«

»

Molar um málfar og miðla 689

Sumarliði að störfum á visir (14.08.2011): Slit varð á ljósleiðara Mílu á Vesturlandi um kl. 10.30 í morgun, við Haffjarðará, milli Haukatungu og Söðulsholt.  Viðgerðamenn eru komnir á staðinn til viðgerða, segir í tilkynningu frá Mílu.  Slit varð á ljósleiðara! Ljósleiðari slitnaði, fór í sundur. Milli Haukatungu og  Söðulsholts. Viðgerðarmenn eru komnir á staðinn. Þetta er snilld.

 

Í kynningu  á dagskrá Ríkisútvarpsins (14.08.2011) var sagt að hlustendur  fengju að heyra í karlakórnum Þresti. Molaskrifari telur sig  vita  með vissu, að  karlakórinn heitir Þrestir og er til heimilis í Hafnarfirði. Hlustendur áttu því  von á að heyra í  karlakórnum Þröstum.

Sending frá Guðmundi Þór (14.08.2011): ,,Vísir Innlent 13. ágúst 2011 15:09
Makríll spókaði sig í þúsundatali rétt við Sjávarmálið við Sæbrautina í dag og nýttu margir tækifærið og tóku upp veiðistöngina. Heyrst hefur um svipaðar torfur víða um land undanfarna daga. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjasviðs Hafrannsóknarstofnunar, sagði í fréttum Stöðvar 2 í fyrra dag að makríllinn fari upp á mjög grunnt vatn og leitar að fæðu. (Fari og leiti að einhverju.)  
Fréttir sjónvarps: Talað um heysátur á Hlemmi,  myndirnar sýndu heybagga sem búið var að raða upp, ekki sá ég neinar sátur.
Úr fréttum um ástardaga: „Þeir sem eignast börn eftir 9 mánuði er veitt verðlaun“. (Þeim eru veitt verðlaun!)”   Molaskrifari þakkar sendinga.

 

Úr mbl.is (14.08.2011): Eldur kviknaði í álverinu í Straumsvík fyrir stundu. Eldurinn blossaði upp í tæki eftir því sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu best veit.  Og ekki eru lesendur miklu nær eftir að hafa lesið þetta.  Meira úr mbl.is  sama dag. Bíl var ekið á staur í Hveragerði um sjöleytið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi urðu engin slys á fólki.   Frétt? Ekki frétt.

 

Velunnari Mola sendir  eftirfarandi klausu: Ungir blaðamenn finna upp á ýmsu þegar þá vantar orð. Ég sendi þér merkilega frétt úr DV í dag:.   

 

Fréttir | 15. ágúst 2011 | 11:07:53  Stokkandarkerlingin aflífuð Fuglinn sem hrapaði í þak Stóru-Vogaskóla í miðri flugeldasýningu á fjölskyldudeginum í Vogum á laugardagskvöld reyndist vera stokkandarkerling en ekki æðarkolla, eins og greint var frá í fyrstu frétt af atburðinum.”    Eins gott að þetta var ekki  –  ,,æðarkollukelling”.    Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

 

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Ragnar Þorvarðarson skrifar:

    Góðan dag – Ég var að velta því fyrir mér afhverju þú skrifar hér að ofan „Úr mbl.is“ eins og um væri að ræða blaðið mbl.is. Væri ekki nærri lagi að skrifa „Af mbl.is“ í ljósi þess að þetta er af vefsíðunni mbl.is?

  2. Sigtryggur skrifar:

    Hvaðan kemur þessi hvimleiða þráhyggja að nota nafnorð þegar það er mun eðlilegra að nota sagnorð? Viðgerðarmenn komu til AÐGERA VIÐ.
    Svo hélt ég að viðgerðarmenn gerðu yfirleitt við; óþarfa tvítekning þar á ferð.

  3. Eiður skrifar:

    Þetta er auðvitað hárrétt athugað, Sigurður Hreiðar, sem þín var von og vísa. Þarna átti að standa að störfum á visir,is Hef haft fyrir s’ð að beygja ekki heiti netmiðlanna eyjan.is, visir.is, pressan.is. En það er auðvitað umdeilt. Ég held þessu eitthvað áfram – veit ekki hve lengi ég nenni, en meðan sá dagur ekki líður að mér sé ekki þakkað þetta pár, þá er ég vís til að halda þessu áfram.

  4. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Átti ekki fyrsta línan að segja „Sumarliði að störfum á vísi“ (ekki vísir)?

    að spóka sig þýðir að ganga eða rölta bísperrtur. Varla nothæft um makríl.

    Annars dáist ég að þér fyrir að nenna að eltast við þetta allt. Gott að það skuli vera gert.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>