«

»

Molar um málfar og miðla 715

Af hverju auglýsa Hagkaup Alvöru steak á diskinn minn ? (Fréttablaðið 15.09.2011) Fyrirtækið ætti að skammast sín fyrir hrognamál.

Egill sendi eftirfarandi (14.09.2011): ,,Í Kastljósinu í gær, var talað um „takmarkanir á RJÚPUVEIÐUM“ í inngangi að síðasta liðnum. Það er rétt að vorkenna rjúpunni sem lögð er svona í einelti. Ætli ekki hafi verið átt við „rjúpnaveiðar“? Líklega rétt til getið. Kannski hefur fréttamaðurinn verið að hugsa um Óhræsi Jónasar: ,, Ein er upp til fjalla, yli húsa fjær …..” Og þó. Það tíðkast ekki lengur að nemendur í skólum landsins læri kvæði utanað. Þetta er einnig frá Agli (14.09.2011): Hallgrímur Thorsteinsson, á Rás 2, nú áðan: Linda talaði við móðir eins drengjanna … Er þetta nú ekki barnaskólaefni? Móðir, móður, móður, móður.

Nokkrum sinnum var í þessum pistlum amast við auglýsingu þar sem gullsmiður auglýsti: Ég er að kaupa gull. Nú hefur þessari auglýsingu verið breytt. Þar segir gullsmiðurinn: Kaupi gull. Gott mál.

Þeir sem skrifa fréttir ættu að hafa fyrir reglu að lesa það sem þeir skrifa og strika út óþörf orð. Í fréttum Stöðvar tvö (13.09.2011) var sagt talað um að bæta upp tjón. Bæta tjón, hefði verið betra. Sama kvöld var sagt: Einskorðaðist einungis við. Einskorðaðist við, hefði dugað.

Flugáætlun Icelandair stækkar , segir í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins (14.09.2011) . Er ekki Icelandair að fjölga ferðum? Að tala um að áætlun stækki er hálfgert rugl. Ruglið var svo staðfest í sexfréttum Ríkisútvarpsins þegar sagt var að flugáætlunin væri sú stærsta í sögu félagsins. Hversvegna ekki sú viðamesta? Eða: Samkvæmt áætluninni verður flugstarfsemin meiri en nokkru sinni fyrr í sögu félagsins.

Halldór vitnar í DV og segir: Útgáfufélagið Vefpressan hefur gripið til þess ráðs að leita til fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka í þeirri von að bankinn geti aflað félaginu aukið hlutafé. Molaskrifari segir: Menn afla einhvers. Afla aukins hlutafjár. Ekki mjög flókið.

Nú er fólk farið að tala um Rúvið og á Rúvinu. Þetta er afleiðing af þeirri ákvörðun æðstu stjórnenda í Efstaleiti að ekki megi lengur tala um Ríkisútvarpið.

Til hvers að vera með seinni fréttir í sjónvarpi þegar þær bæta nánast engu við það sem sagt var í fyrri kvöldfréttum ? Þannig var það á miðvikudagskvöldið (14.09.2011) í Ríkissjónvarpinu.

Molavin sendi eftirfarandi (14.09.2011) : ,,Smartland er nafn á viðleitni Morgunblaðsins á Netinu til þess að iðka klúður og slúður. Málfarið er sízt til fyrirmyndar, en vanþekking á konunglegum málefnum er líka slæm fyrir þá, sem gefa sig út fyrir að vera sérfræðingar á því sviði. „Frú Middleton er engin tískufyrirmynd“ segir þar í fyrirsögn – en þegar að er gáð er alls ekki átt við hina einu og sönnu frú Middleton, heldur um dóttur hennar, hertogaynjuna af Cambridge. Catherine Elizabeth, áður Middleton, afsalaði sér því ættarnafni þegar hún giftist væntanlegum ríkisarfa Bretlands, Vilhjálmi prinsi, hertoganum af Cambridge. Og þótt alsiða sé að titla giftar konur „frú“ (sem er reyndar ranglega gert á Smartlandi um hinar og þessar einhleypar popp-prinsessur), þá á sá siður ekki við um hefðarkonur, sem bera titil. Frú Margarethe Thatcher var þannig réttilega ávörpuð unz hún varð barónessa. Þá breyttist ávarpið í „Lady“ í stað „Mrs.“ Mörgum finnst þetta titlatog og óþarfi í nútímanum, en ekki öllum, og þeir sem fást við það í daglegu starfi að skrifa um þetta fræga fólk, ættu að læra að gera það rétt.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður Bogi skrifar:

    Ákveðin meinloka hér varðandi Hagkaup, á sama hátt og þegar ranglegt er sagt að ríkisstjórnin sé ósátt við forsetann. Það er ógerlegt að fyrirtæki skammist sín rétt eins og ríkisstjórnin hefur aldrei sjálfstæðan vilja, heldur ráðherrar hennar. Stjórnendur Hagkaupa sem og annara fyrirtækja sem ekki geta auglýst á skiljanlegu, kjarngóðu íslensku máli ættu hins vegar að skilja að þeirra er skömmin! (Reyndar æði margt undarlegt hjá Hagkaupum. Man að fáeinum vikum eftir Hrunið, haustið 2008, héldu stjórnendur fyrirtækisins Danska daga, sem mér fannst alveg fáránleg tímasetning. Buðu þar upp á spægipylsur, osta, svínakjöt og fleira sem við tengjum sérstaklega við Danmörku. En þegar mest reið á að verja íslenska framleiðslu og störf þá var efnt til auglýsingahátíðar til heiðurs gömlu herraþjóðinni, sem reyndist okkur ekkert sérstaklega vinveitt þegar vatnaði hér undan öllu.)

  2. Eiður skrifar:

    Þá hefði átt að skrifa ,,steik“ ekkert að því. Ekki bjóða okkur ,,steak“ í auglýsingum á íslensku.

  3. Tryggvi A. skrifar:

    Um auglýsingu Hagkaupa:

    Í ofanálag er enska orðið „steak“ einfaldlega komið úr Norrænu, steik, svo menn eru þarna komnir í skringilegan hring.

  4. Eiður skrifar:

    Sammála. Ótækt orðalag.

  5. Emil Ragnar Hjartarson skrifar:

    Í dag segir Fréttablaðið frá systrum sem urðu hlutskarpastar í hönnunarkeppni, eða á ég að segja til að fylgja tískunni „sigruðu hönnunarkeppnina“ sem virðist orðið viðurkennt málfar.
    Í Fréttablaðinu er þetta gullkorn: „Systurnar voru meðal þeirra fjögurra tískumerkja sem kepptu til sigurs í Reykjavík Runway keppninni“
    Mér finnst þetta ótækt. Þetta er ekki „nýstárlegt orðalag sem auðgar málið“ eins og sumir segja .

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>