Óvenjulega sprækur fréttatími í Ríkissjónvarpinu (08.08.2011). Fréttir sem ekki voru annarsstaðar. Óneitanlega sér maður atvikið í Blautulónum í dálítið öðru ljósi eftir þennan fréttatíma. Lokamyndin af sólarlagi við Gróttu var frábærlega falleg. Þar talaði þögnin.
Egill sendi eftirfarandi ábendingu: „Sagði hún að Blondeau hefði enga hugmynd um þá miklu úlfhúð sem væri vegna myndanna og vildi helst halda því þannig.“
Nú er úlfurinn kominn með húð í stað þess að tala um úlfúð,segir Egill. Þetta mun vera að síðu,sem er hjá mbl..is og ber enskt heiti Smartland. Þar er líka þetta (07.08.2011): 17:27 Þess var ekki lengi að bíða en Beckham frumsýndi í gær nýjasta tattúið sitt; nafn dótturinnar – Harper. Þess var ekki að lengi að bíða. Það var og.
Einnig benti Egill á aðra frétt í hádegisfréttum Ríkisútvarps (07.08.2011). Þar sagði frá bónda sem varð undir dráttarvél sem valt ofan í skurð. Þegar hann fannst var hann að sögn orðinn kaldur og þrekinn. Kaldur og þrekaður hefði verið aðeins betra! Í sömu frétt var einnig sagt að bróðir (eða bróður – ógreinilegt) hefði tekið að furða sig á því …. Ekki mjög vel orðað.
Í Bretlandi birta blöðin andlitsmyndir af fólki sem er að stela úr verslunum í óeirðunum í Tottenham. Á Íslandi afmáir Morgunblaðið bílnúmer náttúruníðinga sem aka utan vega. Það verður að vernda lögbrjótana. Það er fáránlegt.
Í fréttum Ríkisútvarps ( 07.08.2011) var sagt á Vík í Mýrdal. Molaskrifari hyggur að föst málvenja sé að segja í Vík í Mýrdal eins og gert var í Ríkissjónvarpinu.
Íslensku fákarnir sem við höfum séð á heimsmeistaramótinu í Graz í Austurrríki að undanförnu eru svo glæsilegir að arabískir gæðingar,sem svo eru kallaðir hverfa algjörlega í skuggann.
Stjórnlagaþingsfulltrúi sem rætt var við í sjónvarpsfréttum talaði um ,,kjördæmavarið landskjör”. Molaskrifari játar í fullri hreinskilni að hann hefur ekki hugmynd um hvað er átt við með þessum orðum.
Í frétt af umferðaróhappi um helgina var sagt að bíll hefði oltið heilan hring. Eðlilegra hefði verið að segja að bíllinn hefði oltið eða farið eina veltu, en hafnað á hjólunum.
Guðmundur Þór sendi eftirfarandi: ,,Vísir Spænski boltinn 07. ágúst 2011 13:30
Stefán Árni Pálsson skrifar:
Sagan endalausa um Fabregas virðist vera að ljúka
Sagan endalausa um vistaskipti Cesc Fabregas, leikmanns Arsenal, til Börsunga virðist vera á enda runninn…….Miðjumaðurinn Xavi sem leikur með spænsku meisturunum sagði í viðtali við RAC1 að Fabregas myndi ganga til liðs við Barcelona áður en ágúst mánuður rennur út.
„Okkur hlakkar til að fá Cesc til liðsins og það er útlit fyrir að það muni gerast á allra næstu vikum.
Ja hérna.” Molaskrifari tekur undir. Ja, hérna.
Skildu eftir svar