«

»

Molar um málfar og miðla 679

Óskandi væri að einhver gæti fengið stjórnendur Ríkissjónvarpsins  til að hætta að sýna okkur dellumyndir, sem eru sérhannaðar fyrir ameríska  táninga, á besta áhorfstíma á föstudagskvöldum.  Myndin sem sýnd var í kvöld (05.08.2011, College Road Trip) fær einkunnina 3,7  af 10,0  á Inernet Movie  Database!

Kolaportið auglýsir í fylgiriti Morgunblaðsins (04.08.2011): Komdu og  verslaðu allskyns  vörur, … Molaskrifari verslar  stundum í Kolaportinu. Kaupir  fiskmeti og fleira. Hann verslar aldrei vörur. Hann kaupir vörur. 

Heldur fer harðnandi slettu- og amböguhríðin í slúðurþáttum Ríkisútvarpsins af leikaraslóðum í Hollywood sem  þessi menningarstofnun telur  nauðsynlegt andlegt fóður  fyrir þjóðina á föstudagsmorgnum. Í morgun (05.08.2011) var  þar talað um að kaupa outfit  á eiginmanninn  (fatnað, – hann á svo einfaldan fatasmekk!),  bridal showers, baby  showers  (e.k. gjafaboð eða  veislur), skvísan hafi bara rakkað upp kreditkortareikning upp á ..  , gerði gott um betur. Upptalningin gæti verið   langtum lengri.  Umsjónarmaður talaði um ladies´man kvenhollan mann eða kvennagull og sagði við okkur:   Ég ,  bara blöskraði !

 Í slúðurpistlinum  sem vikið er að hér að ofan talaði höfundur um að  rugla saman  reytum í merkingunni að ganga í hjónaband, giftast.  Molaskrifari hugsaði með sér: Jæja, blessaðri konunni er þá  ekki  alls varnað. Gamanið kárnaði hinsvegar þegar konan  fór að  tala um  að reitirnir hjá þeim hefðu eitthvað farið að ruglast !  Reytur  eru litlar eða óverulegar eigur,en reitur, flt. reitir, er hinsvegar afmarkað svæði, kirkjugarður er helgur reitur,  reitur er líka einn  sextíu og fjögurra ferninga á skákborði.

Allt er þetta  auðvitað afar mikilvægur og ómissandi þáttur í svokallaðri málstefnu Ríkisútvarpsins og hinn mesti menningarauki.  

Arndís Vilhjálmsdóttir sendi eftirfarandi: ,,Síðastliðið þriðjudagskvöld sátum við hjónin og horfðum á sjónvarpið eins og svo oft áður.
Þar auglýsti dagskrárkynnirinn breskan sjónvarpsþátt um E-efni. Í kynningunni kom eftirfarandi fram:,,Í þáttunum athugar Gates hvort sú sé raunin og eins ætlar hann sér að bragða á sem flestum af E-efnunum 319 og hann mögulega getur“
Þetta má einnig sjá á vef RÚV: http://dagskra.ruv.is/nanar/11802/ auk nokkurra stafsetningavillna.
Manni finnst hart að borga 17 þúsund á ári fyrir ríkismiðil, sem hefur ekki meiri metnað en þetta!”    Molaskrifari þakkar sendinguna.

Alli sendi Molum eftirfarandi: ,,Í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag var talað um hlaup í Skaftá og sagt eitthvað á þá leið að hlaup í síðustu viku hafi komið úr VESTARI katlinum, en það hlaup sem nú vofir yfir komi úr EYSTRI katlinum.

Væri ekki réttara að tala annað hvort um VESTRI og EYSTRI eða VESTARI og AUSTARI? 

Ég man nú reyndar ekki eftir að hafa heyrt VESTRI notað um áttir, en það er til íþróttafélag með því nafni “.  Máltilfinning Molaskrifara er sú , að   tala  megi bæði um vestari og vestri  og eystri og austari. Líklega   ræður  staðbundinn málvenja  mestu um það  hvernig  þessi orð  eru notuð.

Þýskum börnum fækkar ört, er dálítið undarleg fyrirsögn á  fréttavef  Ríkisútvarpsins (05.08.2011). Ekki er þetta  rangt. Verið er að segja frá því að  hlutfall barna undir 18 ára aldri  af heildarfjölda íbúa í Þýskalandisé  nú um stundir lægra í Þýskalandi en nokkru öðru Evrópulandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>