«

»

Molar um málfar og miðla 756

 

Oft hefur í þessum Molum verið minnst á óþarfa þolmyndarnotkun. Stundum getur þolmyndin beinlínis verið villandi.  Úr Morgunblaðinu (26.10.2011):

Árin 2008 og 2009 var 13 ára gamalt barn tekið af lögreglunni 28 sinnum víðsvegar um Noreg fyrir þjófnað og  ýmis  afbrot.   Hér  er  væntanlega átt við að  lögreglan  hafi  (hand)tekið sama barnið 28 sinnum, en ekki að barnið hafi 28 sinnum verið  tekið  af lögreglunni, – með valdi væntanlega. Þetta er ekki til fyrirmyndar.

 

Góð samantekt Helga Seljan um málefni geðsjúkra afbrotamanna í Kastljósi (28.10.2011). Hrós fyrir það. 

 

Er að –sýkin svonefnda  er  bæði þrálát og útbreidd.  Heiti greinar sem  formaður  BSRB skrifaði í Fréttablaðið 826.10.2011) var:  Kerfið er ekki að virka.  Hversvegna ekki: Kerfið virkar ekki ?

 

Molavin sendi þetta (26.10.2011):   ,,Tízkuorðið í ár: Kjölfar. Það er varla til það orsakasamhengi í fréttum að það fái ekki viðbótina:  í kjölfar..

Á síðu mbl.is er þessi fyrirsögn:  Nýr erfingi valinn í kjölfar útfarar Sultan krónprins. Hér er í rauninni heldur ekki verið að velja nýjan erfingja; þeir eru margir í þessari stóru fjölskyldu, alls 22.000 manns. Heldur stendur valið um nýjan krónprins í stað hins látna. Vandinn hefur heldur ekkert með útförina að gera, heldur andlát soldánsins, krónprinsins, sem var hálfbróður konungs.”  Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Hér  fer á  eftir  dæmigerð byrjendafrétt  af visir.is  (26.10.2011)  Þessa frétt hefði mátt lagfæra, ef  ritstjóri hefði látið lesa hana  yfir: http://www.visir.is/innrasarfloti-mongola-fundinn/article/2011111029244

 

Úr dv.is (26.10.2011): Þjófarnir hafa látið hendur sópa bæði í Smáralind og í Kringlunni.   Það er  sannarlega  góðra gjalda  vert að nota   orð og orðtök sem  eru  föst í   málinu, — en þá verða menn líka að kunna orðtökin.  Það er  ekkert  til sem heitir að láta  hendur sópa, heldur er  talið um að láta greipar sópa  þegar farið  ránshendi  um  einhversstaðar. Ofbeldismenn láta  stundum hendur skipta,  beita afli, ofbeldi. Í föstudagsambögusúpu Rásar tvö (28.10.2011) var á föstudagsmorgni talað um þrífa hendur sína af  … í stað þess að tala um  að þvo hendur sínar af… Hreinsa  sig  af  einhverju. Þarna var líka  sagt: … henni vantar  aura . menningarstofnunin í Efstaleiti   telur  sig  verða að sinna   slúðri  og  hampa ambögum í  föstum   þætti. Ótrúlegt.

 

Frétt Ríkissjónvarpsins (26.10.2011) um uppboð ýmsu  dóti  úr  eigu morðingjanna á Sjöundá er ein mesta   ekki-frétt sem lengi hefur  sést á Efstaleitisskjánum. Þar kom bókstaflega ekkert fréttnæmt fram. Ekkert nýtt. Fyrirsögnin  á  vef Ríkisútvarpsins var: Nágrannar keyptu eigur dauðadæmdra. Var það frétt?

 

Úr mbl.is (27.10.2011): Samtökin hvetja Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, til að stækka griðarsvæði hvala á Faxaflóa.  Bæði í meginmáli og fyrirsögn þessarar fréttar er talað um griðarsvæði hvala, ætti að vera  griðasvæði.

 

Egill sendi eftirfarandi (27.10.2011): ,,Andri Freyr á Rás 2 sagðist hafa farið að hugsa í gærkvöldi, en hann hefði betur sleppt því karlinn. Hugsunin var um hljómsveit sem heitir Klaufarnir og hann sagðist hafa velt því fyrir sér hvort þeir væru nokkrir klaufar, nafnið væri dregið af … klaufdýrum (!). Ég átti varla orð, því þau eru með klaufir, ekki klaufa.”   –  Þótt ýmsir sem  fram koma á  Rás  tvö séu ágætlega máli farnir er það líka að finna  fólk sem   ætti ekki að fá að komast í námunda við hljóðnema.

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Finnbogi Höskuldsson skrifar:

    Sæll
    Ég hef stundum fylgst mér skrifum þínum, og finnst þau ágæt.
    Ég kvelst oft þegar ég les í blöðunum og á fleiri stöðum orðið „ungabarn“.
    Á sínum tíma lærði ég orðin kornabarn eða ungbarn.
    Það að skrifa ungabarn finnst mér bera vott um slappan skilning á íslensku máli.
    Á vefsíðu Icelandair er þetta orð einnig notað um ungbarn.

    Vel getur verið að ég leggi orð í belg síðar.
    Með bestu kveðjur,
    Finnbogi

  2. Eysteinn Pétursson skrifar:

    Það er svolítið skondið með þetta að skjóta og skera á háls. Oft heyrist í útvarpi að þessi eða hinn hafi verið skotinn og þá átt við að honum hafi verið banað. Svo er frétt í mbl.is í dag (kannski víðar) að maður hafi verið skorinn á háls. Ég legg þá meiningu í þetta að manninum hafi verið banað. Menn skera t.d. dýr ekki á háls öðruísi en að ganga af þeim dauðum. Hinsvegar kom í ljós að maðurinn sem skorinn var er bráðlifandi – sem betur fer. Þannig að mér finnst fara betur á því að menn séu skotnir til bana, sé skotið banvænt, og mönnum veittur áverki á háls (eða eitthvað í þá áttina), lifi menn þá árás af, tala nú ekki um ef menn komast heim til sín eftir skamma stund. Satt að segja setur að mér óhug og hrylling við svona fyrirsögn: „Maður skorinn á háls“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>