«

»

Molar um málfar og miðla 642

Stundum sleppa ótrúlegar ambögur  í gegn um síurnar, sem ættu að vera til staðar. Dæmi um það er þessi myndatexti úr Sunnudagsmogga (26.06.2011): Kvikmyndatökumaðurinn Bergsteinn Björgúlfsson er hér að ráðleggja sig við Valdísi Óskarsdóttur leikstjóra  við tökur á myndinni Kóngavegur. Ráðfæra sig við, ætti þetta að vera.

Góður árangur hjá Fjólu Signý, sagði í fyrirsögn á mbl.is  (25.06.2011). átti að vera: Góður árangur hjá Fjólu Signýju.

Mikið sjáum við á eftir ykkur, sagði umsjónarmaður poppþáttarins í Ríkissjónvarpinu á laugardagskvöld  (25.06.2011). Hann  átti við: Mikið sjáum við eftir ykkur.

Fréttamatið í  Ríkisútvarpinu kemur manni stundum á óvart. Í tíufréttum að morgni dags ( 26.06.2011) var það fyrsta frétt að maður hefði fundist  látinn inni á útikamri á útihátíð í Bretlandi.  Ja, hérna!  Seinna kom að vísu í ljós, að þetta var kunnur maður, — í Bretlandi.

Fréttamenn   eru á góðri leið með að festa í málinu  að  hitt og þetta sé  samkvæmt einhverjum.  Samkvæmt lögreglunni…  heyrist æ oftar. Molaskrifara finnst þetta ekki vera til bóta.

…nýútskrifaðir læknar fara því erlendis… var sagt í fréttum Stöðvar tvö (26.06.2011). Menn fara ekki  erlendis. Menn fara  til útlanda. Þá eru þeir  erlendis.  Í sama  fréttatíma    sagði í textaðri frétt: … skynsamar skorður.  Hefði átt að vera  skynsamlegar skorður.   Líka var talað um brothætt ástand, sem  ekki er vel að orði komist.

Í fréttum  Ríkissjónvarps (26.06.2011) var rætt  við pólskan mannfræðing um   atvinnulausa Pólverja á  Íslandi. Aðalatriði fréttarinnar var, að gerðar væru auknar kröfur um íslenskukunnáttu Pólverja. Fréttapunkturinn var hinsvegar allt annar, að mati Molaskrifara. Fréttin var sú,  að pólsk kona  hafði snúið heim til Póllands og farið að vinna í verksmiðju. Þegar hún fékk útborgað sá hún, að launin í Póllandi voru lægri en atvinnuleysisbæturnar á Íslandi.  Hún hefði því   flutt snarlega  til baka  til Íslands og  farið á launaskrá hjá íslenskum  skattgreiðendum með því að  þiggja atvinnuleysisbætur hér.

Á föstudagskvöld (24.06.2011) þrástagaðist fréttastofa Ríkisútvarpsins á því að ferðamálaráðherra íhugaði að setja  lögbann á  eftirvinnubann flugbanna.  Þetta stóð lengi á  fréttavef Ríkisútvarpsins og var  tíundað í tíufréttum og  aftur á miðnætti. Mbl.is sagði réttilega  að ráðherra hefði  nefnt  lagasetningu sem hugsanlegt úrræði. Lagasetning er eitt lögbann er annað. Lögbann er ekki að banna vinnudeilu með lögum.  Það þarf ekki að vera lögfræðingur til að þekkja muninn á þessu tvennu.   Bara sæmilegur blaðamaður.   Það var ekki fyrr en í tíufréttum á laugardagskvöld að í Ríkisútvarpinu var loksins talað um lagasetningu, en ekki lögbann. Það var líka gert í morgunfréttum daginn eftir. Í  bæði skiptin var þar að verki Gunnar Hrafn Jónsson, fréttamaður. Hann fær plús fyrir það.   En á fréttavef  Ríkisútvarpsins   á laugardagskvöldið  var bæði talað um lagasetningu og lögbann í  sömu  fréttinni.  Meira endemis ruglið!  Það virðist hinsvegar ekki hafa hvarflað að yfirmönnum fréttastofu  Ríkisútvarpsins  að biðja hlustendur afsökunar  á því að ranglega hafi  verið talað um lögbann, þegar átt var við lagasetningu.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það heyrir orðið til undantekninga, Kristján.

  2. Kristján Haraldsson skrifar:

    DV 28/6 2011 „Reyndi að fremja sjálfsvíg eftir að hundarnir hans drápust“ dv.is

    „Það var í gær sem að hundarnir tveir drápust eftir að hann skildi þá eftir í læstum bíl. Hitinn í bílnum var óbærilegur fyrir hundana sem hnigu niður. Starfsfólk við hundaþjálfunarstöð lögreglunnar í London braut rúðu á bílnum til þess að ná hundunum út. Þeim var flýtt til dýralæknis sem gat lítið gert fyrir þá. “

    Er ekki gerð krafa um að þeir sem skrifa fréttir hafi lágmarks kunnáttu í íslensku?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>