég hátt í stærðfræði ef ég notaði hana með þessum hætti. Ef eitthvað er „fjórum sinnum minna“ er ég ekki einu sinni viss um hvað átt er við, en ef talað væri um að eitthvað sé fjórðungur af einhverri stærri einingu eða magni, myndi ég geta áttað mig á meiningunni. Hvað finnst þér um þetta, Eiður?

  5. Eiður skrifar:

    Víst er það betra. Rétt er það.

  6. Tomas skrifar:

    „Þegar blaðamenn Morgunblaðsins eins og gert er í dag (21.06.2011) nota Jón Sigurðsson forseta purkunarlaust í herferð sinni gegn þátttöku Íslands í samstarfi Evrópuþjóðanna verður maður eiginlega orðlaus.“ – Færi ekki betur að hafa þetta svona: „Þegar blaðamenn Morgunblaðsins nota Jón Sigurðsson forseta purkunarlaust í herferð sinni gegn þátttöku Íslands í samstarfi Evrópuþjóðanna, eins og gert er í dag (21.06.2011), verður maður eiginlega orðlaus“?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>