«

»

Molar um málfar og miðla 708

Í fréttum Stöðvar tvö (05.09.2011) var sagt að lögregla hefði ekki getað sinnt tilteknu máli vegna fáliðunar. Betra hefði verið: Lögreglan var svo fáliðuð að hún gat ekki sinnt málinu.

Egill sendi (05.09.2011): Á dv.is stendur: „Tilkynnt var um ungbarn sem skilið hafði verið eftir bundið í bílstól í bifreið utan við veitingahúsið Ránna í Reykjanesbæ í gær.“ Líklega er átt við veitingastaðinn Rána. (Ráin, rána, ránni, rárinnar/ráarinnar).

Þegar rætt var við formann félags leikskólakennara í fréttum Ríkisútvarps (05.09.2011) um slysagildrur í eða við leikskóla nefndi hann fyrst að þessar slysagildrur hefðu í för með sér ,,aukið álag fyrir starfsfólkið”, en nefndi svo öryggi barnanna. Molaskrifari er á því að öryggi barnanna hefði átt að vera í fyrsta sæti. Sá hinn sami sagði að það væri bagalegt ef rekstraraðilar gætu ekki sinnt alvarlegum athugasemdum. Ekki bagalegt (óþægilegt) heldur grafalvarlegt.
Í sama fréttatíma Ríkisútvarpsins var sagt: Fulltrúi líbíska þjóðarráðsins segir uppreisnarmennina fljótlega hafa lokið hlutverki sínu í Líbíu. Ekki er Molaskrifari sáttur við notkun orðsins fljótlega í þessu samhengi. Hér hefði til dæmis mátt segja … senn hafa lokið hlutverki sínu …

Elín benti á eftirfarandi (05.09.2011): ,,Í morgun á rás 1 var sagt að á bænum hafi verið ,,pínulítið af hestum“. Í þætti kl.13 var síendurtekið
að um hafi verið að ræða ,,hundruðir“ af hinu og þessu. Afar algengt er að heyra í fjölmiðlum talað um hundruðir þegar segja lætti hundruð. Að tala um pínulítið af hestum er barnamál.

Eftirfarandi er af dv.is (05.09.2011) og er hreint með ólíkndum illa skrifað: Hinn 31 ára Robert Rippingale lést í dag eftir að hafa kafnað á mat í flugvél Jetstar flugfélagsins. Kærasta hans Vanessa Preechakul sagði fréttastofunni Daily Mail frá því hvernig hún sá kærasta sinn kafna á meðan hann borðaði kjötmáltíð. „Við vorum sitjandi við hliðina á hvoru öðru að kyssast og haldast í hendur. Allt í einu var hann að kafna,“ segir Preechakul, 27 ára arkitekt. Ótrúlegt subbuverk.

Hversvegna talar Ríkisútvarpið um feisbúkk þegar flestir tala um fésbók eða fasbók? Er það málstefnan ?

Egill sendi eftirfarandi: ,,Mikið er óviðkunnanlegt að heyra útvarpsmenn tala um „óttóber“. Þetta tröllreið Popplandi í Ríkisútvarpinu nú í dag, þriðjudagseftirmiðdag (06.09.2011) , bæði í auglýsingum og spjalli við tónlistarmenn. Tónlistarmaðurinn sagði: „Október“, en útvarpsmaðurinn: „Óttóber“.”

Úr dv.is (06.09.2011): Lögreglan á Akranesi segir fulla ástæðu til að brýna fyrir börnum að þau eigi að reiða hjól sín yfir gangbrautir. Hér ætti að standa : … leiða hjól sín. Þetta er hin þarfasta ábending frá lögreglunni á Akranesi. Ótrúlega margir hjólreiðamenn standa í þeirri trú að þeir séu í fullum rétti þegar þeir hjóla yfir gangbrautir þvert í veg fyrir umferð. Þeir eiga ekki réttinn nema þeir leiði eða teymi hjólin. Þá eru þeir gangandi vegfarendur. Annars ekki.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Fésbók?

  2. Þorsteinn Úlfar Björnsson skrifar:

    Fasbók finnst mér vera orðskrípi þegar talað er um Facebook. Þótt fólk fjalli þar um sitt og hvað í lífi sínu er líklega lítið fjallað um fas.

    Snjáldurskinna, sem hægt væri að stytta snjáldru eða skinnu, finnst mér miklu betra orð.

  3. Eiður skrifar:

    Fasbók er fínt orð. Engu að síður hef ég heyrt útvarpsmenn tala um ,,feisbúkk“.

  4. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Ég heyri orðið Fasbók oft notað í Ríkisútvarpinu, líklega oftar en ekki. Mér skilst ennfremur að höfundur orðsins Fasbók sé Ásgrímur Angantýsson, málfarsráðunautur RÚV.

    Með kveðju
    Bergsteinn

  5. Eiður skrifar:

    Nei, Emil Ragnar. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að sigla ,,um strendur landsins“. Það er bara bull.

  6. Emil Ragnar Hjartarson skrifar:

    Í fréttum Stöðvar 2 þriðjudagskvöldið 6.sept var skýrt frá áætlunum Kínverjans sem langar til að kaupa Grímsstaði. Hann hyggst láta skip eiga heimahöfn á Akureyri og sigla þaðan með ferðamenn. Fjórum sinnum var sagt að skipið ætti að sigla „um strendur landsins“

    Er það hægt ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>