«

»

Molar um málfar og miðla 686

Molavin sendi eftirfarandi (11.08.2011): „Spenna fer nú að færast í dönsk stjórnmál, en alþingiskosningar eru fyrirhugaðar í haust.“  Upplýsa þarf blaðabörn um það að hvert hinna norrænu þjóðþinga ber sitt eigið nafn. Alþingi er á Íslandi en Folketinget í Danmörku, Stortinget í Noregi og Riksdagen í Svíþjóð. Alþingiskosningar fara því aðeins fram á Íslandi. Trúlegt er að hinir reyndari blaðamenn Morgunblaðsins viti af þessu. Molaskrifari þakkar sendinguna og réttmæta ábendingu.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (11.08.2011) var sagt frá því að Paul Watson hefði hvergi fengið  húsnæði til fundarhalda í Þórshöfn í Færeyjum. Hann hefði  reynt að fá húsnæði í Götu, en gekk þaðan bónleiður til búðar, eins  og sagt var. Rétt hefði verið að segja , að í Götu hefði hann farið bónleiður til búðar. Á fréttavef  er Ríkisútvarpsins er þessi frétt kynnt  með orðunum:  Watson er hvergi boðið. Hvergi boðið hvað?  Hann fékk hvergi húsnæði.

 

 Úr mbl.is (11.08.2011): Innanríkisráðherra Ísraels hefur heimilað byggingu 1.600 nýrra heimila fyrir landtökumenn í austurhluta Jerúsalemborgar. Hér hefur  fréttaskrifari líklega þýtt úr ensku, þar sem hefur verið talað um  1600 homes. Í þessu tilviki hefði  auðvitað átt að tala um  hús  eða íbúðir. Ráðherrar heimila ekki byggingu heimila. Fólk stofnar heimili. Það byggir ekki heimili.  En Morgunblaðið situr við sinn keip og heldur áfram. Í mbl.is  segir (12.08.2011): … segist harma mjög þá ákvörðun ísraelska innanríkisráðuneytisins að heimila byggingu 1.600 nýrra landtökuheimila í Austur-Jerúsalem. Það er ekki að spyrja  að sumarliðum Moggans. Þeir slá ekki slöku við. Heimila byggingu  landtökuheimila!

 

 Einhver undarlegasta og óskiljanlegasta frétt,sem Molaskrifari lengi hefur heyrt var  í Ríkisjónvarpi (11.08.2011) er rætt var við  bókmenntafræðing um eitthvað sem  fræðingurinn kallaði sæborgir.  Molaskrifari  hlustaði  aftur á fréttina á  vef  Ríkisútvarpsins og var jafnnær.  Líklega var verið að gera grín að okkur því þetta hljómaði  um margt eins og hvert annað bull.

  Guðmundur Þór  sendi svohljóðandi skýringu: ,,Sérkennilegt að heyra hljóðlíkinguna „sæborg“ sem þýðingu á enska orðinu „cyborg“ (cybernetic organism, þ.e. samspil manns og tækni) í viðtali við Úlfhildi Dagsdóttur í fréttunum í kvöld, sæborgir í íslenskri menningu. Sæborg virðist í fyrstu vera gegnsætt, samsett íslenskt orð, borg í eða við sjó en cyborg hefur flókna merkingu, til dæmis getur það verið notað um tvímenni eða mann sem í eru settir tæknihlutir eða mann (lífveru eða samfélag lífvera) sem notar tækni til þess að bæta líðan eða hæfni viðkomandi.”

  Kærar þakkir  Guðmundur Þór. Þetta skýrir hluta af því sem ég  vogaði mér að kalla  rugl. Ég er   næsta viss um að meginhluti þjóðarinnar vissi ekkert um hvað verið var að ræða.  

 

Er að … var að …   hefur verið að …    Smitandi sótt. Úr mbl.is (09.08.2011): Fimm síðustu nætur hefur verið að mælast næturfrost sums staðar á hálendinu og eins á stöku stað í byggð.  Hversvegna  ekki:  Undanfarnar fimm nætur hefur  verið næturfrost  sums staðar á hálendinu …

 

Egill sendi Molum eftirfarandi (09.08.2011) : Andri Freyr Viðarsson á Rás 2: „Ég er með fætur, þær eru til að standa á!“ Guðrún Dís: „Það þarf að finna

sport fyrir þá sem vilja ekki festast í hinum sportunum.“ Andri: „Þau fáu skipti sem þú sérð sjálfan þig í spegil.“ Þá skipti ég um útvarpsstöð! – Molaskrifari hefði sennilega gert það líka.

 

 Guðmundur Þór segir: ,,Ekki veit ég hvaða vinnureglur gilda hjá góðum fréttamönnum þegar viðmælandinn fipast eða mismælir sig. Á að stoppa og byrja aftur eða láta eins og ekkert hafi í skorist? Útkoman getur þá stundum orðið nokkuð spaugileg, eins og þegar Þráinn Bertelsson sagði í fréttum sjónvarps 9. ágúst; „…útskrifa endalausa nemendur…“ þegar hann var að tala um Kvikmyndaskóla Íslands, eða þegar Björk Vilhelmsdóttir sagði í kvöld að svæði hefði verið „…upphaflega skipulagt til byggingar eldri íbúða“, þegar hún átti augljóslega við nýjar íbúðir fyrir eldri borgara.”

 Ef fréttamaður heyrir  að viðmælandi  mismælir sig á hann auðvitað að  stöðva upptökuna og  benda   viðkomandi á  misfelluna og  byrja síðan aftur. Það er  bara almenn kurteisi. Hinsvegar  er ekki víst að  fréttamaðurinn  hafi heyrt mismælið. Ótrúlega oft  tekur maður eftir því að fréttamaðurinn hlustar ekki á viðmælanda sinn vegna þess að hann er svo niðursokkinn í að  semja næstu spurningu. Þessvegna heyrir maður stundum spurt um það sem  þegar er komið fram. Það er  dálítil kúnst að  hlusta grannt og   hafa líka  næstu spurningu   á takteinum.

 

Egill sendi eftirfarandi (11.08.2011) undir fyrirsögninni: Sumarliði á visir.is: „Hann endaði með báðar fætur ofan í hverinum. Hann hlaut fyrsta og annan stigs bruna á báðum fótum og upp á kvið. “ ,,Drottinn minn dýri! Hann spyr: Eru engin takmörk fyrir því sem okkur er boðið upp á?”   Greinilega  ekki.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>