Einu sinni þótti fínt að sletta dönsku á Íslandi. Nú er þykir fínt að sletta ensku.
Stöð tvö reynir að laða til sín áskrifendur með enskuslettum í auglýsingu í Fréttablaðinu (03.08.2011). Þar segir: Vild is ðe hól pojnt. Molaskrifara finnst þetta hvorki fyndið né smekklegt. Ef til vill skortir hann bæði kímnigáfu og tilfinningu fyrir því hvað sé smekklegt og hvað ósmekklegt. Molaskrifara finnast þessar enskuslettur umfram allt vera hallærislegar. Hann hvetur ráðamenn Stöðvar tvö til að nota móðurmálið til að laða til sín viðskiptavini, – ekki erlendar slettur.
Stundum fær Molaskrifari orð í eyra fyrir að vera of neikvæður í garð Ríkisútvarpsins. Víst er, að þar má að mörgu finna. Síðasta skemmdarverkið er að breyta nafni stofnunarinnar í skammstöfunina RÚV og kasta heitinu Ríkisútvarp fyrir róða. Þarna er auðvitað ekki við starfsfólk að sakast. Þetta er ákvörðun æðstu stjórnenda sem trúað hefur verið fyrir þessu fjöreggi íslenskrar menningar. Valdalaus stjórn stofnunarinnar hefur sennilega ekkert með málið að gera. Þrátt fyrir gagnrýni, sem stundum er sjálfsagt nokkuð hörð, má ekki gleyma því að Ríkisútvarpið, sér í lagi Rás eitt, flytur mikið af vönduðu úrvalsefni og hefur á að skipa hæfum dagskrárgerðarmönnum. Talsvert af þessu efni er endurflutt á nóttinni. Það var mikil breyting til batnaðar er sá háttur var upp tekinn í stað þess að flytja ókynnta tónlist í síbylju. Molaskrifari hlustar ekki mikið á útvarp yfir daginn en hlustar oft á Rás eitt á nóttinni. Heyrði þar til dæmis aðfararnótt miðvikudags (03.08.2011) prýðisgott viðtal við Guðmund Stefánsson, píanóstilli. Takk fyrir það. – Það gleður svo gamalt nöldurhjarta að fá tölvubréf frá ungu fjölmiðlafólki, sem þakkar það aðhald sem það segir Molana veita. Það er þá ekki talað fyrir alveg daufum eyrum.
Úr mbl.is (02.08.2011): Borgarstjóri Vilníusar, höfuðborgar Litháen, hefur gripið til þess ráðs að aka yfir bíla sem eru lagðir ólöglega á skriðdreka. Hér er talað um bíla ,sem lagðir séu ólöglega á skriðdreka. Eðlilega væri að tala um að aka skriðdreka yfir bíla sem lagt hefur verið ólöglega. Þar að auki er myndin sem birt er með fréttinni ekki af skriðdreka. Í dv.is er einnig talað um skriðdreka. Nær væri að tala um bryndreka.
Þáttur þeirra Egils Helgasonar og Örlygs Kristfinnssonar þar sem þeir gengu um götur á Siglufirði (02.07.2011) var fyrsta flokks sjónvarpsefni í alla staði. Þess var getið í prentaðri dagskrá í dagblöðunum að þátturinn væri endursýndur kafli úr Kiljunni. Þess var hinsvegar ekki getið þegar þátturinn var kynntur í sjónvarpinu, bæði fyrir fréttir og áður en sýning hans hófst. Það er ekkert að því að endursýna gott efni. Það er hinsvegar vafamál hvort endursýna á efni á besta tíma í kvölddagskrá og fráleitt að segja áhorfendum ekki að um endursýnt efni sé að ræða.
Dæmi um klaufalega þolmyndarnotkun var í fréttum Ríkissjónvarps (01.08.2011): Svo virðist sem fólkið hafi verið skilið eftir af þeim sem áttu að flytja þau (svo!) til Evrópu. Betra og skýrara hefði verð að segja: Svo virðist að þeir sem áttu að flytja fólkið til Evrópu hafi skilið það eftir. Germynd er alltaf betri.
Þessi frétt á visir.s er ekki vel skrifuð né heldur ber hún um vott um mjög skýra hugsun þess sem skrifar: http://www.visir.is/ruv-matti-afhenda-lista-um-umsaekjendur/article/2011110809861 Ristjórar visir.is athugi það.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Axel skrifar:
03/08/2011 at 23:43 (UTC 0)
Í auglýsingunni er um að ræða orðsendingu frá persónu úr Spaugstofunni – sjálfum Kristjáni „heiti ég“ Ólafssyni. Grínið í kringum hann gengur að stórum hluta út á það hvernig hann blandar ensku og íslensku saman – oft með tvíræðnum og klaufalegum hætti. Í það vísar auglýsingin, það er persónu í Spaugstofunni sem er gjarn á að sletta klaufalega. Þetta er að mínu mati engin móðgun eða tilræði við móðurmálið (frekar en persónan Kristján „heiti ég“ Ólafsson). Það er ekki verið að nota ensku til að laða fólk að stöð 2 heldur er verið að vinna með sjónvarpspersónuna Kristján og hans takta. Hvort fólki þykir þetta fyndið er svo spurning um smekk. Sjálfum finnst mér Spaugstofan hundleiðinleg og auglýsingin slöpp.