Hversvegna lætur Fjölmiðlanefnd það viðgangast að Ríkisútvarpið brjóti nýsett fjölmiðlalög? Í gærkveldi (11.09.2011) sýndi Ríkissjónvarpið Lífverðina klukkan 2045. Myndin er bönnuð börnum. Skv. 28. grein fjölmiðlalaga má ekki um helgar sýna efni sem er bannað börnum fyrr en eftir klukkan 2200. Er Ríkisútvarpið hafið yfir fjölmiðlalögin? Þurfa stjórnendur Ríkisútvarpsins ekki að fara að lögum? Er þetta bara dæmi um landlægt virðingarleysi fyrir lögum og reglum sem svo víða fær að líðast á Íslandi? Hvar er nú umboðsmaður barna? Hvar eru þeir sem eiga að vernda börnin okkar ?
Í fréttum Ríkisútvarpsins á miðnætti (10.09.2011) var frá því greint að þyrla hefði sótt veikan sjómann um borð í togara undan Austurlandi. Þyrlan flutti sjómanninn til Egilsstaða, en svo sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins: … en þaðan var ,honum flogið áfram til Reykjavíkur. Var manninum flogið? Bull er þetta. Það var flogið með manninn eins og réttilega var sagt í tíufréttum Ríkisútvarpsins þetta sama kvöld. Það voru engar ambögur í fréttinni klukkan tíu. Sá sem skrifaði þá frétt fær plús. Sá sem breytti henni á miðnætti fær mínus.
Visir.is skrifar (09.09.2011): Lokun tveggja rótgróinna veitingastaða í miðborg Reykjavíkur, La Primavera og Domo, benda ekki til þess að veitingastöðum hafi fjölgað um of. Hér ætti að standa: Lokun tveggja rótgróinna veitingastaða … bendir ekki til …
Það er rannsóknarefni fyrir málfræðinga og hljóðfræðinga að finna hvaðan kemur sú einkennilega árátta eða kækur hjá íþróttafréttamanni Ríkisútvarpsins og fréttamanni Stöðvar tvö að enda setningar á uppskrúfaðri nótu. Þessi kækur er hvimleiður og fjarlægur eðlilegu íslensku talmáli. Á þessu hlýtur að vera skýring og vonandi lækning. Þetta var óþægilega áberandi í íþróttafréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (11.09.2011).
Fréttaþulur Stöðvar tvö (09.09.2011) Gerði vel því að kynna sér vel beygingu orðsins dóttir. Það beygist: dóttir, dóttur, dóttur, dóttur. Það var þolfallið sem vafðist fyrir fréttaþulnum.
…hóf leigu á húsnæðinu fyrsta september, sagði fréttamaður í fréttum Stöðvar tvö (09.09.2011). Tók húsnæðið á leigu fyrsta september hefði verið betra.
Það var ágætt hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins (09.09.2011) að segja frá því að íslenskir bankar og lífeyrissjóðir hafi tapað milljörðum á Latabæjarævintýrinu. Kvöldið áður var nefnilega sagt frá sölunni á Latabæ til Turner fjölmiðlarisans eins og um meiriháttar viðskiptasigur væri að ræða. Það var nú aldeilis eitthvað annað.
Eins og Rúv hefur áður greint frá sagði fréttamaður í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (09.09.2011). Það er ekkert til sem heitir Rúv. Skammstöfunin er hugarfóstur stjórnenda Ríkisútvarpsins sem ekki virðast geta hugsað þá hugsun til enda að þeir vinni fyrir stofnun sem heitir Ríkisútvarpið. Reyndar bauð Sigurlaug Margrét Jónasdóttir hlustendum Ríkisútvarpsins góðan dag klukkan 06 40 í morgun (12.09.2011). Líklega fær hún áminningu fyrir að nota orðið Ríkisútvarp. Verður kölluð á teppið, eins og stundum er sagt eða tekin á beinið.
Í auglýsingu (08.09.2011) í Ríkisútvarpinu frá konu sem segist tala fyrir hönd allra mæðra á Íslandi segir: Nú er lag til leiðréttinga til handa barnanna okkar sem þeim ber. Hér hefði farið betur á því að segja;: … til handa börnum okkar. Það er ekki verið að tala um hendur barnanna okkar. Það virðist aldrei hvarfla að starfsmönnum auglýsingadeildar Ríkisútvarpsins að leiðrétta málvillur í auglýsingum. Líklega þarf sérstakan málfarsráðunaut á auglýsingadeildina.
Úr dv.is (09.09.2011): Bíllinn er af gerðinni Toyota Corolla og er hvít. Bíllinn er ekki hvít, heldur er hann hvítur. Bifreiðin er hvít.
Skildu eftir svar