«

»

Molar um málfar og miðla 648

Franska togarann tók niðri, sagði fréttamaður Ríkissjónvarpsins  (03.07.2011)  Togarann tók ekki niðri. Togarinn tók  niðri. Það ætti enginn fréttamaður að flaska á svona   grundvallaratriði.

Úr mbl.is (03.07.2011): Miklar rigningar ollu skriðuföllum í Sichuan héraði í suðvesturhluta Kína í dag. Skriðan einangraði héraðið frá umheiminum.  Ein skriða einangrar ekki Sichuanhérað  frá umheiminum,  jafnvel þótt  hún falli á mikilvæga samgönguæð. Sichuanhérað er nær fimmfalt  Ísland að flatarmál og  íbúarnir  um 82 milljónir.

Í nokkur ár hefur verið vangaveltur…,  sagði fréttamaður  Stöðvar tvö (03.07.2011). Í nokkur ár hafa verið vangaveltur…, hefði verið réttara mál.

Í tveimur fréttatímum Ríkisútvarps og sjónvarps (03.07.2011) var talað um  göngufólk  sem hefði  villst í Lónsöræfum. Molaskrifari  er á því að jafnan  sé eystra  sagt á Lónsöræfum. Fylgja á málvenju heimamanna. Mbl.is  sagði í fyrirsögn: Leit á Lónsöræfum.

… eða hvort þetta verður  eins og manni grunar. Sagði alþingismaður í  sexfréttum Ríkisútvarpsins (03.007.2011). Þrálát er þágufallssýkin.  En  þessi sýki leggst ekki bara á  alþingismenn.   Fyrrum súlustaðareigandi kenndur við gullfingur segir í dv.is:  Þetta eru gæjar sem kaupa það sem þeim langar í.

Skörin færist upp á bekkinn segir í fyrirsögn á  Silfri  Egils á  Eyjunni (03.07.2011).  Þetta á  að vera   ,,skörin  færist upp í bekkinn”. Hér má vísa í  hina ágætu bók dr. Jóns G. Friðjónssonar, Merg málsins, bls.  784. Þar er  eitt dæmið: ,,Mér þykir skörin vera farin að færast upp í bekkinn ef óbreyttir flokksmenn eiga alfarið að móta stefnu  flokksins”. Orðtakið skýrir Jón  svo: ,,Skör er þrep fyrir neðan pall/bekk en minniháttar fólk sat á skörinni. Skör er hér tákn  þess er má sín lítils  og vísar líkingin til þess er minniháttar fólk vogaði sér að setjast upp í bekkinn”.

Af vef Ríkisútvarpsins (04.07.2011): Þriggja bíla árekstur varð í Víðidal við Gröf laust fyrir klukkan hálfeitt. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að umfang sé talsvert og að vegurinn sé lokaður í báðar áttir.  Að umfang  áreksturs sé  talsvert ?    Seint verður sagt að þetta sé lipurlega orðað hjá  fréttastofu Ríkisútvarpsins.

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorkell Guðbrandsson skrifar:

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/07/05/fundu_forna_selstod/

    Fólki gengur misvel að átta sig á beygingum í íslensku. Kannski er það eðlilegt, málið er að hluta til fornt og mörg orð og orðtæki miðuð við liðna tíð og horfna atvinnuhætti og þjóðfélag nútímans því tengslalaust við upprunann. Samt sem áður hlýtur slíkt að þekkjast víðar og þótt ég þekki það ekki persónulega má ætla, að fleiri málsvæði glími við ámóta vanda. En ekki eru öll orð í íslensku flókin í beygingu og ég hélt satt að segja að það væri svo að fólk, sem komið er til „vits og ára“ eins og sagt er, skriplaði ekki á því að beygja orðið háls. En það tekst blaðamönnum Morgunblaðsins í tilvísaðri grein, sem er reyndar um afar áhugavert viðfangsefni.
    Í annarri grein segir frá Afrískum manni, sem dæmur var í 99 ára fangelsi fyrir nautgripaþjófnað. Fyrirsögnin er að mig minnir; „Dæmdur fyrir að stela beljum“. Nú er þetta í sjálfu sér ekki rangt mál. Hitt er aftur annað, sem mér sem gömlum manni er ami að, þegar fólk er að kalla ær og kýr skammaryrðunum beljur og rollur. Ég þekki margt gott fólk til sveita, hamingjunni sé lof fyrir það, og því finnst mörgu ógott þegar jafnvel fólk, sem hefur lifibrauð sitt af þessum ágætum skepnum, kallar bústofninn sinn þessum heitum. En innst inni veit ég að ástæðan fyrir þessu er sú, að fólk kann ekki að beygja orðin ær og kýr og skólarnir hafa gefist upp við slík verkefni.

  2. Eiður skrifar:

    Darri, ,,egin“hvað?

  3. Darri Olason skrifar:

    úr fílabeinsturninum er auðvelt að skjóta og má þannig séð segja að þú hafir gert það yfir 600 sinnum, er ekki kominn tími á að þú rifjir upp egin mistök?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>