Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (02.07.2011) klukkan 12 20 var sagt frá því að björgunarbátar væru á leiðinni til að bjarga áhöfn og farþegum úr báti sem strandað hefði við Lundey á Kollafirði. Í fréttum Bylgjunnar klukkan 12 00 hafði hinsvegar verið frá því sagt, að búið væri að bjarga öllu fólkinu. Það sama kom fram á mbl. is klukkan 12 09. Seinna var að vísu skotið inn í fréttir Ríkisútvarpsins klausu um að fólkinu hefði verið bjargað. Ekki verður sagt að fréttastofa Ríkisútvarpsins sé alltaf fyrst með fréttirnar.
Í fréttum Stöðvar tvö (02.07.2011) var margsinnis talað um að ættleiða ketti. Molaskrifari er vanur því að sögnina að ættleiða sé eingöngu notuð um ættleiðingu barna. Þegar dýr eiga í hlut er eðlilegra að tala um að taka þau í fóstur eða taka þau að sér.
Í fréttatíma kvöldsins (02,07.2011) sagði íþróttafréttamaður: … vann Bandaríkin Kólumbíu. Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins þarf ekki að kvíða verkefnaskorti.
Hryllingssögum af samskiptum fólks við ferðamiðlarann Iceland Express fer fjölgandi í fjölmiðlum. Ein slík frásögn var í helgarblaði DV. Hún er hér: http://www.dv.is/frettir/2011/7/2/iceland-express-tyndi-fotum-olettrar-konu/
Rétt er að vekja athygli á þessari frétt dv.is (02.07.2011) http://www.dv.is/frettir/2011/7/2/allt-kafi-i-kaupmannahofn/
Meira úr dv.is (02.07.2011): Uppljóstrunin mun vafalaust hafa afdrifarík áhrif á niðurstöðu málsins og bendir allt til þess að dómurinn verði látinn niður falla. Í málinu, sem fréttin snýst um hefur enginn dómur fallið. Ákæra mun hinsvegar hafa verið lögð fram. Sá sem skrifaði virðist lítið hafa vitað um hvað hann var að skrifa.
Í Sunnudagsmogga (03.07.2011) skrifar Agnes Bragadóttir blaðamaður um hið virðulega dagblað Morgunblaðið. Agnes Bragadóttir lifir greinilega í veröld sem var. Morgunblaðið er ekki lengur virðulegt, – það var það ef til vill fyrir löngu síðan. Meðan það var alvörublað. Það þarf ekki annað en að lesa Reykjavíkurbréf blaðsins og margt annað í blaðinu til að sannfærast um að virðulegt er Morgunblaðið ekki. Blað sem lætur fréttaval stjórnast af hagsmunum eigenda sinna á slíkt heiti ekki skilið. Það er líklega þannig um fleiri en Molaskrifara að Morgunblaðið er keypt vegna minningargreinanna. – Stöku sinnum ratar þó áhugavert efni í blaðið eins og prýðileg grein Einars Fals Ingólfssonar um skoska laxveiðimanninn Robert Neil Stewart. Mogginn á þetta til, en það er orðið of sjaldgæft.
Ef skammarverðlaun íslenskrar tungu væru til ætti Húsasmiðjan að fá þau fyrir að troða ensku orðunum tax free inn í hlustir okkar í daglegum auglýsingum. Reyndar mætti skipta slíkum verðlaunum milli Húsasmiðjunnar og auglýsingadeildar Ríkisútvarpsins , sem tekur við auglýsingum, sem ganga þvert á þær reglur sem Ríkisútvarpið á að vinna eftir.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Gunnar skrifar:
04/07/2011 at 16:49 (UTC 0)
Sæll Eiður
Fyrst þú nefnir Húsasmiðjuna og „Tax free“ ruglið. Við skulum líta fram hjá sannleikanum á bak við það, en „Tax free“ á eftir því sem ég kemst næst að þýða verð án virðisaukaskatts, það er um 80% af fullu verði. Nú auglýsir Húsasmiðjan „Tax free af“ hinu og þessu, sem ég tel eðlilegt að skilja þannig að verðið lækki sem nemur „tax free“ verði, eða sem næst um 80%, þannig að söluverð sé sem næst 20% af fyrra verði. Þetta virðist sama rökleysan og þegar vara er auglýst „á 10% afslætti“ þegar hún er seld með 10% afslætti, það er „á“ 90% fyrra verðs.
Kveðja
Gunnar