«

»

Molar um málfar og miðla 707

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra brást hart við árás Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands á ríkisstjórnina í fréttum Stöðvar tvö (05.09.2011). Viðbrögð Össurar fóru hinsvegar alveg framhjá fréttastofu ríkisins í Efstaleiti, sem í sínum fréttatíma seinna um kvöldið endurtók ummæli Ólafs Ragnars frá því um helgina. Fréttin snerist annars mest um viðbrögð formanns Sjálfstæðisflokksins, sem jafnan eru fréttastofu ríkisins hugleikin. Þess var og getið að fjármálaráðherra vildi ekki munnhöggvast opinberlega við forsetann. Í tíufréttum Ríkissjónvarps hafði ríkiasfréttastofan enn ekki haft neinar spurnir af ummælum Össurar eða taldi þau ekki fréttnæm.

Enn einu sinni fær fréttatíminn í Ríkissjónvarpinu að fjúka fyrir fótbolta. Í dagskrárkynningu (05.09.2011) var sagt að fótboltaleikurinn hæfist strax að loknum fréttum. Það var hinsvegar ekki sagt að fréttirnar væru klukkan sex en ekki klukkan sjö eins og venjulega. Ekki góð vinnubrögð.

Fyrr á þessu ári samþykkti Alþingi fjölmiðlalög. Þar segir: ,,28. gr.
Vernd barna gegn skaðlegu efni. Fjölmiðlaveitu sem miðlar hljóð- og myndefni er óheimilt að miðla efni, þar á meðal hljóð- og myndsendingum í viðskiptaskyni, sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi.
Frá bannákvæði 1. mgr. má gera eftirfarandi undantekningar:
a. Eftir kl. 21 á kvöldin virka daga og eftir kl. 22 á kvöldin um helgar og til kl. 5 á morgnana er heimilt að miðla efni í línulegri dagskrá sem ekki er talið við hæfi barna að því tilskildu að á undan því sé birt skýr viðvörun og það sé auðkennt með sjónrænu merki, þegar um miðlun myndefnis er að ræða, allan þann tíma sem efninu er miðlað.”
Klukkan 2045 sunnudaginn 4. september var þátturinn Lífverðirnir á dagskrá Ríkissjónvarpsins. Myndin var bönnuð börnum. Klukkan 2145 var á dagskrá mynd um Baader Meinhof. Í henni voru líka atriði sem ekki voru sögð við hæfi barna. Er það ekki skýrt brot á brot á fjölmiðlalögum að sýna efni sem er bannað börnum á þessum tíma ? Hvar er nú Fjölmiðlanefnd ? Það á ekki að líða stjórnendum Ríkisútvarpsins að brjóta lög. Hvorki varðandi linnulausar áfengisauglýsingar né sýningar á efni sem er bannað börnum á tímum sem slíkt efni má ekki vera á dagskrá.

Egill sendi þetta (033.09.2011):,, Í föstudagsmogga skrifar Arnar Eggert Thoroddsen á bls. 41: „Norska sveitin Jitney er leidd af hinum alíslenska Ara Sæberg Þorsteinssyni – Spila á fjórum tónleikum á Íslandi“. Byrja þeir á að spila á einum tónleik? Auðvitað á að segja og skrifa „á fernum tónleikum“. Einnig færi betur á að skrifa: „Spilar á fernum tónleikum …“, því á undan er skrifað: „Norska sveitin Jitney …“ og hún, (hljómsveitin,) spilar á tónleikum.”

Það var ágætlega að orði komist í Morgunblaðinu (05.09.2011) þegar sagt var að komnar væru vöflur (frb. vöbblur) á stuðningsmenn Obama. Þeir væru hikandi, vissu vart hvað til bragðs skyldi taka.

Af vef Ríkisútvarpsins (05.09.2011): Hann las sig til í danskri verkfærðibók sem honum áskotnaðist… Molaskrifari minnist þess ekki að hafa heyrt talað um að lesa sig til, kynna sér eitthvað með því að lesa um það. Talað er um að lesa sér til, að því er Molaskrifari veit best.

Á pressan.is var um helgina sagt frá æviminningum sem kanslari Bretlands hefði ritað. Bókarhöfundur er Alistair Darling fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands. Starfsheiti breska fjármálaráðherrans eins og margir vita Chancellor of the Exchequer, oft stytt í the Chancellor. Þetta var leiðrétt síðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>