«

»

Molar um málfar og miðla 751

Háar upphæðir eru varasamar , segir Molavin (22.10.2011) og bætir við: ,, Þórður Ingi Jónsson, fréttamaður DV, segir í netfrétt blaðsins að Gaddafi hafi komið um 200 biljónum bandaríkjadala undan, en það séu um “2.3 trilljónir” íslenskra króna. Þetta eru háar upphæðir og brýnt að fréttamenn viti um hvað þeir eru að skrifa.
Burtséð frá undarlegum rithætti fréttarinnar er vert að benda á að erlendir fjölmiðar telja að umrædd upphæð sé aðeins einn þúsundasti af því, sem segir í DV. Með öðrum orðum; 200 milljarðar bandaríkjadala, en ekki biljónir. Það myndi jafngilda 23 biljónum íslenzkra króna.
Enska orðið “billion” er milljarður á íslenzku; þúsund milljónir. Biljón á íslenzku er hins vegar, samkvæmt ísl. orðabók, milljón milljónir. Trilljón er hins vegar öllu stærri tala, eða 1 með 18 núllum á eftir; milljón billjónir.”. Þörf ábending. Kærar þakkir , Molavin.

Egill sendi þetta (21.10.2011): ,,Haft er eftir nafnlausum forsvarsmanni vefsíðunnar einkamal.is á visir.is: Einkamál hefur lokað fyrir nokkra reikninga Stóru systur … Hér er greinilega hugsað á ensku og svo þýtt klúðurslega yfir á íslensku. Enska orðið: Account, sem er notað þegar fólk skráir sig inn á vefsíður, er ekki reikningur á íslensku heldur aðgangur eða skráning. Þeir lokuðu aðgangi Stóru systur, e.t.v. sendu þeir svo reikning, eða hvað?” Takk fyrir þetta, Egill.

Fjörutíu og þrír manns voru í bílnum, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (21.10.2011). Þarna hefði átt að sleppa orðinu manns, og segja annaðhvort fjörutíu og þrír voru bílnum eða fjörutíu og þrír farþegar voru í bílnum.

Áskell sendi Molum eftirfarandi (21.10.2011): ,,Kæru vinir. Við berum ykkur þakkir fyrir góðan dag og minnum á opnunartíma Kosts við Dalveg í Kópavogi frá 10-20 alla daga. ….Þetta var að finna á heimasíðu Kosts. Ég held að sá sem annast heimasíðu Kosts ætti frekar að bera vörur og hugsa um afgreiðslutíma.” Sammála. Takk fyrir sendinguna.

Í ,,Ummælum vikunnar” í Sunnudagsmogga (23.10.2011) er vitnað í ummæli afbrotafræðings í Ríkisútvarpsinu sem var að fjalla um Rolex-ránið á Laugaveginum: Maður óttast að gerendurnir séu horfnir af vettvangi Íslands. Sérfræðingurinn á við að menn óttist að glæpamennirnir séu farnir úr landi.
Horfnir af vettvangi Íslands er nýtt orðalag um það að menn séu farnir úr landi!

,, ,,Plottarinn” sem hélt spennunni í Degi Sjakalans og tugum annarra bóka frá fyrstu blaðsíðu til hinnar síðustu þykir augljóslega ekki mikið koma til ,,hönnunar” ráðherra íhaldsflokksins ,,á atburðarás” ”, sagði í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins (23.10.2011) Það gefur auga leið að upphafsorðið í þessari setningu á að vera í þágufalli, ekki í nefnifalli. Einhverjum þykir ekki mikið til einhvers koma. ,,Plottarinn “ hélt spennunni. ,,Plottaranum” þótti ekki mikið til koma.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>