«

»

Molar um málfar og miðla 722

Sigurður sendi eftirfarandi (22.09.2011) ,,Í íþróttafréttum RÚV,núna í hádeginu,sagði íþróttafréttamaður um úrslit kvennaliðs okkar og Belga:…enda voru þjálfari liðsins…(karl) og markaskorarinn…(kona)mjög ósátt…(Svo ný setning). Samkvæmt þessu gæti maður haldið að þau, þessi tvö, hafi lent í hár saman eða hörkurifrildi. Rangnotkun á lo. ósáttur er mjög algeng og reyndar ofnotkun líka, a.m.k. í mörgum fjölmiðlum.

Bjarni B. sendi: ,,Á bls. 14 í Morgunblaðinu 21. september segir bæði í fyrirsögn og beinni tilvitnun í viðtali við ungan arkitekt Búið að fækka starfsfólki um mörg hundruð prósent. Ætli blessuð stúlkan hafi aldrei lært hlutfallareikning?”

Frá Agli (22.09.2011) „Spurningar sömdu Andri“ og „Varst þú líka að dingla?“ missti Guðrún Dís út úr sér í morgun á Rás 2. Líklega samdi Andri spurningarnar og Hjörtur Júlíus hringdi bjöllunni. (Ég geri ekki ráð fyrir að hann hafi hangið í einhverju og dinglað til og frá).- Sagði Egill og bætir við: „Frábært hjá Birgi Leif,“ sagði Hörður Magnússon í íþróttafréttum Stöðvar 2 í kvöld. Það var ekki svo frábært hjá Herði, því skv. Árnastofnun beygist mannsnafnið Leifur svona: „Leifur, Leif, Leifi, Leifs“. Þetta er í þágufalli, svo það var frábært hjá Birgi Leifi.

Úr frétt á visir.is (22.09.2011): Vala hvetur þann eða þá sem voru að verki að skila mununum og þá verði engir eftirmálar. Hér er ruglingur á ferð: Eftirmál eru afleiðingar eða eftirköst. Eftirmáli er niðurlagsorð, texti á eftir meginmáli.
Jón Jónsson skrifaði eftirmála við ævisögu Sigurðar. Þótt hann væri nokkuð stóryrtur urðu engin eftirmál í kjölfar skrifa hans.

Í Morgunblaðinu (24.09.2011) segir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar um nýja varðskipið: Ég tel mikla þörf vera á svona skipi. Lesendum Morgunblaðsins koma persónulegar skoðanir upplýsingafulltrúans ekkert við. Hér hefði til dæmis mátt segja: Landhelgisgæslan telur mikla þörf fyrir svona skip. Eða, það er mikil þörf fyrir svona skip. Molaskrifari óskar þjóðinni, gæslunni og sæfarendum við Ísland til hamingju með nýja Þór. Þetta skip er bylting í tækjabúnaði gæslunnar og koma þess er þáttaskil í björgunar og öryggismálum. Landhelgisgæslan hefur á að skipa úrvalsmannskap. Hún á að hafa úrvalstækjakost. Þyrlumálin hafa lengi verið afskipt hjá stjórnvöldum. úr því þarf að bæta.

Útvarpsmönnum gengur misvel að laga sig að geðþóttaákvörðun stjórnenda Ríkisútvarpsins að gera heitið Ríkisútvarpið að bannorði á öldum ljósvakans. Þannig heyrðu hlustendur nýlega sagt: Fréttastofa Rí…Rúv !

Álftnesingar vilja nýjan veg út á nesið, segir í frétt í Morgunblaðsins (24.09.2011). Núverandi vegur sé of nálægt göngustíg sem liggur norðan hans. Molaskrifari gengur stundum eftir þessum stíg. Víst er hann nálægt veginum en það er fyrst og fremst ökuhraðinn sem veldur slysahættu á Álftanesvegi. Þar heyrir nánast til undantekninga að hraðamörk séu virt. Ef Álftnesingar og aðrir sem þarna eiga leið um færu aðeins hægar og virtu hraðatakmörk mundi stórlega draga úr slysahættu. Það á að fara sér hægt í að eyðileggja náttúruverðmætin sem felast í hrauninu. Þau verða aldrei endurbyggð. Hraunið er ómetanlegt útivistarsvæði. Þar er fjölbreyttur gróður og þar verpa margar fuglategundir.

