Í fréttum Ríkissjónvarps (20.10.2011) þegar Gaddaffi hafði loks verið ráðinn af dögum var prýðilega sagt í skjátexta í upphafi frétta: Gaddaffi allur. Skjátextinn í fréttum Stöðvar tvö þetta sama kvöld var: Gaddaffi gómaður. Lakara orðalag.
Molavin spyr: ,,Er DV farið að notast við Google-translate hráþýðingarforritið til að skrifa erlendar fréttir? Þýska lögreglan liggur undir ámæli þessa dagana vegna nýrrar tækni sem lögregla notar við rannsókn sakamála. Nú er fyrir dómstólum í Bavaria mál saksóknara gegn karlmanni sem grunaður er um smygl á lyfseðilsskyldum lyfjum.
Annaðhvort það, eða að grunnskólabörn í starfskynningu eru látin skrifa fréttir um mál sem gerast í Bæjaralandi.” Nema hvorttveggja sé, – Molavin. Svo er hér meira frá sama: ,,Við fórum í það að framkvæma skoðun á útlánum bankanna… sagði forstöðumaður Fjármálaeftirlitsins í viðtali við Stöð-2. Á mannamáli þýðir þessi setning: Við skoðuðum útlán bankanna…“ Satt og rétt.
Líklega slær enginn fjölmiðill Rás tvö út þegar að ambögum kemur. Egill sendi þetta (20.10.2011): Raddir þeirra bræðra þykir mjög lík, sagði Matthías á Rás 2 nú áðan.
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (20.10.2011) var talað um að fyrirlestur hefði farið framí Háskóla Íslands. Eðlilegra hefði verið að tala fyrirlestur sem hefði verið fluttur í Háskóla Íslands, eða haldinn í Háskóla Íslands.
Líkamsleifum Gaddafis, fyrrverandi leiðtoga Líbíu, hefur verið komið fyrir í mosku í borginni Misrata, segir á vef Ríkisútvarpsins (20.10.2011). Er ekki verið að tala um lík Gaddafis?
Á mbl.is (20.10.2011) segir frá siglingu nýja varðskipsins okkar, Þórs, frá Síle til Íslands: … og siglt að hausti gegnum Boston og Halifax, … Nú er bara að vona að skipið hafi ekki laskast við að sigla í gegnum þessar tvær borgir!
Vilja taka heimilið af Ólafi, segir í fyrirsögn á dv.is (20.10.2011). Um er að ræða að svipta mann yfirráðarétti yfir íbúð. Heimili er eitt. Íbúð annað.
Á forsíðu Fréttatímans (21.10.2011) er í fyrirsögn talað um brotinn streng þegar vísað er til umsaganar um hljómplötu. Á ensku er talað broken string. Á íslensku er talað um slitinn streng eða brostinn streng. Platan heitir reyndar réttilega Brostinn strengur.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (21.10.2011) var talað um að Gaddaffi hefði verið inni skólpræsi. Eftir öllum myndum að dæma var um ræða venjulegt ræsi undir veg. Ekki skólpræsi og ekki affallsrör eins og einhver fjölmiðill sagði. Það sakar aldrei að hafa frásagnir réttar.
Glöggur hlustandi Ríkisútvarps (21.10.2011) benti á eftirfarandi: ,,Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var rætt um vígslu á minnismerki um fórnarlömbin í Útey og sagt að þjóðhöfðingjar Norðurlanda yrðu þar viðstaddir.
Forseti Íslands og eiginkona hans taka þátt í athöfninni fyrir hönd íslensku þjóðarinnar auk forsetahjóna Finnlands.
Það má nú segja að íslenska þjóðin mæti tvíefld til leiks – með tvenn forsetahjón í fyrirsvari.”. Ekki má það minna vera, segir Molaskrifari og þakkar ábendinguna.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
24/10/2011 at 15:01 (UTC 0)
Kann rétt að vera.
Sigurjón Halldórsson skrifar:
24/10/2011 at 13:18 (UTC 0)
Fyrirsögnina „Brotinn strengur“ má líklega fremur kenna slælegum prófarkalestri en áhrifum frá ensku. Fyrirsögnin á bls. 60 er „Brostinn stengur“.