Eitt ofnotaðasta (og misnotaðasta) orðtak tungunnar er að vinna hörðum höndum að einhverju. Hlálegt dæmi um þetta var í Fréttatímanum (01.07.2011) þar sem segir um auðkýfinginn Kára Stefánsson, sem á sögufrægt stórhýsi í vesturbæ Reykjavíkur, að hann vinni nú hörðum höndum að því að byggja annað glæsihýsi í Kópavogi!! Molaskrifari sér ekki auðmanninn fyrir sér í hlutverki múrara eða smiðs.
Lesandi Mola sendi eftirfarandi ábendingu: ,,Vont er að heyra forstöðumann Amtbókasafnsins á Akureyri segja frá lestrar- og íslenskueflingarátaki barna sl. föstu- eða mánudag í útvarpinu og vísa til barnanna sem nýta sér safnið með því ítrekað að kalla þau „ðaug“.
Það er lámarkskrafa að fólk í svona störfum tali gott mál”. Molaskrifari þakkar ábendinguna og tekur undir það sem þar er sagt.
Ungir læknar í sérnámi eru ekki að snúa heim í sama mæli og áður (01.007.2011)var sagt í fréttum Stöðvar tvö. Það virðist engin leið fær til hlífa okkur hlustendum við er að fárinu.
Bæjarhátiðirnar eru hver annarri lík, var sagt í sexfréttum Ríkisútvarps (01.07.2011). Molaskrifari er á því að segja hefði átt: Bæjarhátíðirnar eru hver annarri líkar.
Samkvæmt veðurlýsingu Veðurstofu Íslands í áttafréttum Ríkisútvarpsins hefur verið skemmtilegt veður í Bolungarvík í morgun (02.07.2011). Þar vestsuðvestan logn !
Engum er allsvarnað. Jafnvel ekki Ríkissjónvarpinu. Þar virðast menn nú orðnir uppiskroppa í bili að minnsta kosti (vonandi lengur) með dellumyndir, sem hellt hefur verið yfir þjóðina á besta tíma á föstudags- og laugardagskvöldum. Í gærkveldi (01.07.201) var sýnd evl gerð mynd eftir skáldsögu Jane Austen, Emmu og þar á eftir kom fínn sænskur krimmi, – þrælspennandi. Í kvöld er svo ágætismynd á dagskrá (muni Molaskrifari rétt) Good Morning Vietnam. Hún fær þrjár stjörnur í kvikmyndahandbók Leonards Maltins. Guð láti gott á vita, eins og gamla fólkið sagði.
Alkunna er hvernig í Útvarpi Sögu var ( og er kannski enn) blandað saman auglýsingum og dagskrárefni þannig að mörkin milli auglýsinga og urðu óljós og stundum ósýnileg. Þetta kölluðu einhverjir ,,auglýsingahórerí”. Nú hefur Molaskrifari ekki hlustað á Útvarp Sögu nokkuð lengi og veit því ekki hvernig þessu er þar háttað nú um stundir. Hann er í stækkandi hópi sem forðast subbuskapinn, sem þar er á boðstólum. Í Ríkissjónvarpinu eru mörkin milli auglýsinga og efnis, sem á árum áður voru mjög skýr, nú sem óðast að mást út. Allt að verða einn hrærigrautur. Um skeið hefur verið auglýst bók frá BYKO um pallasmíði. Nú er Ríkissjónvarpið að auglýsa þætti þar sem pallasmiðurinn frá BYKO leikur aðalhlutverkið og þættirnir eru gerðir og sýndir, að manni skilst í samvinnu við BYKO. Þetta er auglýst daglega ásamt pallabókinni. Það er því eðlilegt að spurt sé: Er BYKO búið að kaupa Ríkissjónvarpið ? Dagskrárstjórar í Efstaleiti hafa greinilega hvorki vilja né getu til að hafa stjórn á auglýsingadeildinni, sem ásamt íþróttadeilinni virðist ráða öllu sem máli skiptir í Ríkissjónvarpinu.
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
04/07/2011 at 22:13 (UTC 0)
Kærar þakkir fyrir þetta, Hallgerður.
Hallgerður Pétursdóttir skrifar:
04/07/2011 at 21:16 (UTC 0)
Ég hef svo mikla ánægju af málinu í vanmætti mínum.
Er málið góða við dauðans dyr
er dýrðlegi stofninn að fúna
Það sem menn kölluðu knérunn fyrr
kalla menn hnérrunn núna …( tvö N ? )
Íhaldsmaður úr Eyjun í ræðustól á öldinni sem leið.
Eiður skrifar:
03/07/2011 at 10:52 (UTC 0)
Kærar þakkir, Stefán.
Stefán Friðrik Stefánsson skrifar:
03/07/2011 at 07:09 (UTC 0)
Sæll Eiður. Þakka góð skrif. Alltaf gaman að lesa hugleiðingar þínar um málfar og fjölmiðla.
Eiður skrifar:
02/07/2011 at 15:06 (UTC 0)
Þakka þér skrifin, Sveinn. Held ég hafi aldrei áður slegið upp í Maltin ! Sá þessa mynd á sínum tíma, – og skemmtimér alveg þokkalega.Þannig er það allavega í minningunni. Það sem ég kalla ,,delluumyndir“ er auðvitað út frá eigin sérvisku fordómum og smekk. Margar gamlar myndir eru góðar og standa enn fyrir sínu, – með því er ég hreint ekki að hallmæla myndum sem nú eru að koma fyrir augu áhorfenda. Ég tek öllum málefnalegum ábendingum vel, – þó það nú væri !
Sveinn Másson skrifar:
02/07/2011 at 13:54 (UTC 0)
Sæll Eiður,
þakka ég þér fyrir afskaplega góða pistla og gagnlega. Vona ég að starfsmenn fjölmiðlanna lesi og noti sér í starfi.
Ekki hef ég út á margt að setja, og alls ekki innsláttarvillur, sbr. evl gerð mynd. Hins vegar vil ég á það benda, að dellumyndir. sem þú kallar svo og Ríkisútvarpið sýnir hverja helgi, eru eflaust margar sambærilegar að gæðum hjá allmörgum og gamla dellumyndin Good Morning Vietnam.
Með því er ég ekki að hrósa Ríkisútvarpinu en aðeins því að Molaskrifari virðist geta dæmt hvað teljast til dellumynda og hvað ekki, og þá augljóslega með hjálp Leonards Maltins og aldurs myndanna. Eftir því sem þær eru eldri virðast þær batna í huga Molaskrifara. Sést það berlega á færslunni hér að ofan og ummælum þínum um slappa gamanmynd frá Hollywood þar sem herstörf eru dásömuð út í eitt.
Hef ég þó ekkert út á ummæli þín um Emmu og sænska krimman að setja. Aðeins að benda þér á þetta atriði. Vona ég og að þú takir því ekki illa.
Með góðri kveðju,
Sveinn Másson