«

»

Molar um málfar og miðla 752

Nýlega var í sjónvarpsfréttum ítrekað talað um stunguslys á Landspítalanum. Engin tilraun var gerð til að skýra fyrir hlustendum hverskonar slys stunguslys væru.

Í íþróttaftéttum Ríkissjónvarps var talað um knattspyrnumann sem hafði kveikt í húsi sínu þegar hann var að leika með flugelda. Betra hefði verið að segja: … leika sér með flugelda. Í sama fréttatíma sagði fréttamaður: … í kjölfarið á því slysi. Betra hefði verið að segja, – í kjölfarið var …, eða í kjölfar þess slyss …. Ekki: ….í kjölfarið á …

Svolítið var sagt frá frumsýningu Íslensku óperunnar á Töfraflautu Mozarts í Hörpu í fréttatíma Ríkissjónvarps (23.10.2011), þegar íslenska óperan sýndi í fyrsta sinn í Hörpu eins og það var orðað í fréttum Ríkissjónvarpsins. Langtum meiri athygli í sama fréttatíma fékk þó popphljómsveit sem kallar sig Of Monsters and Men sem er svo sem allra góðra gjalda verð. Því miður er þetta gott dæmi um tónlistarmat þeirra sem ráða í Efstaleiti.

Sl. sunnudagskvöld sýndi norska sjónvarpið NRK frá tónleikum Vínarfílharmóníunnar í Madrid þar sem flutt var níunda sinfónía Mahlers. Þessir tónleikar voru kynntir sem Evróvisjóntónleikar. Örugglega hafa þeir staðið Ríkissjónvarpinu til boða. En sígild tónlist frá Evróvisjón á ekki upp á plallborðið í Efstaleiti, – því miður. Evróvisjón-poppinu er hinsvegar hampað meira en nokkru öðru sjónvarpsefni.

Egill sendi eftirfarandi (23.10.2011): ,,Í íþróttafréttum Stöðvar 2 í kvöld var sagt: „… en eftir mikla reikistefnu (eða reykistefnu) var ákveðið að halda kappakstrinum áfram“. Ég hef heyrt talað um rekistefnu sem afskipti, íhlutun, að rekast í einhverju, en aldrei með ei/ey útfærslu. En þú?” Reyndar ekki.

Í Sunnudagsmogga (23.10.2011) er Tungutakspistill sem Baldur Hafstað skrifar. Hann segir: ,, Mér finnst málfarsumræðan snúast of mikið um ,,rétt” og ,,rangt”. Slík umræða er í besta falli gagnslaus. Þeir sem, ,,leiðrétta” einblína nefnilega gjarnan á sömu fáu atriðin en huga ekki að hinu sem skiptir meira máli: að viðkomandi geri sig sæmilega skiljanlegan. Sá sem ..leiðréttur” er verður ergilegur yfir ,,nöldrinu” og hættir að hafa yndi af töfrum tungumálsins.”
Molaskrifari tekur þetta ekki til sín. Hann og pennavinir hans nefna gjarnan ýmislegt sem betur mætti fara í málfari í mjölmiðlum. Þar er langt frá því að ævinlega sé talað um ,,rétt” og ,,rangt” heldur reynt að benda á betri leiðir, leiðir sem samræmast betur málvenju. Oft eru leiðrétt orðtök sem föst eru í málinu og engin ástæða til að breyta. Það er ekki einhlítt að texti sé skýr og góðu máli , bara ef hann er skiljanlegur. Langur vegur frá. Þá er eins víst að tungan þróist á þann veg að nítjándu aldar texti verði börnum næstu aldar óskiljanlegur. Það má ekki verða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>