«

»

Molar um málfar og miðla 675

Laugardagskvöldið um verslunarmannahelgi (30.07.2011) voru tvær  af þremur   kvikmyndum kvöldsins í Ríkissjónvarpinu endursýnt efni. Þagað var um það þegar dagskrá kvöldsins var kynnt fyrir  fréttir. Það er  dónaskapur  gagnvart áhorfendum.

Magnús sendi eftirfarandi: ,,Í gærkvöldi (29.7.2011) var í sjónvarpsfréttum fjallað um verslunarmannahelgina og ferðir fólks vítt og breitt um landið og hvert best væri að halda í veðurfarslegu tilliti. Í því sambandi var sagt:
„Þetta árið er úr vöndu að velja …“
Hér er slegið saman tveimur skyldum og jafnvel keimlíkum orðtökum en samt er alveg ótækt að slá þeim saman, það kemur nú bara yfir mann eins og þruman úr sauðarlæknum sem þú líklega kannast við. En hér er hrært saman orðtökunum: Hér (Nú) er úr vöndu að ráða og Það er vandi að velja og útkoman verður  … úr vöndu að velja.”   Molaskrifari þakkar  sendinguna  og tímabæra ábendingu.

Úr dv.is (30.07.2011) : Farþegum höfðu þó ekki fengið upplýsingar um það hvers vegna vélin lenti í Kaupmannahöfn en ekki á Keflavíkurflugvelli …  Og: … Þeir farþegar sem DV hefur upplýsingar um höfðu ekki borist neinar upplýsingar rétt fyrir 19, en vélin lenti að íslenskum tíma rétt fyrir klukkan 16. Og: … Það eina sem það vissi voru upplýsingar sem það hafði fengið frá ættingjum sínum …   Eitthvað af þessu var þó lagfært síðar. 

Í fréttum Stöövar tvö (30.07.2011) var   talað um hundruðir skotvopna. Hefði átt að vera  hundruð skotvopna.  Algeng villa.  

Tíndu tjaldinu og gistu í fangaklefa, segir í fyrirsögn á mbl.is  (31.07.2011)  Grunnskólavilla. Týndu tjaldi, ætti þetta að vera. Var leiðrétt þegar kom fram á morguninn. Hinsvegar er víst stundum hægt að tína upp á tjöld á svæðum þar sem útihátíðir hafa farið fram.

Samkvæmt lögreglu, var á sínum stað í átta- og níufréttum Ríkisútvarpsins (31.07.2011). Því var hinsvegar sleppt í tíu fréttum,  góðu heilli. Einhver kominn til vinnu sem hefur leiðrétt fréttahandrit morgunsins. Samkvæmt  lögreglu  gekk því miður  aftur í hádegisfréttum.

Erum við  brúarendann, segir í útvarpsauglýsingu frá pylsusölu á Selfossi.

Líklega þorir auglýsandinn ekki að tala um brúarsporðinn ( sem  væri betra) af ótta  við að fólk almennt  skilji ekki um hvað er verið að tala.

 Það  var sjálfsögð og eðlileg fjárfesting hjá Knattspyrnusambandi Íslands að senda formann sinn til Brasilíu til að horfa á miða  dregna upp úr hatti,eins og komið hefur fram í fréttum. Einhvern veginn verður að koma Lottógróðanum í lóg.

Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins (31.07.2011) lýkur á þessum orðum:,,Það ættu flestir sæmilegir menn að geta fordæmt, harmað og fyrirlitið  voðaverkið í Noregi og fyllst samkennd og bróðurhug til Norðmanna án þess að hrökkva áður en varir niður á það lága pólitíska plan sem þeir halda sig á dagsdaglega”.  Er  bréfritari að beina orðum sínum til ritsóðanna, sjálfstæðismannanna sem stýra hægri öfgavefnum amx.is ? Sennilega ekki. Þeir ættu samt að taka þetta til sín.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sæll, Glúmur. Gallinn er sá að málið er ekki alltaf rökrétt. Svo er máltilfinning manna mismunandi. Hvorki er ég hæstiréttur né óskeikull í þessum efnum.

  2. glúmur baldvinsson skrifar:

    Ef við tínum ber af hverju þá ekki tjöld líka?
    Verður ekki að vera samræmi í því sem við segjum og ritum? Hver vaknar upp? Enginn. Maður vaknar.Maður getur á hinn bóginn risið úr rekkju. En menn geta vaknað án þess að rísa úr rekkju, ekki satt? Og maður hrekkur ekki upp heldur hrekkur hefði ég haldið. Þetta upp er sletta úr ensku.

    Bestu,

    Glúmur

  3. Eiður skrifar:

    Ekki er ég tilbúinn að kalla þetta enskuslettu, Glúmur. Við tínum ber. Ég braut skál,og tíndi upp brotin. Ég vaknaði upp við vondan draum. Við segjum líka: Ég var hálf sofandi en hrökk upp við hurðarskellinn. Þarna eru sjálfsaagt mörg álitamál. Þakka þér góð orð um pistlana.

  4. glúmur baldvinsson skrifar:

    Sæll Eiður,

    Gaman að lesa pistla þína um málfar. Að ofan segirðu mögulegt að tína upp tjöld. Nú er ég ekki viss, en væri ekki nær að tína tjöld. Við segjum oft að við vöknum upp til dæmis. Í stað þess að segja ég vaknaði. Er þetta „upp“ ekki bara enskusletta í raun? Wake up, pick up?

    Bkv.

    Glúmur

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>