Bjarki M. Karlsson, fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins sendi Molaskrifara svohljóðandi bréf:
Sæll Eiður,
Ég vil gjarna bóka andmæli við það sem þú segir ranga málnotkun í útvarpsfrétt minni sem þú gagnrýnir í pistli þínum númer 686.
Þú segir:
„Í fréttum Ríkisútvarps (11.08.2011) var sagt frá því að Paul Watson hefði hvergi fengið húsnæði til fundarhalda í Þórshöfn í Færeyjum. Hann hefði reynt að fá húsnæði í Götu, en gekk þaðan bónleiður til búðar, eins og sagt var. Rétt hefði verið að segja , að í Götu hefði hann farið bónleiður til búðar.“
Nú vitna ég í 92. þátt Jóns G. Friðjónssonar um íslenskt mál (Mbl. 16. desember 2006):
„Orðatiltækið fara bónleiður til búðar ‘fara erindisleysu, hafa ekki erindi sem erfiði’ á rætur í Njáls sögu og vísar til þess er Njálssynir hugðust afla sér fylgis á Alþingi. Þegar Þorkell hákur hafði synjað þeim um liðsinni sneru þeir til búðar sinnar, bónleiðir að mati Skarphéðins. Orðatiltækið er algengt í nútímamáli en eitthvað hefur það bjagast í eftirfarandi dæmi: Jón Gerald fór bónleiður til búða íslenskra fjölmiðla með harm sinn ‘fór erindisleysu (til íslenskra fjölmiðla)’ “
Hér verða menn að athuga að orðatiltækið er „bónleiður til búðar“. Þetta er ekki málsháttur, ekki heil, óbreytanleg setning. Það sem skiptir máli er að skilja það sem sagt er, hvað það er að vera bónleiður og að hinn bónleiði fari til sinnar eigin búðar. Hvort hann fer þangað, gengur þangað, flýgur eða skríður – þar skiptir ekki máli.
Til að setja þetta í víðara samhengi getum við skoðað önnur orðatiltæki, svo sem að eitthvað falli í grýtta jörð. Þetta er biblíumál, úr sögunni um sáðmanninn. Sumt sæðið féll í grýtta jörð. Er þá rangt að tala um að eitthvað annað en sæði falli í grýtta jörð þó að þannig sé til orða tekið? Auðvitað ekki.
Fyrirsögn fréttarinnar á vefnum (Watson er hvergi boðið) stendur betur til höggins (flestir hefðu sagt ‘liggur betur við höggi’, en þannig orðaði Þorgeir það ekki þegar hann hjó vinnumanninn á Hvassafelli). Hún kallast á við titil feikivinsæls dægurlags frá árinu 2001 sem margir þekkja vel en aðrir vitanlega ekki. „Watson er hvergi velkominn“ hefði vísast verið betra, en rangt var þetta nú varla.”
Molaskrifari þakkar Bjarka þetta ágæta bréf.
Þetta er eiginlega skák og mát ! Ekki hvarflar það að Molaskrifara að deila við þá Jón G. Friðjónsson og Bjarka.
Úr mbl.is (13.08.2011) Forsetakosningarnar eru farnar að gera vart við sig í Bandaríkjunum,… Það var og.
Egill sendi þetta: ,,Fréttamaðurinn, ekki íþróttafréttamaðurinn, sagði í kynningu á íþróttafréttum í hádeginu (12.08.2011) : „… og kylfingurinn, Tiger Woods, gekk afleitlega …“
Er þetta ekki dæmigert?” Kannski ekki dæmigert, en afar algengt.
Þórhallur Pálsson birti eftirfarandi vísukorn á fésbókinni. Molaskrifari leyfir sér að taka kveðskapinn traustataki:
Kaupmenn mjólka kúnna,
karlar smíða brúnna,
fáir gleðja frúnna,
enn færri iðka trúnna.
Guðmundur Albertsson sagði í athugasemd að þetta gæti verið beint úr Ríkisútvarpinu. Því miður er nokkuð til í því.
Skildu eftir svar