Í fréttatímanum Í Ríkisútvarpinu á miðnætti aðfararnótt sunnudags (24.07.2011) taldi Molaskrifari einar átta ambögur í fréttinni um voðaverkin í Noregi, sem flutt var í upphafi fréttatímans. Þetta var með ólíkindum. Eyjan Útey er til dæmis ekki við Noreg. Hún er í Noregi, nánar tiltekið í stöðuvatninu Tyrifjorden. Talað var um að ofbeldisseggurinn hefði planað árásina, o.fl. o. fl.
En það tók ekki betra við, þegar Molaskrifari vaknaði að morgni sunnudags. Sami fréttamaður Ríkisútvarpsins og vikið er að hér að ofan hafði umsjón með morgunfréttum (24.07.2011). Ekki heyrði Molaskrifari betur en þar væru talað um Landeyjarhöfn, en ekki Landeyjahöfn. Svo var sagt, rétt eftir að klukkan sló miðnætti. Klukkan slær ekki miðnætti. Hún slær tólf á miðnætti. Niagarafossarnir voru lýstir upp með ljósum í regnbogafánalitunum. Svo var sagt, þrír menn létu lífið og einn var særður. Rúsínan í pylsuendanum, – eða þannig, var svo þegar fréttamaðurinn sagði: Óljóst er hvað valdi slysinu. … hvað valdi slysinu ! En svo heyrðum við líka um slysið, sem tók líf fimm manns. Eru þá hreint ekki allar ambögur fréttamannsins taldar, – aðeins þær verstu.
Þetta var skárra í áttafréttunum. Þá var Jón Guðni Kristjánsson kominn á vaktina. Hann hreinsaði aðeins til, enda enginn bögubósi og einn reyndasti fréttamaður Ríkisútvarpsins.
Nú þykir Molaskrifara mælirinn vera fullur og skekinn ! Það er eiginlega ekki hægt að hafa nein orð um þessi vinnubrögð, – þennan subbuskap, sem ausið er yfir okkur frá ríkisfréttastofunni í Efstaleiti.
Það eina sem bætti aðeins úr skák og lagaði skapið var að hlusta á Gerard Souzay syngja um malarastúlkuna fögru eftir Schubert alveg fram til klukkan átta. Smekkvísi þula í tónlsistarvali á þessum tíma á sunnudagsmorgnum er næsta óbrigðul.
Meira um ambögur í Ríkisútvarpinu: Eftirfarandi ,,frétt var á fréttavef og í taxtavarpi Ríkisútvarpsins (bls. 127) (23.07.2011)
Herflugvélar á vegum NATO vörpuðu sprengjum á höfuðborg Líbíu á laugardagsmorgun að staðartíma. Samkvæmt fréttastofu í Tripólí völdu sprengjurnar talsverðri eyðileggingu auk einhverjar dauðsfalla. Fjórar sprengingar áttu sér stað nálægt hóteli í borginni þar sem alþjóðlegir fréttamiðlar hafa aðstöðu, en tvær sprengingar til viðbótar áttu sér stað annarstaðar í borginni. Ekki hefur fengist staðfest hvert skotmarkið var eða hvort það hafi verið skotmark yfirhöfuð.
Þetta er svo ótrúlegt, að engu tali tekur. Það er eitthvað mikið að á fréttastofu Ríkisútvarpsins þegar svona ritsóðaskapur ratar á skjáinn til okkar. Það heyrir greinilega til liðinni tíð að gerðar séu kröfur um að þeir sem skrifa fréttir á fréttastofu Ríkisútvarpsins séu skrifandi.
Það situr í huga Molaskrifara, er hann heyrði Salvöru Nordal á blaðamannafundi Rannsóknarnefndar Alþingis í Iðnó forðum segja að virðingarleysi fyrir lögum og reglum væri landlægt á Íslandi. Orð að sönnu. Þetta er reyndar einkar sýnilegt í umferðinni þar sem fjöldi ökumanna talar í síma undir stýri og gefur ekki stefnuljós vegna þess að reglurnar eiga ekki við um þá. Það er reyndar þannig að ráðherrar láta það viðgangast að opinberar stofnanir sem undir þá heyra brjóti lögin við nefið á þeim á hverjum einasta degi og stundum oft á dag. og þeir setja sjónaukann fyrir blinda augað og steinhalda kjafti og gera ekki neitt.
