«

»

Molar um málfar og miðla 713

Um leið og skipmyndateiknari er laminn fittar það inn í fyrirframgefinn ramma. Þetta er undirfyrirsögn á dv.is (11.09.2011). Sá sem samdi þessa fyrirsögn kann ekki íslensku. Hann ætti ekki að vinna á íslenskum fjölmiðli.

Fjármögnuðu kosningabaráttur, segir í fyrirsögn á mbl.is (11.09.2011). Á vef Árnastofnunar sem heitir Beygingarlýsing íslensks nútímamáls er orðið barátta ekki til í fleirölu. Það er örugglega í samræmi við málkennd flestra.

Tvisvar tekinn af lögreglu í nótt, segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (11.09.2011). Þegar þetta er lesið vaknar sú grunsemd að ofbeldismenn hafi veist að lögreglunni og tekið einhvern af henni með valdi. Svo er reyndar ekki. Þetta er bara dæmi um aulaþolmynd, sem Molaskrifari leyfir sér að kalla svo. Fréttin á eftir fyrirsögninni að dæma að vera um mann sem lögreglan handtók tvisvar sinnum sömu nóttina. Svo er hinsvegar ekki. Maðurinn var fyrst handtekinn um kvöldið og svo klukkan fjögur um nóttina. Ekki sakar að samræmi sé milli fyrirsagnar og fréttar.

Í tíu fréttum Ríkisútvarpsins (10.09.2011) var sagt rá því að herskip frá nokkrum þjóðum væru á eftirliti undan strönd Sómalíu til að verja skip fyrir árásum sjóræningja. Rangt er að tala um að vera á eftirliti. Skipin voru við eftirlit. Kannski var þarna verið að aulaþýða úr ensku, on patrol.

Molavin sendi eftirfarandi (11.09.2011): ,,Skömmu síðar mátti lesa aðra færslu á Twitter þar sem stóð að fregnir af andláti Jobs væru gjörsamlega óstaðfestar.” (visir.is)
Hann spyr: Er ekki eitthvað hálf undarlegt að tala um að eitthvað sé gjörsamlega óstaðfest? –Molaskrifari bætir við: Það er meira en hálfundarlegt Annaðhvort er frétt staðfest eða hún er óstaðfest. Minnir á stúlkuna sem var spurð hvort hún væri ólét. Svarið var: Bara pínulítið.

Í auglýsingu um vetrardagskrá Ríkissjónvarpsins er talað um heimildaþætti og heimildamyndir. Í íslenskri orðabók er orðið heimildamynd ekki að finna. Þar er hinsvegar orðið heimildarmynd.

Grikkland er ekki lengur viðbjargandi, var sagt í sexfréttum Ríkisútvarpsins (12.09.2011). Hefði átt að vera: Grikklandi er ekki lengur viðbjargandi.

Enn er á annan tug þingmanna á mælendaskrá, sagði fréttaþulur í tíufréttum Ríkissjónvarps (12.09.2011). Molaskrifari er á því að betra hefði verið: Enn er á annar tugur þingmanna á mælendaskrá.

Molaskrifari þykist nú vita hvaðan það er upprunnið að útrýma áttræðu heitinu Ríkisútvarp og kalla þessa þjóðarstofnun Rúv. Það er komið frá svokölluðum ímyndarráðgjafa,sem sjálfsagt hefur ekki veitt Ríkisútvarpinu ókeypis þjónustu. Þetta er ekki ákvörðun stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. Þetta er ekki ákvörðun þeirra ráðuneyta sem fara með málefni Ríkisútvarpsins. Ráðuneytin voru ekki spurð. Þau skipta sér heldur ekkert af Ríkisútvarpinu. Það er útvarpsstjórinn sem ræður þessu einn. Svo hefur tekist að búa til allsherjarrugling þannig að stundum þýðir Rúv bara Ríkissjónvarpið og stundum þýðir það Ríkisútvarpið í heild. Í Efstaleiti er nú einveldi. En það er ekki menntað einveldi. Þar er ekkert, enginn sem veitir stjórnendum eðlilegt aðhald. Þessvegna verður taka alla stjórnskipan Ríkisútvarpsins til gagngerrar endurskoðunar“.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þegar séranum og orðabókinni ber ekki saman ,þá stöndum við að sjálfsögðu með séranum, Björn. Beygi mig fyrir því, – eins og maður gerði alltaf.

  2. Björn skrifar:

    Ég sýndi Emil Björnssyni einu sinni texta þar sem ég hafði skrifað orðið heimildarmynd. Hann strikaði r-ið úr orðinu með þeim orðum að myndin byggðist á mörgum heimildum. Síðan hef ég alltaf skrifað það r-laust.

  3. Eiður skrifar:

    Þú hefur á réttu að standa, Þórhallur. Margir voru á móti Útvarpsráði á sínum tíma. Stofnuninni var hollt að heyra sjónarmið fólks úr ýmsum áttum varðandi gerð dagskrár og framkvæmd dagskrár. Nú er einveldi í Efstaleiti. Það er ekki gott fyrir Ríkisútvarpið og afspyrnuslæmt fyrir þjóðina. Þessvegna er allt í ´æoefni innanhúss hjá þessari stofnun sem á betra skilið. Það verður að breyta skipulagi Ríkisútvarpsins.

  4. Þórhallur Jósepsson skrifar:

    Sæll. Ég er ekki sammála þessu: „Enn er á annan tug þingmanna á mælendaskrá, sagði fréttaþulur í tíufréttum Ríkissjónvarps (12.09.2011). Molaskrifari er á því að betra hefði verið: Enn er á annar tugur þingmanna á mælendaskrá.“
    Forsetningin á stýrir þolfalli eða þágufalli. Lagði á hestinn, er á hesti, lagði á fjallið, uppi á fjallinu o.s.frv. Annar er annan í þolfalli. Ímyndað samtal: Sp.: Hve margir eru komnir? Sv.: Þeir eru á annan tuginn. Þarna væri rangt að segja þeir eru á annar tugurinn.

    Varðandi Ríkisútvarpið og RÚV. Þegar ég þaullas lögin um Ríkisútvarpið ohf, ekki löngu eftir að þau voru sett af Alþingi, var algjörlega ljóst að útvarpsstjóri var samkvæmt þeim einráður um nánast allt í starfi þessarar stofnunar (sem Ríkisútvarpið er, þótt þessu hlutafélaga dulargerfi hafi verið brugðið yfir hana). Mig minnir að stjórn hafi haft einhverskonar eftirlitshlutverk gagnvart rekstri, það er að segja peningamálum, og stjórn hefur vald til að ráða (og þá væntanlega líka að reka) útvarpsstjóra. Ráðherra hefur síðan vald til að velja og skipa stjórnarmenn. Annað ákveður útvarpsstjóri. Ég veit ekki hvort þessum lögum hefur verið breytt, það væri þó þarfara en margt sem Alþingi dundar sér við þessa dagana.

    Kveðja, ÞJ

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>