«

»

Molar um málfar og miðla 687

Það er algengt að sjá auglýst verð á  jarðaberjum í verslunum. Ætti að vera;  verð á jarðarberjum. Meira  að segja á umbúðum utan um ís  frá  Krónunni stendur að ísinn sé með jarðaberjabragði.

 

Úr tíufréttum Ríkissjónvarps (11.08.2011):Lífeyrissjóðurinn lánaði bæjaryfirvöldum í Kópavogi hundruð milljónir króna á haustmánuðum 2008.  Máltilfinning Molaskrifara segir honum að hér hefði átt að segja… hundruð milljóna króna, – ekki  hundruð milljónir. Í sama fréttatíma sagði íþróttafréttamaður: Eftir mikið klass inn á miðju svæðinu …. ???

 

Molavin sendi eftirfarandi (12.08.2011): Vefsíðan eyjan.is segir í frétt um fjárlagagerð: „Eiga þær aðgerðir að afla 28 milljörðum króna.“ Hér þýðir sögnin *að afla* það *að útvega“. Að útvega einhverjum eitthvað. Að afla ríkissjóði 28 milljarða króna. Eyjan tekur þessa frétt upp úr Fréttablaðinu, en þar er farið rétt með og fréttin óaðfinnanlega skrifuð. Hér er því enn eitt dæmi um það að ráðið er til ritstarfa fólk, sem kann ekki beitingu móðurmálsins og er ef til vill haldið þágufallssýki. – Þakka sendinguna.

 

Frá Guðmundi Þór (12.08.2011): ,,Alltaf leiðinlegt að sjá tvöfalt efstastig; hæst launaðasti! Vonandi kann þó Kamerúninn að skrifa.
Vísir Fótbolti 11. ágúst 2011 19:00
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar:
Samuel Eto’o hefur samkvæmt fréttum frá Rússlandi samþykkt tilboð rússneska liðsins Anzhi Makhachkal sem mun kaupa Kamerúnan (hér vantar n) á 40 milljónir evra frá ítalska liðinu Inter Milan.
….
Hann verður því væntanlega hæst launaðasti knattspyrnumaður heims eftir að hann krotar nafn sitt á samninginn.

 

Tilfellin eru á öllum aldri,  sagði fréttamaður í tíufréttum Ríkisútvarpsins (12.08.2011) Það var og. Tilfelli á öllum aldri !

 

Í morgunfréttum  Ríkisútvarps (12.0.2011) var talað um skortsölu á hlutabréfamarkaði. Svo var skýrt í fáum setningum hvað skortsala er. Sama var gert í fréttum Bylgjunnar. Þetta er til fyrirmyndar.  Ekki eins og þegar í  fréttum Ríkissjónvarps kvöldið áður  var fjölyrt um eitthvað sem kallað var ,,sæborgir” og Molaskrifari botnaði ekkert í því um hvað var verið að tala. Líklega ekki sá eini. Viðtalið og fréttin eiginlega bull frá upphafi til  enda. Það er rannsóknar efni hvernig  svona lagað ratar alla leið á skjáinn.

 

Doddi sendi eftirfarandi: ,,-Bresk stjórnvöld íhuga nú hvort þau eigi að loka samskiptasíðum líkt og Twitter og Facebook á meðan að óeirðum stendur á Englandi.-
Já, á meðan að óeirðum stendur, er skrifað. Hér á að vera á í stað að.
Þakka góðar ábendingar, Eiður. Það veitir ekki af.” Molaskrifari þakkar sendinguna , – og hvatninguna.  

 

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. gunnar skrifar:

    Sæll Eiður

    Mín máltilfinning segir, að hvorki sé rétt að segja: „meðan að óeirðum stendur“ né „meðan á óeirðu stendur“, heldur skuli segja: „meðan óeirðir eru“.
    Á-ið er þó vissulega mun skárra en að-ið.
    Gunnar

  2. Ómar skrifar:

    ,,-Bresk stjórnvöld íhuga nú hvort þau eigi að loka samskiptasíðum líkt og Twitter og Facebook á meðan að óeirðum stendur á Englandi.-“

    Betra væri að segja „samskiptasíðum á borð við Twitter og Facebook“.

    „líkt og“ gefur til kynna að Twitter og Facebook hafi lokað samskiptasíðum og bresk stjórnvöld ætli að gera slíkt hið sama.

  3. Eiður skrifar:

    Þetta hef ég aldrei heyrt.

  4. Tomas skrifar:

    íþróttamenn nota orðið „klafs“ fyrir þvögu eða mikla baráttu um bolta. Hvaðan það orð kemur veit ég ekki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>