Það getur vart talist vandað mál, þegar fréttamaður segir, að tiltekinn atburður hafi gerst svo snemma sem .. Í níufréttum Ríkisútvarps (01.07.2011) talaði fréttamaður um tölvupósta sem hefðu verið sendir svo snemma sem … Þetta er enskættuð íslenska alveg eins er það ekki vandað mál að tala um að eitthvað sé á pari við eitthvað annað, þegar það er jafnt eða ámóta, eins og sami fréttamaður gerði í þessum fréttatíma.
Það var óneitanlega dálítið skondið að heyra konu sem lengi hefur verið í framvarðasveit íslenskra komnúnista lýsa því í ágætum útvarpsþætti, ,,Eyðibýlinu” á Rás eitt, hvað það hefði verið skelfilegt að herinn, skyldi hafa farið af Miðnesheiðinni af sjálfsdáðum, en við ekki getað rekið hann ! Seint verður öllum gert til hæfis.
Stórorður þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir forsætisráðherra ljúga (Bylgjan 30.06. 2011). Ekki lýgur sá hinn sami þingmaður. Að minnsta kosti ekki, þegar hann þegir þunnu hljóði og harðneitar að skýra frá því hverjir greiddu háar upphæðir til að koma honum á þing.
Undarlegt var að heyra félagana í morgunútvarpi Rásar tvö (30.06.2011) velta sér upp úr fyrirsögnum sem í fólst tvíræðni á mörkum kláms og voru þar nefndir til sögunnar kunnir einstaklingar. Molaskrifari er ekki viss um að öllum hlustendum hafi verið skemmt. Það virtist líka koma umsjónarmönnum í aðra röndina á óvart að orðið skreið þýðir harðfiskur, þurrkaður fiskur.
Frétt dagsins (30.06.2011) var á baksíðu Fréttablaðsins, en þar sagði frá því, að íslenskur þingmaður, Birgitta Jónsdóttir ætli sér að ræða við menntamálaráðherra Grikklands um ,,hvernig menningin í landinu hefur þróast”. Og Molaskrifari sem hélt að grískir ráðherrar hefðu öðrum hnöppum að hneppa þessa dagana, en að veita íslenskum þingmönnum menningarleiðsögn um sögu Grikklands.. Silfraður Egill Helgason dvelst nú á Grikklandi. Egill veit sitt af hverju um Grikkland og gríska menningu. Birgitta hefði eins getað rætt við hann.
Ferðaskipuleggjandinn Iceland Express kaupir í dag (01.07.2011) heilsíðuauglýsingu í DV og sjálfsagt víðar til að biðjast afsökunar á óstundvísi í ferðum sem fyrirtækið skipuleggur. Í auglýsingunni kallar Iceland Express sig sparnaðarflugfélag, sem er ósatt. Iceland Express er ekki flugfélag, það er ekki einu sinni ferðaskrifstofa. Það er skráð hjá Ferðamálastofu sem ferðaskipuleggjandi. Það geta allir séð sem skoða vef Ferðamálastofu. Makalaust hvernig þetta fyrirtæki kemst upp með að ljúga að fólki í auglýsingum. Iceland Express hefur ekkert flugrekstrarleyfi og á engar flugvélar.
Æ oftar heyrir Molaskrifari af ferðum á vegum Exland Express, sem eru felldar niður með stuttum fyrirvara. Þá er fólk ef til vill búið að bóka framhaldsflug og lendir í allskyns hremmingum, fyrir utan þá erfiðleika sem óstundvísi fyrirtækisins hefur í för með sér fyrir þá sem láta glepjast til að eiga viðskipti við það. Reynslan hefur sýnt að fyrirtæki, sem segja viðskiptavinum sínum ósatt eða standa ekki við þau boð sem auglýst hafa verið verða yfirleitt ekki mjög langlíf.
Skildu eftir svar