«

»

Molar um málfar og miðla 666

Var Molaskrifari sá eini sem þótti það undarlegt og ósmekklegt, að Ríkisútvarpið skyldi  spila   lagið Óla lokbrá sem síðasta lag fyrir fréttir  laugardaginn 23. júlí?

Þeim Molalesendum, sem  senda  skrifara  athugasemdir  um málfar í fjölmiðlum fjölgar ört.  Hér fylgja  nokkur dæmi frá  22. júlí:

Elísabet sendi eftirfarandi: Sagt var í Speglinum (Ríkisútvarpið):
Osló er nú sú borg sem maður hélt að maður væri öruggur á. Það var og!

Aðalsteinn segir: Ég get ekki orða bundist vegna setningar sem ég heyrði á Bylgjunni nú rétt áðan.
Þar var, að ég held, verið að tala um Þjóðhátið í Vestmannaeyjum og setningin sem skar mig í eyru var að þar yrði Bubbi Morthens „í fararbroddi fylkingar“.
Hefur þú heyrt tekið svona til orðs áður?  –  Nei þetta orðalag  hefur  Molaskrifari ekki heyrt , ekki frekar en Aðalsteinn. Talað er um að vera í fararbroddi, eða að vera í broddi fylkingar. Enn eitt  dæmið um að fréttamenn kunna ekki að nota algeng íslensk ortök.

vfs sendi eftirfarandi:  Á Smartlandi Mörtu Maríu í dag (mbl.is 20.7.2011) er frétt sem ber yfirskriftina „Hrikalega kynþokkafull á baðfötum“. Er það ekki rétt að hér hefði forsetningin „í“ átt að koma í stað „á“?  Molaskrifari er sammála vfs, en  þetta getur þó staðist. Samanber að vera á brókinni .

Norðlendingurinn Gunnar sendi  eftirfarandi: Á RÚV1, 20.7. Gróðrarstöð heimsótt.Fréttamaður flytur inngangsorð:
„Gróðrar stöðin er stödd…”!  . Ekki var það gott !

Í  miðnæturfréttum Ríkisútvarpsins í gærkveldi var norska  sjónvarpsstöðin TV2  kölluð  tívítú upp á ensku! Hallærislegt. Að ekki sé  meira  sagt.

Hundruð ungmenna var í eyjunni, var sagt í tíufréttum Ríkisútvarpsins (22.07.2011). Það er ótrúlega algengt að heyra villur  af þessu tagi.

Í fréttum Stövar tvö (22.07.2011) var sagt frá  stórbruna í Hveragerði. Fréttamaður sagði  að  eldurinn hefði komið upp rétt   fyrir miðnætti í gærnótt. Molaskrifari beinir því  til fréttamanna Stöðvar  tvö að tala ekki við okkur  hlustendur á barnamáli. Þarna hefði  fréttamaður til dæmis getað sagt að  eldurinn hefði komið upp rétt fyrir  miðnættið í gærkveldi.

Í sama fréttatíma Stöðvar tvö var  talað um Indlandshaf og um það farið þessum orðum: .. þetta viðamikla haf ! Undarlegur  skortur á  tilfinningu  fyrir  móðurmálinu. Fréttamaður hefði til dæmis getað sagt: ..  þetta víðáttumikla haf.

Sumir fréttaþulir Stöðvar tvö  hafa þann  óþægilega kæk, að segja  okkur sem  sitjum í makindum heima að fara ekki langt , því nú sé komið að sportinu. Molaskrifari viðurkennir að hann lítur á þessi hallærislegu tilmæli sem  tillögu um að  skipta  yfir á aðra  stöð. Og gerir það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>