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Jakob.

  2. Jakob Jonsson skrifar:

    Byrja a ad afsaka skortinn a islenskum stofum…sit vid breskt lyklabord.
    “Tengi-ess” er svokollud bandstafssamsetning og eftir tvi sem eg veit best er hun eingongu midud ad tvi ad fa meira flaedi i ordin…gera thau hljomfagurri. Aukinheldur einskordast hun ekki bara vid stafinn S. Ordid rusl er til ad mynda ekki til i fleirtolu en med bandstafssametningunni verdur ordid ruslAfata til…sem hljomar mun betur en ruslfata.

  3. Eiður skrifar:

    Sæll Þorgils Hlynur. Þakka þér orðin og þessar ágætu hugleiðingar. Ekki er ég maður til að svara þeim, enda leikmaður á þessu sviði og ekki menntaður málfræðingur. Kannski sér einhver slíkur þetta og leggur orð í belg.

  4. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    PS. Í stað þess að segja alltaf að þetta eða hitt sé athygisvert (svo), finnst mér mun fallegra að segja einmitt að þetta eða hitt veki athygli. ÞHÞ.

  5. Þorgils Hlynur Þorbergsson skrifar:

    Sæll Eiður. Kærar þakkir fyrir skemmtilegu málfarsmolana þína. Greinilegt er að hér er um þarft framtak að ræða. Mig langar til þess að bera upp eina frekar víða spurningu: Hvað segir þú um þetta svokallaða „tengi-ess“ sem er að finna í samsetningu kvenkynsnafnorða sem enda á „i-i“, vel að merkja í öllum föllum. Hér er ég að tala um orð eins og keppni, skynsemi, athygli, umgengni og önnur slík, þar sem sú „hefð“ hefur komist á að bæra við óþörfu auka-essi. Hér á ég við orð á borð við keppni(s)tímabil, skynsemi(s)rök, athygli(s)vert (sumir eru þó farnir að segja „athyglivert“ og umgengni(s)reglur. Hvernig stendur á þessari furðulegu hefð, og af hverju er hún þá ekki algild? Enginn segir „ellisheimili“! Af hverju er þá sagt „keppnisdagur“ eða „samkeppnisftirlit“ — já og „Landhelgisgæslan!“ Í íþróttamálinu væri betra að segja „við lok fyrsta dags (keppninnar) “ — má jafnvel sleppa. Í eina tíð var þetta tengi-ess líka að finna í fræðideildum Háskóla Íslands, til dæmis „guðfræðisdeild“. Svo féll það s út, einhvern tímann á 20. öldinni og var það vel. Mér finnsr þetta svokallaða tengi-ess slæva kynvitund manna um orðin, þannig að erfitt er að greina hvort orðið er í raun kvenkyns eða hvorugkyns. Í eina tíð var orðið heilbrigði í kvenkyni, ef ég man rétt, en nú er búið að breyta því í hvorugkynsorð með því að tala um heilbrigðisráðuneytið og heilbrigðisráherra. Látum það ef til vill liggja á milli hluta, enda vandist ég orðinu heilbrigði strax sem hvorugkynsorði. En hvað segir þú um þetta svokallaða tengi-ess kvenkynsorða í þessum flokki, sem ég tel vera ljóð á okkar fallega tungumáli? Bestu þakkir, með vinsemd og virðingu, Þorgils Hlynur Þorbergsson, Reykjavík.

  6. Eiður skrifar:

    Held það væri heillaráð !

  7. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Gæti ekki verið viðunandi lausn á Álftanessvegi að færa gangstíginn fjær akbrautinni?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>