Stundum læðist sú hugsun að manni að í höfuðstöðvum Ríkisútvarpsins sé enginn að hlusta á útvarpið. Það var engu líkara en svo væri að morgni þriðjudags (25.10.2011) þá var tvísagt í morgunþætti Rásar tvö að kona í Vestmannaeyjum sem daginn áður hafði orðið hundrað ára væri fædd 1901 (villan var lesin hugsunarlaust upp úr Morgunblaðinu). Þetta var tvísagt og ekki leiðrétt fyrr en hlustandi hringdi ! Sama morgun var talað um að refir bitu jafnvel fé. Vissulega er talað um dýrbít, en málvenja er að tala um að refir leggist á fé, eða ráðist á fé. Fróðlegur var ágætur pistill Gísla Kristjánssonar í Noregi þennan morgun á Rás tvö.
Flugvélin kom til Japans í lok september, þremur árum áður en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. – Sagði mbl.is (25.10.2011). Sannarlega tímanlega á ferðinni, en verið var að segja frá Draumfara, Dreamliner, nýrri flugvélargerð frá Boeing sem átti að vera komin á flug fyrir þremur árum.
Egill sendi þetta (25.10.2011): „Frændi minn … er mikill smekksmaður , sagði Andri Freyr Viðarsson á Rás 2 í morgun. Þá hlýtur frændinn að ganga um með smekk. Það er nefnilega allt annað að vera smekkmaður.”
Í frétt á mbl.is (25.10.2011) er vitnað í ársskýrslu Ríkisútvarpsins,en þar segir: Afar brýnt er að snúa við á þessari óheillabraut. Halda áfram á óheillabrautinni en snúa bara við? Hefði ekki verið eðlilegra að tala um að snúa af þessari óheillabraut ? Það hefði Molaskrifari haldið.
Snilldarskrif á pressan.is (25.10.2011): Það varð uppi fótur og fit hjá bræðrunum sem reka Tölvuverið á Rauðarárstíg 1 þegar eiginkona annars þeirra þurfti að rjúka upp á fæðingardeild þar sem konan hans var að fæða.
Guðmundur Ásgeirsson sendi eftirfarandi hugleiðingu (24.10.2011) : ,,Eftir nákvæmlega viku halda Bandaríkjamenn og nokkrar aðrar þjóðir upp á svokallaða Hrekkjavöku. Rétt eins og Valentínusardagur og fleiri erlendir siðir hefur þessi nú hafið innreið sína í íslenskan menningarheim af fullum þunga. Innrásin er fyrst og fremst í formi ýmiss konar söluvarnings eins og vill oft verða og tröllríður auglýsingamennska þessu tengd nú bylgjum ljósvakans. Fyrir utan útþynningaráhrif á íslenska þjóðmenningu og vægi íslenskra hátíðisdaga á borð við öskudaginn, þá hef ég tekið eftir því hvað útvarpsmönnum gengur illa að fjalla um þetta erlenda fyrirbæri á íslensku.
Margir þeirra sem yngri eru gera ekki einu sinni heiðarlega tilraun til réttrar málnotkunar heldur nota í sífellu enska heitið „halloween“. Í dag fannst mér þó keyra um þverbak þegar ég heyrði einn þeirra tala um „hrekkjavökudag“ og koma þar með upp um fullkomna vanþekkingu sína á þessari siðvenju og aldalöngum heiðnum uppruna hennar. Eins og lesa má í alfræðivefritinu Wikipedia, þá er Hrekkjavaka haldin að kvöldi 31. október, síðasta kvöldið fyrir Allraheilagramessu.” Molaskrifari kann Guðmundi bestu þakkir fyrir þessi skrif og vonar að þeir lesi sem orðunum er beint til.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
27/10/2011 at 16:14 (UTC 0)
„Sama morgun var talað um að refir bitu jafnvel fé. Vissulega er talað um dýrbít, en málvenja er að tala um að refir leggist á fé, eða ráðist á fé.“
Þannig að þá er væntanlega aldrei talað um að refurinn bíti ekki nálægt greninu? Hljóta dýrbítar ekki annars að bíta fé? Hvað orti ekki Hallgrímur sálugi Pétursson?
„Þú, sem bítur bóndans fé o.s.frv.“
En málvenjur frá 17. öld eiga þá vitaskuld ekki við á okkar tímum. Eða hvað?