Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu eru sumir hverjir ekki vandir að meðulum í málflutningi sínum. Sumum þeirra er tamt að vísa í orðfæri sem flestir tengja við nazismann og tala um,,helför” og ,,lífsrými” . Staksteinahöfundur Morgunblaðsins vill ekki vera eftirbátur þessara manna. Í Staksteinum (24.06.2011) skrifar hann: Á Íslandi situr ríkisstjórn með það sem sitt heilagasta verkefni að ná um borð á þriðja farrými hins evrópska Títanik áður en það rekst á borgarísjakann. Þetta er einkar smekklegt. Þegar farþegaskipið Títanik sökk eftir að hafa siglt á ísjaka í apríl 1912 fórust 1517 manns. Títanik átti ekki að geta sokkið. Þetta var og er eitt mannskæðasta sjóslys sögunnar. Staksteinahöfundur líkir aukinni og náinni samvinnu Íslendinga við Evrópuþjóðirnar við Títanikslysið. Vondur málstaður dregur menn stundum niður í svaðið í málflutningi, þegar rök brestur. Kannski hefur Staksteinahöfundur haft í huga, að Ismay lávarður forstjóri skipafélagsins,sem átti Titanic, var farþegi á fyrsta farrými í ferðinni örlagaríku. Hann bjargaðist. Flestir þeirra sem fórust voru hinsvegar á þriðja farrými. Ismay lávarður var einn af hugmyndasmiðunum að baki Titanic. Hann hannaði þessa útrás í harðri samkeppni um farþega á leið yfir Atlantshaf. Hann bjargaði sér eins og áður sagði.
Á eyjan.is birtist nýlega bréf frá Bryndísi Schram til Styrmis Gunnarssonar. Bréfið birti Bryndís á Eyjunni vegna þess að Morgunblaðið neitaði að birta það. Hér er tengill á bréfið hennar Bryndísar: http://lugan.eyjan.is/2011/06/22/ad-vera-eda-vera-ekki-%E2%80%93-thad-er-spurningin/ Mikið verður gaman að sjá svarið hans Styrmis.
Úr mbl.is (23.06.2011): Sjósetning lítils kafbátar fór fram í morgun … Lítils kafbáts, hefði þetta átt að vera. Eignarfallsmyndin bátar er ekki til í málinu.
Bragð er að þá barnið finnur ,sem gamalt máltæki. Í kynningu á dagskrá Ríkissjónvarpins í hádegisútvarpi ( 23.06.2011) var talin ástæða til að taka það sérstaklega fram, að sjónvarpsfréttir hæfust klukkan sjö, – á venjulegum tíma. !
Það er góðra gjalda vert, að Ríkissjónvarpið skuli ætla að sýna nokkrar íslenskar kvikmyndir. Það er á hinn bóginn álitamál hvort sumarið sé besti tíminn til slíkra sýninga. En það er auðvitað ótækt með öllu að láta sýningu á íslenskri kvikmynd hefjast á tólfta tímanum eins og í gærkveldi (23.06.2011). Þeir sem raða sjónvarpsdagskránni saman í Efstaleiti hafa greinilega einkennilegar hugmyndir um að hvenær fólk almennt gengur til hvílu á kvöldin. Það er ekki ein báran stöð í Efstaleitinu.
Ingibjörg Bragadóttir þakkar þessi pistlaskrif og segir um umfjöllun um tunguna: ,,Manni rennur til rifja að Ríkisútvarpið skuli láta þetta sig jafn litlu skipta og raun ber vitni.
Málfarsráðunautur heyrir sögunni til og „ritskoðun“ þula virðist engin. Þó full þörf sé á.
Svo langar að minnast á þá sorglegu þróun sem orðið hefur í því að fullorðið fólk talar barnamál. T.d. segir það „að dingla bjöllu“ og „klessa á“, svo gáfulegt sem það er nú.
Þetta eru mörg börn alin upp við í dag.
Ótrúlega margt ungt fólk talar um heimalinga – ekki heimalninga.
Sama er að segja um útilegu sem gengur undir heitinu útileiga nú til dags.” Molaskrifari þakkar Ingibjörgu sendinguna.
Skildu eftir svar