Ríkisútvarpið auglýsir áfengi næstum daglega, alveg purkunarlaust. Ríkisútvarpið er látið komast upp með að brjóta lögin. Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir halda að sér leyfist það, segir gamalt spakmæli.
Það er ekki á hverjum degi að Molaskrifari er sammála Agnesi Bragadóttur blaðamanni Morgunblaðsins. Hún skrifaði í Sunnudagsmogga (23.07.2011): ,,Áfengisauglýsingar eru bannaðar í öllum fjölmiðlum á Íslandi, en samt sem áður leyfa Carlsberg og RÚV sér í sameiningu birtingu (innskot: Lýsingu á auglýsingunni er að finna í grein Agnesar) sem þessa, þar sem markhópurinn er augljóslega unga fólkið. Hvenær á að bregðast við þessum ósóma?” Það er ekki nema von að spurt sé. Hvenær á að bregðast við? Hversvegna láta þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á Ríkisútvarpinu þetta viðgangast? Til hvers er skipuð stjórn yfir Ríkisútvarpið ohf? Til þess að loka augunum fyrir augljósum lögbrotum?
Vinsamleg ábending til fréttamanns Stöðvar tvö vegna orðalags í fréttum (23.07.2011). Við kveikjum ekki í kertum. Við keikjum á kertum.
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
25/07/2011 at 12:28 (UTC 0)
Þetta er sennileg skýring hjá þér Björn.
Björn S. Lárusson skrifar:
25/07/2011 at 11:54 (UTC 0)
Þegar fyrstu fréttir bárust frá Útey sagði viðmælandi útvarpsins að þar „væru einhver skiptinemasamtök með ráðstefnu“. Það er vont þegar farið er með fleipur og einhverju slengt fram með getgátum. Liklega hefur viðkomandi ruglast á AUF (Ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins) og AFS sem eru alþjóðleg skiptinemasamtök.
Hallarut skrifar:
24/07/2011 at 16:09 (UTC 0)
Það er aldrei komma á undan orðinu „sem“ 🙂
„En svo heyrðum við líka um slysið, sem tók líf fimm manns“
Eiður skrifar:
24/07/2011 at 14:53 (UTC 0)
Það er eins og Ríkisútvarpið sé munaðarleysingi í stjórnkerfinu. Stjórnlaus rekald á íslensku fjölmiðlahafi.
Stefán Böðvarsson skrifar:
24/07/2011 at 13:52 (UTC 0)
Sæll Eiður, ég er sammála öllu sem þú skrifar í þessum pistli og finnst tími til kominn að stjórnvöld fari að líta á það sem eitt af forgangsmálunum að ríkisfjölmiðlarnir sinni hlutverki sínu, bæði hvað varðar málfar og auglýsingastefnu. Þurfa fréttamenn/dagskrárgerðarfólk ekki lengur að að standast fréttamannapróf eða amk. lestrarpróf? Spyr sá sem ekki veit.
Eiður skrifar:
24/07/2011 at 12:03 (UTC 0)
Þakka ábendinguna, Hannes.
Hannes skrifar:
24/07/2011 at 11:52 (UTC 0)
Sæll Eiður
Ég hef tekið eftir því, að það vantar að þýða athugasemd/athugusemdir á þínum ágæta vef. Það stendur einfaldlega comment/comments. Ef engar athugasemdir hafa verið gerðar þá stendur réttilega ,,athugasemd“. Þar mætti ef til vill standa: ,,færa inn athugasemd“. Þetta er lítð verk fyrir ,,tölvukallinn þinn“.
Takk fyrir góð skrif.
Kv.
Hannes