«

»

Molar um málfar og miðla 753

Á mánudagskvöld (24.10.2011) fór fram atkvæðagreiðsla í neðri deild breska þingsins um hvort efna skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn Breta úr ESB. Flutningsmaður tillögunnar var úr öðrum stjórnarflokknum, Íhaldsflokknum. Tillagan var kolfelld, – 111 studdu hana en 483 greiddu atkvæði gegn henni. Engu að síður var þetta áfall fyrir formann Íhaldsflokksins því áttatíu og einn þingmaður flokksins (af 305) , – studdi tillöguna. Morgunblaðið hafði á þriðjudagsmorgni ekki greint frá þessu hvorki á prenti né á vefnum. Á vefnum var hinsvegar frétt um að 49% Breta vildu að landið segði sig úr ESB. Svona eru lesendum Morgunblaðsins mataðir á því sem stjórnendur blaðsins telja æskilegt að þeir fái vitneskju um. Þetta eru ótrúlega hallærisleg vinnubrögð en koma svo sem ekkert á óvart. Í fréttum Ríkisútvarpsins að morgni þriðjudags (25.10.2011) voru þessu gerð prýðileg skil.

Í fréttum Ríkisútvarpsins (24.10.2011) var talað um að sýking hefði komið upp í gervigrasi í íþróttahúsi á Akureyri. Molaskrifari er á því það orki tvímælis að tala um sýkingu í gervigrasi. Bakteríur í gervigrasi sem ekki hefur verið þrifið sómasamlega geta hinsvegar valdið sýkingu hjá fólki.

Í fréttum Stöðvar tvö (24.10.2011) var verið að segja frá hinni svokölluðu hundrað og tíuprósentaleið sem hvað,eftir annað var kölluð hundraðogtíprósleiðin. Þetta er latmæli sem ekki ætti að heyrast, – ekki frekar en talað sé um mikudag í veðurfregnum eins og stundum heyrist.

Fréttamat orkar oft tvímælis, en hvernig í ósköpunum getur það orðið ein af aðalfréttum Ríkissjónvarpsins (24.10.2011) að formaður knattspyrnudeildar í Grindavík ætli að segja af sér eftir nokkra daga vegna ósættis um ráðningu þjálfara? Það er engin frétt fyrir þorra þjóðarinnar , nema kannski Grindvíkinga sem örugglega þurftu ekki á Ríkissjónvarpinu að halda til að segja sér fréttina.

Egill sendi þetta (24.10.2011): „Við förum frá Írak og berum höfuðin hátt, hafði Gunnar Gunnarsson eftir Bandaríkjaforseta í Spegli Ríkisútvarpsins í kvöld. En þarna er frekar ógeðfelld mynd dregin upp og beinlínis rangt þýdd setning. Þar sem hver maður er aðeins með eitt höfuð, er viðtekin venja – og rétt, að segja: „ … og berum höfuðið hátt“, þrátt fyrir að um marga sé að ræða. Það ber hver aðeins eitt höfuð, nema þeir hafi tekið með sér höfuð látinna úr stríðinu?”. Og Egill bætir þessu við: „Smyglaðar andabringur voru á boðstólnum … var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins nú áðan. Ég hef aldrei heyrt um boðstólinn, heldur að eitthvað sé á boðstólum.” Molaskrifari bætir því við að mjög erfitt er að greina hvort fréttamaður segir á boðstólum eða boðstólnum. Þrátt fyrir orð Egils hallast Molaskrifari að því fyrrnefnda.
Í þessum sama fréttatíma talaði fréttamaður um efnahags- og viðskiptamálanefnd Alþingis. Nefndin heitir efnahags- og viðskiptanefnd. Nefndir Alþingis eru ekki svo margar að fréttamönnum er vorkunnarlaust að fara rétt með heiti þeirra.

Gömul regla í fréttamennsku er að í frétt þurfi að felast svör við sex spurningum sem allar hefjast á H- , en þær eru:
Hver?
Hvað ?
Hvar?
Hvenær ?
Hversvegna?
Hvernig?
Í íslenskum netmiðlum gætir mjög vaxandi tilhneigingar til láta ósagt hvar fréttnæmur atburður gerðist. Samin er glannaleg fyrirsögn til að ginna fólk til að lesa fréttina, en þess látið ógetið fyrr en kannski í aukasetningu undir lok fréttarinnar að umræddur atburður hafi átt sér stað í Kína eða Kirgistan. Þetta er heldur slök fréttamennska.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>