Molalesendur er beðnir velvirðingar á því að ólag hefur verið á birtingu Mola um málfar og miðla á DV –Blogginu undanfarna daga.
.
Það gefur aldrei góða raun að fikta við að lagfæra það sem er í góðu lagi. Vefur Ríkisútvarpsins var í ágætu lagi. Breytingar sem þar hafa verið gerðar eru ekki allar til batnaðar. Fréttir eru til dæmis ekki eins aðgengilegar og áður var.
Þorkell sendi eftirfarandi úr mbl.is (29.10.2011); Rjúpnaskytturnar tvær sem leitað var að við Vikrarvatn í gærkvöld fundust í kringum miðnætti. Mennirnir voru slæptir og þreyttir en treystu sér þó til að ganga með björgunarmönnunum í bílana ofan við Hreðarvatn eftir að hafa fengið smá hressingu.,,,, en (r)júpnaskytturnar treystu sér ekki til að fara eftir tækinu til byggða auk þess sem orka var ekki til staða fyrir meiri göngu. Þorkell bætir svo við: ,,Tja, ég veit ekki hvað ég á að segja. Vikrarvatn, Hreðarvatn, til staða – Það eru mun fleiri sem lesa mbl.is en blaðið sjálft, þannig að smitið dreifir sér meira heldur en blaðið sjálft getur gert, því það lesa það fáir nú orðið”. Molaskrifari segir:Hér er farið rangt með tvö örnefni. Vötnin heita Vikravatn og Hreðavatn. Ef notuð er leitarvélin Google sést að dreifing á villunum er þegar hafin og gengur greiðlega. Auka r er annars að vera býsna algengt. Í mbl.is er s sagt í fyrirsögn: Hálka á heiðarvegum. Ætti að mati Molaskrifara að vera: Hálka á heiðavegum.
Í fréttum Stöðvar tvö (27.10.2011) fengu fimmtíu mótmælendur fyrir utan Hörpu næstum jafnlanga umfjöllun og fjölmenn alþjóðleg ráðstefna sem haldin var inni í húsinu. Einkennilegt fréttamat. fréttamenn Stöðvar tvö mættu einnig hafa í huga að á varðskipunum okkar eru ekki skipstjórar heldur skipherrar. Það er fast í málinu og Stöð tvö á ekkert með að breyta því. Fámennu mótmælin við Hörpu fengu fimm dálka flennimynd yfir þriðjung úr síðu Morgunblaðsins (28.10.2011). Moggamenn bregðast ekki frekar en fyrri daginn.
Hreiðar sendi eftirfarandi (27.10.2011): ,,Þegar maður les fréttir þá blasir stundum við hve lítið frétta- og blaðamenn leggja á sig til að afla sér þekkingar um þau málefni eða málefnasvið sem þeir skrifa um. Eftirfarandi frétt af www.dv.is er merki um þetta:
,,Dómur var kveðinn upp í Black Pistons-málinu svokallaða í dag og voru sakborningarnir Ríkharð Júlíus Ríkharðsson, Davíð Freyr Rúnarsson og Brynjar Logi Barkarson sakfelldir. Fjölskipaður dómur Héraðsdóms Reykjavíkur kvað upp úrskurðinn.“
Þarna er dómurinn ýmist kallaður dómur eða úrskurður. Niðurstaða héraðsdóms í sakamáli er alltaf í formi dóms en aldrei í formi úrskurðar.” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Hjá Ríkisútvarpinu hafa menn mikið dálæti á skammstöfunum. Í morgunþætti Rásar tvö var fjallað um herferð til að laða ferðamenn til landsins. Þar var Háskóli Íslands ævinlega kallaður HÍ. Er of erfitt að segja Háskóli Íslands? Yfirmenn Ríkisútvarpsins hafa bannfært heiti stofnunarinnar sem nú heitir í þeirra munni bara RÚV, ekki Ríkisútvarpið, samanber RÚV-konuna sem segir svo tilgerðarlega við okkur tvisvar, þrisvar á sömu mínútunni Hér , — á RÚV þegar dagskrá er kynnt á kvöldin. búinn. Þeir sem rætt er við eiga ekki að láta bjóða sér svona ókurteisi.
Í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum (28.10.2011) hefur hlustendum að undanförnu verið sagt frá handatöku manna í grennd við Selfoss. Mennirnir eru grunaðair um að hafa haft kókaín í fórum sínum (ætlað kókaín, eins og fréttastofan segir). Reynist efnið sem hald var lagt á vera kókaín er okkur sagt að það sé stærsta mál af því tagi sem upp hafi komið á Selfossi. Viðmiðunin við Selfoss segir hlustendum nákvæmlega ekki neitt í þessu tilviki. Hér ætti auðvitað að miða við það sem gerst hefur í svona málum á landsvísu.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
31/10/2011 at 20:03 (UTC 0)
Ekki stemmir það núivið gamla pésann minn.
Sverrir skrifar:
31/10/2011 at 14:07 (UTC 0)
Vefur Ríkisútvarpsins er stórum viðmótsþýðari fyrir Makkann minn en sá fyrri. Gamli vefurinn þoldi ekki nýrri útgáfur af Windows stýrikerfum heldur þegar spila skyldi hljóðskrár. Ofmælt er að sá gamli hafi verið í lagi, hvað þá ágætu lagi!