«

»

Molar um málfar og miðla 643

Grindvíkingar eru hvattir til þess að láta lögreglu vita um grunsamlegar mannaferðir og læsa húsin sín, hvort sem fólk er heima eða heiman. Þetta er  af vef  Grindavíkur. Birtist raunar einnig orðrétt  á  mbl.is. Þar hafa menn greinilega ekkert séð athugavert  við þennan  texta.  Fólk málar húsin sín, en læsir húsunum sínum.   

Þorkell Guðbrandsson sendi Molum eftirfarandi: ,,Tók eftir þessu áðan:
http://www.visir.is/starfsmadur-lyfja-og-heilsu-dro-ad-ser-fe/article/2011110629171
Þegar maður er kominn á áttræðisaldur verður maður sjálfsagt nöldrunargjarn og leiðinlegur. En fram eftir öllum aldri vandist ég því að það væri talað um að menn „drægju sér fé“ ef þeir tóku fé ófrjálsri hendi, sem þeir höfðu (oftast) umsjá með. Nú sér maður varla talað um annað en að „draga AÐ sér fé“ eins og í þessari frétt.

Manni virðist sem nú til dags ruglist fólk oft á „að“ og „af“. Fólk talar um að „leita af“ þessu eða hinu, þegar manni finnst að tala ætti um að leita að einhverju. Svo er þetta að hafa gaman af og þykja gaman að, sem virðist vefjast fyrir fólki. Í rituðu máli, einkum í bloggheimum, sýnist manni að þessu hafi verið snúið á hvolf.” Molaskrifari  þakkar sendinguna.  Hann er líka vanur því að talað sé um að draga sér  fé,  ekki draga að sér fé.

Svolítið fannst Molaskrifara undarlegt að heyra í fréttayfirliti Ríkissjónvarps að farfuglar væru  farnir úr landi. Eðlilegra hefði verið að tala um  að sumir farfuglar væru  farnir frá landinu  eða  af landinu  eins og raunar var gert í sjálfri fréttinni. Í  tíufréttum var sagt að  dæmi væru um að farfuglar hefðu yfirgefið landið. Betra.

Í  hádegisfréttum  Ríkisútvarpsins (28.06.2011) var fjallað um  auðmann, sem hyggðist verja hluta af auð sínum til ….  Orðið auður  hefði þarna átt að vera  í þágufalli, … hluta af auði sínum.  Í sama fréttatíma  var orðið  fragtari notað um vöruflutningaskip. Allir skilja orðið vöruflutningaskip,  Ekki er víst að allir skilji orðið fragtari. Gamalt slangur.

Molaskrifara hefur verið sagt að ástæðan fyrir því að  orðið Ríkisútvarp er nú bannorð í Efstaleitinu sé  sú  að  stjórnendur  vilji slíta  tengslin  við   ríkið í hugum fólks og  tala  þessvegna sífellt um Rúv og aftur  Rúv.  Þetta þykir  Molaskrifara ekki ósennileg kenning.   Viðskiptavinir  Ríkisútvarpsins, sem  verða að greiða nefskatt til stofnunarinnar hvort sem þeim líkar betur eða verr, hafa enga  aðkomu  eða áhrif á það hvernig þessari mikilvægu stofnun er stjórnað. Ríkisútvarpið minnir um sumt frekar á einkahlutafélag en opinbert hlutafélag.

Undarlegt var að hlusta á röksemdafærslu talsmanns flugmanna er rætt var við hann í fréttum vegna yfirvinnubanns flugmanna, sem nú  veldur ferðaþjónustunni gríðarlegu tjóni á háannatíma. Svona á við lítið eldgos. Hann sagði:  Menn verja  10-12 milljónum í   flugnám, sem ekki er  lánshæft. Má rétt vera. En svo  féllu orð   eins og þetta  veitti  flugmönnum ótvíræðan rétt il vinnu hjá   íslenskum flugfélögum  árið um kring  án tillits til  þess hve  mikið væri að gera hjá  flugfélögunum. Flugnám veitir   atvinnuréttindi  en það skuldbindur hvorki Icelandair né önnur flugfélög til að ráða alla  menntaða  flugmenn  til starfa.  Annars er mjög  einföld lausn á þessu máli.  Þeir sem hafa hæst laun og fljúga mest minnka  bara   við sig  vinnuna svo allir geti haft vinnu. Gallinn á því er bara sá eins og kom fram í viðtali við talsmann Icelandair að meðal  flugmanna er hin bannaða yfirvinna mjög  eftirsótt svo ótrúlegt sem það er í ljósi stöðunnar.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Einmitt!

  2. Eiður skrifar:

    Þetta orðalag er því miður að verða mjög algengt.

  3. Sigurjón Halldórsson skrifar:

    Í frétt, sem birtist á mbl.is í dag, 12. ágúst 2015, var fyrst notað orðalagið „draga að sér fé“. Leiðrétting birtist skömmu síðar að framkominni athugasemd.

  4. Sigurjón Halldórsson skrifar:

    Orðin af vef Grindavíkur síðar leiðrétt á mbl.is, einnig á visir.is og vf.is.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>