Útvarp Saga kynnti viðtal við nýjan vígslubiskup í Skálholti að morgni dags (15.09.2011) með því að flytja óhróður Megasar um Ragnheiði biskupsdóttur. Kveðskapur Megasar hefst svona: Ragnheiður biskupsdóttir brókar var með sótt og beiddi þegar Daði mælti á latínu. Textinn fer versnandi og verður enn klámfengnari þegar fram í sækir Hversvegna gekk verðandi vígslubiskup ekki út? Þetta var slíkt sambland af dónaskap og lágkúru að með ólíkindum er. Algjgörlega óboðlegt.
Það er nýlunda , en kannski ekki sérstaklega hrósverð, þegar fréttamenn Ríkisútvarpsins eru farnir að gefa kollegunum einkunnir í fréttatímum. Í hádegisfréttum (15.09.2011) talaði þulur um hinn ötula þingfréttamann. Það má vel vera að þingfréttamaðurinn sé ötull, það skal hreint ekki dregið í efa, en það er okkar hlustenda að dæma um það. Hvað kemur næst: Hinn arfaslaki íþróttafréttamaður N.N. segir nú frá ? Orðin hinn ötuli höfðu verið fjarlægð úr fréttatímanum þegar hann var birtur á vef Ríkisútvarpsins!
Þegar hljóð er lélegt og hið talaða orð illskiljanlegt eins og var í viðtali við konu í Danmörku sem sýnt var í fréttum Stöðvar tvö (14.09.2011) á að texta viðtalið. Það var ekki gert á Stöð tvö. Í sama fréttatíma talaði viðmælandi um að ala upp fisk. Það er sennilega mjög erfitt. Betra hefði verið að tala um að ala fisk, fiskeldi.
Ólíkt síðustu tveimur þingkosningum var sagt í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (14.09.2011). Orðið kosningar er fleirtöluorð. Þessvegna hefði átt að tala um tvennar síðustu kosningar.
Við eigum að gera báðum þessum námum jafnhátt undir höfði, sagði þingmaður sem rætt var við á Bylgjunni (15.09.2011). Verið var að ræða verknám og bóknám. Orðið nám er ekki til í fleirtölu. Þingmaðurinn hefði átt að orða þetta á annnan veg..
Tryggvi sendi eftirfarandi vegna fréttar á dv.is (115.09.2011): Athyglisverð frétt um gosbrunninn sem …spýtur frá sér vatnslistaverkum…
Auk þess hélt ég að gosbrunnur skyti upp en ekki niður eins og þessi.
Sjá frétt: http://www.dv.is/skrytid/2011/9/14/mergjadur-gosbrunnur-i-japan-er-hreint-listaverk/
Bráðabirgðameirihluti skipaður segir í undirfyrirsögn á dv.is (15.09.2011) um róstur í sveitarstjórn Fjallabyggðar. Um þetta er það að segja að meirihlutar eru ekki skipaðir. Þeir eru myndaðir þegar tilteknir einstaklingar eða hópar ákveða að vinna saman.
Úr dv. is (15.09.2011): Ríkisstjórninni gremst mjög ummæli forseta eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga. Hér ætti að mati Molaskrifara að standa: Ríkisstjórninni gremjast mjög ummæli forseta Íslands ….. Orðið ummæli er fleirtöluorð, ekki til í eintölu. Hinsvegar mætti segja: Ríkisstjórninni gremst að forsetinn skuli vera kominn út í pólitík.
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
19/09/2011 at 13:51 (UTC 0)
Meðtekið. Takk, Björn.
Björn skrifar:
19/09/2011 at 11:45 (UTC 0)
Þau hjá Íslenskri málstöð telja að ópersónulegar sagnir geti jafnt verið í eintölu sem fleirtölu þegar andlagið er í fleirtölu. Því má alveg eins skrifa ríkisstjórninni gremst…
og ríkisstjórninni gremjast… Sjálfur nota ég fleirtöluna en hitt er alveg jafnrétthátt.
Eiður skrifar:
16/09/2011 at 18:44 (UTC 0)
Mát.
Sigurður Bogi skrifar:
16/09/2011 at 18:36 (UTC 0)
Ríkisstjórninni gremst ekki neitt enda er hún sálarlaust fyrirbæri. Hér væri því rétt að segja: að ráðherrum í ríkisstjórn gremjast mjög … og svo framvegis: