«

»

Molar um málfar og miðla 723

Borðaði erlendan mat og fékk eitrun, segir í fyrirsögn í DV (23.09.2011). Það var formaður Framsóknarflokksins sem átti í hlut. Líklegt er að á næsta flokksþingi Framsóknarflokksins verði samþykkt að banna innflutning á öllum erlendum matvælum til að fyrirbyggja að formaður flokksins fái aftur í magann.

Í sama blaði er haft eftir Margréti Tryggvadóttur alþingismanni í fyrirsögn: ,,Það er eitthvað rosalega mikið að”. Hún á við endalausa bullið sem viðgengst á Alþingi Íslendinga þar sem umræður oftar en ekki eru órafjarri allri skynsemi. Þetta er hárrétt hjá Margréti. Það er eitthvað mikið að í Alþingishúsinu við Austurvöll. Hún á þakkir skildar fyrir að orða þetta skýrt og skilmerkilega.

Í íþróttafréttum Ríkisútvarpsins (24.09.2011) var sagt: …sem stýrði Breiðabliksliðinu frá júnílok. Beygingafælni ? Frá júnílokum hefði íþróttafréttamaður átt að segja.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (24.09.2011) var sagt: … í kjölfarið á því verður… Hér hefði átt að láta nægja að segja: Í kjölfarið verður…

Í pistli um fund sjálfstæðisfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (24.09.2011) sagði fréttamaður, að tiltekinn ræðumaður hefði boðað fagnaðarerindi einhliða upptöku erlends gjaldmiðils. Faglegt orðlag? Nei. Sami fréttamaður sagði einnig (vitnaði í ræðumann): … hingað þyrfti einungis að fljúga inn með tvö vörubretti af peningum og keyra þeim út til bankanna. Þetta er ógott orðlag. Betra hefði verið; Hingað þyrfti einungis að senda tvö vörubretti með erlendum peningaseðlum og dreifa þeim til bankanna. Þarna var talað um að fljúga inn með. í fréttum seinna um daginn talaði viðmælandi fréttamanns tvívegis um að vigta inn glímumenn. Augljós ensk áhrif.

Í fréttum Stöðvar tvö (24.09.2011) var talað um að bera sigur af hólmi. Þarna var rugl á ferðinni. Talað er um að fara með sigur af hólmi, sigra.

Lokadagur mótsins fer fram á morgun, sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö (24.09.2011). Lokadagur mótsins er á morgun , hefði hann betur sagt. Þetta hefur reyndar heyrst áður.

Lýsti stuðningi um umsókn Íslands, segir í fyrirsögn á mbl.is. Í fréttinni sjálfri segir hinsvegar réttilega: Lýsti stuðningi við… Stuðningi er ekki lýst um eitt eða neitt, heldur við eitthvað.

Í texta í fréttum Ríkissjónvarps (24.09.2011) var talað um góðar undirtektir við tillögunni. Eðlilegra hefði verið að segja: Góðar undirtektir við tillöguna. Ný gamanþáttaröð í Ríkissjónvarpinu sem hóf göngu sína á laugardagskvöld (24.09.2011) byrjaði ekki gæfulega. Vonandi á Eyjólfur eftir að hressast.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Jakob Jónsson skrifar:

    Þorvaldur. Ég sagði ekkert um að þetta væri rangt var það? Sérðu það einhversstaðar? Finnst þetta bara hjákátleg orðanotkun. Í mínum huga felst handtaka í því að smella járnum á mann og loka hann inni. Finnst þetta eiga illa við dýr, það er allt og sumt, málfræðilega er sennilega ekkert að þessu. Við skulum forðast nefstökk.

  2. Jakob Jonsson skrifar:

    Jamm jamm godan daginn. Eg sagdi bara ad mer fyndist thad bogid…ekki ad thad vaeri rangt. Hljomar bara kjanalega. Bidst forlats

  3. Þorvaldur Sigurðsson skrifar:

    „Eitthvad finnst mer bogid vid ad segja ad hundur se handsamadur…“
    Það að handsama þýðir að koma höndum á, hremma, ná. Því er ekkert athugavert að handsama hund ef hann er tekinn með höndum. Og löggan austur í sveitum hefur væntanlega hendur. Ekkert væri heldur athugavert við að handtaka hundinn því þar er átt við hendurnar sem taka hann en ekki hendurnar á þeim handtekna, sem sennilega eru engar í tilviki hundsins. Hins vegar mætti gera athugasemd ef hann hefði verið keflaður á höndum og fótum eins og eitt sinn í fyrndinni var sagt í fyrirsögn í Mogganum og var þó að sönnu verið að tala um mann.

  4. Eiður skrifar:

    Þetta fólk er dæmalausir bögubósar, að ekki sé meira sagt.

  5. Jakob Jonsson skrifar:

    http://mbl.is/frettir/innlent/2011/09/26/dyrbits_leitad_vid_hellu/

    Eitthvad finnst mer bogid vid ad segja ad hundur se handsamadur…

  6. Jón Sveinsson skrifar:

    Sæll Eiður.
    Ja nú þarf málfarsráðunautur RUV aldeilis að taka sig á, varðandi þáttin á morgnana hjá þeim Andra Frey og Gunnu Dís. Það er varla boðleg sú íslenska sem þau bera á borð.
    Nú í morgun 28.09. voru þau að tala um harmleikinn í Sandgerði og lauk Andri umfjölluninni með þessum orðum „sendum góðar kveðjur til Sandgerðar“.
    Ég viðurkenni að að er ljótt af mér að nefna þetta vegna harmleiksins, en mér er spurn hver er þessi „Sandgerður“ sem þau voru að senda kveðju til.
    Kær kveðja Jón

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>